Hólmfríður Guðmundsdóttir (Dilla) fæddist á Akureyri 7. febrúar 1931. Hún lést á líknardeild Landspítala 18. apríl síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Kópavogskirkju 30. apríl.

Elskuleg æskuvinkona mín Hólmfríður er látin. Hún var alltaf kölluð Dilla af okkur krökkunum og flestum í þá tíð, er við vorum að alast upp. Mæður okkar voru bestu vinkonur ættaðar frá Langanesi, en fluttu báðar til Akureyrar og giftust þar. Þau vinabönd slitnuðu aldrei meðan báðar lifðu og var alltaf mikill samgangur á milli heimila okkar. Við Dilla vorum bestu vinkonur fram eftir aldri og fengum að gista hjá hvor annarri ef vel var beðið um. Það var mikið farið í lystigarðinn á sumrin og á ég margar skemmtilegar minningar þaðan. Þá voru það báðar fjölskyldur með 8-10 börn, teppi og nesti og vorum við allan eftirmiðdaginn þar við leik og nutum þess að vera innan um öll þessi tré í alls konar leikjum.

Pabbi Dillu var þekktur ljósmyndari í bænum, Guðmundur Trjámann, sem flestir Akureyringar könnuðust við, en hann tók ófáar myndir af okkur og vinsælasti staðurinn að raða okkur upp á var við styttu Matthíasar, því það voru margar tröppur að sjálfri styttunni sem gott var að raða okkur á. Þá fannst okkur lífið endalaust sumar og sólskin. Við Dilla áttum bú úti á ,,klöppum" en það er þar sem Helgi magri og Þórunn Hyrna standa nú. Þá áttu þau Dilla heima yst úti í Brekkugötu og ég í 21, svo þá var stutt á milli okkar. Það var mikill drullukökubakstur og gleði mikil ef brotnaði diskur eða bolli, því það fór allt í búskap okkar Dillu. Við fórum saman í "Smábarnaskóla Kristfinns" sem þekktur var þá á Akureyri, við vorum þá 5 ára, enda jafn gamlar. Mæður okkar fóru með okkur í fyrsta sinn og stóðu aftast í kennslustofunni meðan kennarinn kannaði hvað þessi börn vissu eða við hverju hann mátti búast. Spyr hann þá okkur hvort við vitum hvað 5+5 séu mikið. Var grafarþögn í bekknum og mæðurnar ósáttar við gáfur barna sinna. Þegar allt í einu mjó rödd hrópaði; ,,Hundrað!" og tuttugu börn hrópuðu á eftir ,,Hundrað!". Kennarinn hló, en mæður okkar voru rauðar af skömm, því svo oft var búið að láta okkur telja fingurna með góðum árangri. En allt fór þetta nú vel og urðum við strax vel læsar.

Ég man eftir að oft vorum við Dilla eins eða líkt klæddar, þá saumuðu mæður okkar saman og eru til nokkrar myndir af okkur sem Guðmundur tók af því tilefni. Hann var okkar hirðljósmyndari og þakka ég honum oft í huganum fyrir það að geyma svo margar minningar fyrir okkur á myndum sínum. Með árunum minnkaði samband okkar Dillu, við giftumst, eignuðumst börnin okkar, hún bjó í Kópavogi og ég í Hvassaleiti. Ekki átti maður bíl, enda öll höftin þá, en aldrei hefur sá strengur slitnað í sundur sem myndaðist í æsku, enda sáu mæður okkar líka um það, með heimsóknum sínum. Aldrei kom ég heim svo að við mamma færum ekki til Stínu. Þetta var allt svo yndislegt fólk sem gott er að hugsa til að hafa átt þátt í að móta mann í bernsku.

Ég vil þakka Dillu minni fyrir þessi yndislegu og saklausu bernskuár sem aldrei gleymast. Ég gæti skrifað bók um allt það sem mér finnst standa upp úr sem fyllti bersku okkar af endalausum ævintýrum. Elsku ljúfa og góða vinkona, ég þakka þér allt sem gladdi huga okkar saman á æskudögum okkar. Þú varst góð kona og móðir, það var flest sem prýddi þig, enda eignaðist þú dásamlegt heimili og eiginmann.

Ég sendi börnum og afkomendum Dillu og Gylfa hugheilar samúðarkveðjur en ég veit að Dilla mín fær góða ferð til annarra heima.

Ásta Hauksdóttir.

Ásta Hauksdóttir.