Fiðluleikarinn í Quingdao. Halldór Ásgrímsson, Gerður Gunnarsdóttir og fleiri.
Fiðluleikarinn í Quingdao. Halldór Ásgrímsson, Gerður Gunnarsdóttir og fleiri.
RUT Ingólfsdóttir fiðluleikari hefur tvívegis sótt Kína heim, árið 1998 með Gerrit Schuil píanóleikara og 1999 með Kammersveit Reykjavíkur.

RUT Ingólfsdóttir fiðluleikari hefur tvívegis sótt Kína heim, árið 1998 með Gerrit Schuil píanóleikara og 1999 með Kammersveit Reykjavíkur.

"Báðar ferðirnar voru til komnar fyrir tilstilli Ólafs Egilssonar sendiherra, sem hefur verið óþreytandi við að koma íslenskum listamönnum og íslenskri list á framfæri í Kína. Þetta voru algjörar ævintýraferðir, af því að við vorum að spila á stöðum þar sem lítil vestræn tónlistarhefð var fyrir, sérstaklega í fyrri ferðinni. Við Gerrit vorum í borginni Harbin í Norðaustur-Kína og þar eru mikil rússnesk áhrif. Borgin er þekktust fyrir ísskúlptúrasýningar sem haldnar eru á veturna. Borgin hefur greinilega staðið í stað í áratugi; þarna lá járnbrautin til Vladivostok, en ennþá hestvagnar á götunum og margt ótrúlegt að sjá. Við spiluðum á hátíð; héldum tvenna tónleika og það var mjög vel tekið á móti okkur. En að einhver vissi eitthvað um Ísland þurfti maður ekki að láta sér detta í hug. Við lentum í tungumálaerfiðleikum, en höfðum þó túlk með okkur allan tímann. Það var kona sem kenndi ensku í háskólanum og hafði boðist til að vera fylgdarkona okkar. Við vorum í hennar ágætu höndum og mannsins hennar, en aðra gátum við ekki talað við beint. Þegar komið er á þessar slóðir getur maður ekkert talað nema í gegnum túlka.

Ísland fjarlægt

Í ferð okkar Gerrits spiluðum við nokkur íslensk verk; sónötur eftir Jón Nordal og Fjölni Stefánsson og Rómönsu eftir Árna Björnsson, og þeim var öllum mjög vel tekið, en maður hafði það þó á tilfinningunni að enginn þekkti til landsins eða tónlistarinnar. Frá Harbin fórum við til borgar sem heitir Dalian þar sem Kínverjar og Íslendingar eiga mikil samskipti í kringum skipasmíðar. Það var skipasmíðastöðin sem stóð fyrir tónleikum; leigði hús og fyllti það af boðsgestum. Þar voru hermenn jafnt sem börn í hljóðfæranámi og eftir tónleikana hittum við hljóðfæraleikara og fiðlusmið og fleiri sem hafði verið boðið á tónleikana, en maður hafði á tilfinningunni að Ísland væri þessu fólki ansi fjarlægt.

Ferð Kammersveitar Reykjavíkur ári seinna var skipulögð í framhaldi af ferð okkar Gerrits. Við Gerrit áttum fund með umboðsfólki síðasta daginn okkar í Peking og uppúr því kom boðið um að Kammersveitin kæmi til Kína ári seinna.

Í báðum ferðunum var ótrúlega vel tekið á móti okkur og af einstakri elskusemi. Kínverjarnir lögðu mikið á sig til að gera allt fyrir okkur; sýna okkur allt sem hægt var; fara með okkur á Kínamúrinn, í Forboðnu borgina og fleira. Í bæði skiptin reyndu þeir að leyfa okkur að njóta þessa líka sem ferðalags. Í seinni ferðinni tókst allt mjög vel eins og í þeirri fyrri, en hver við vorum var kannski meiri spurning fyrir Kínverjana. Á tónleikum Kammersveitarinnar í Peking, sem sendiráðið skipulagði, var þónokkuð margt fólk sem þekkti þó til vestrænnar menningar og þeim tónleikum var mjög vel tekið. Ég heyri það á þeim íslensku listamönnum sem hafa farið til Kína síðan að þar er allt að breytast í mjög vestrænt horf.

Bág kjör háskólakennara

Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að hafa ekki bara komið til Peking, heldur haft tækifæri til að fara til fleiri borga og sjá muninn. Dalian, þar sem við Gerrit spiluðum, var til dæmis eins og hver önnur nútímaborg í Ameríku með háhýsum, - og allt svo nýtt og hreint. Það var eins og að stökkva öld fram í tímann að koma þangað frá Harbin. Í þeirri ferð vorum við Gerrit mikið með túlkinum okkar og manninum hennar. Þau sögðu okkur mikið frá sínum aðstæðum sem voru ótrúlega slæmar. Þau voru bæði háskólakennarar; hún kenndi ensku en hafði aldrei komið til enskumælandi lands. Launin þeirra voru eitthvað um fimmþúsund krónur á mánuði og augljóst að þau höfðu mjög lágt kaup miðað við aðra í Kína. Okkur fannst þau bitur. Þau voru ekki af réttum ættum og töluðu mikið um stéttaskiptingu, að fólk yrði að hafa réttu samböndin til að eiga von um að komast áfram og fá hærra kaup. Við Gerrit vorum mikið með þessum hjónum og sáum að lífið var aldeilis ekki auðvelt hjá þeim. Kínverjarnir voru einstakir, og vildu líka að við spiluðum kínverska tónlist fyrir þá. Það sýndi okkur líka að þeir vissu ekki alveg hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, því þeir réttu okkur bara nóturnar og vildu að við spiluðum. Við Gerrit spiluðum nokkur lítil kínversk lög. Í ferð Kammersveitarinnar bjuggum við okkur undir þetta og létum útsetja fyrir okkur nokkur lítil lög til að hafa með okkur. Þetta voru lög eins og Maó formaður og annað mjög þekkt, Fiðrildaelskendurnir sem ég held að sé þjóðlag, en það er byggt á þeirra rómeó- og júlíusögu um elskendur sem breytast í fiðrildi þegar þeir fá ekki að eigast. Það hefur verið saminn fiðlukonsert við þetta stef og ég keypti mér nóturnar að honum og var gefinn geisladiskur með, með þeim óskum að ég spilaði þetta næst þegar ég kæmi. Það er aldrei að vita hvernig rætist úr því."

Öðru vísi fiðluleikari ílentist í Kína

Þegar Gerður Gunnarsdóttir myndhöggvari fór til Kína árið 1999 varð einn ferðafélagi hennar eftir þar í landi. Það var Fiðluleikarinn, höggmynd eftir hana sjálfa.

"Árið 1999 barst tilkynning í Samband íslenskra myndlistarmanna þess efnis Ísland hefði fengið leyfi til að senda þrjá fulltrúa landsins á alþjóðlega myndlistarsýningu í borginni Quingdao. Það var reiknað með um 160 myndlistarmönnum alls staðar að úr heiminum. Það er langt til Kína, en ég sló strax til. Þeir sem sóttu um sendu myndir af verkum og annað til Kína. Kínverjar völdu svo þrjá íslenska myndlistarmenn til að taka þátt í sýningunni, auk mín voru það Tryggvi Ólafsson og Ásta Ólafsdóttir. Þetta var rosalega spennandi og mikið tækifæri fyrir mig. Ég átti þrjú stór verk sem ég lét pakka inn og senda til Kína. Það var verið að vígja nýja menningarmiðstöð í Quingdao og hún var opnuð með þessari sýningu. Það var geysilega vel að öllu staðið og mikil og stór sýningarskrá gefin út. Hver listamaður skildi svo eftir eitt verk í Quingdao, og ég valdi verk sem ég kalla Fiðluleikarann. Kínverjarnir voru mjög hrifnir af myndinni, því fiðlan er eitt af fyrstu hljóðfærunum sem börn læra á hjá þeim. Þetta þótti mér ákaflega skemmtilegt.

Stjórnandi í fótspor Fiðluleikara

Áður en ég fór til Kína hafði Hafnarfjarðarbær keypt eitt af verkunum mínum, sem var Stjórnandi. Sú mynd var send til Baoding sem er vinabær Hafnarfjarðar. Ég var farin frá Kína þegar myndin kom þangað, þannig að Ólafur Egilsson sendiherra afhenti hana að gjöf fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. Baoding er lítil borg skammt frá Peking en mjög indæl. Þegar við vorum í þessari ferð, áður en Stjórnandinn kom þangað, var Kór Öldutúnsskóla að syngja þar og við Grétar Kristjánsson maðurinn minn slógumst í för með Ólafi Egilssyni sendiherra og Rögnu konu hans til að hlusta á kórinn og skoða borgina. Það var algjört ævintýri. Kína er bara eitt ævintýri út af fyrir sig.

En þeir í Quingdao urðu svo hrifnir af Fiðluleikaranum, að þegar ég kom heim höfðu þeir samband við mig og spurðu hvort þeir mættu steypa hann í brons, og hafa annað verkið í Tónlistargarðinum hjá sér og hitt inni í Menningarmiðstöðinni. Ég var að sjálfsögðu yfir mig hrifin og samþykkti það í hvelli. Það þýddi að ég varð að fara aftur til Kína 2001, og var náttúrulega mjög ánægð með það. Þá fórum við með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra og fjölmörgum Íslendingum, því það var verið að fagna þrjátíu ára stjórnmálasambandi þjóðanna. Við lentum í þessu föruneyti og það var óskaplega gaman. Þetta var mikil athöfn; Halldór Ásgrímsson afhjúpaði verkið og hélt ræðu, og það var virkilega vel staðið að þessu af Kínverjanna hálfu. Ég gat ekki verið annað en stolt, því ég held að ég sé fyrsti og eini Íslendingurinn sem á verk á opinberum stöðum í Kína. Ég var jafnframt fyrsti erlendi listamaðurinn sem fékk að setja upp höggmynd í Tónlistargarðinum, þar voru þá eingöngu verk eftir Kínverja. Ég á ekki bara þessi þrjú verk í Kína, því það fjórða er í Íslenska sendiráðinu í Peking.

Mér fannst ýmislegt hafa breyst þótt það væru ekki nema tvö ár á milli heimsókna minna til Kína; sérstaklega í Peking. Hraðinn var meiri og bílaumferðin meiri, og þeir eru fljótir að taka við nýjungum. Ef við ætlum að reyna að sjá eitthvað af þessu gamla verðum við sennilega að flýta okkur, þeir eru svo fljótir að taka við nýjungum. Í Peking voru menn byrjaðir að taka það sem þeir kalla hutongs, þessar örmjóu smágötur sem er ótrúlega gaman að skoða. Það er heilt ævintýri út af fyrir sig. Þetta eru húsagötur, svo mjóar, að það er ekki hægt að keyra bíla þar. Húsin standa báðum megin götunnar með verslanir á jarðhæðinni, en fólkið býr á efri hæðunum. Á kvöldin ber fólk eldavélarnar sínar út á gangstétt og eldar; öll fjölskyldan saman. Þessu voru þeir að byrja að ryðja í burtu, en ég held að þeir hafi ákveðið núna að vernda ákveðin hutong-svæði sem ekki verður hreyft við. Það var margt svona sem mér fannst óskaplega gaman að sjá og upplifa í Kína. Kínverjar eru einstaklega elskulegir og hlýlegir og afar hjálplegir; ég myndi fara þangað hvenær sem er aftur."