HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt Reykjavíkurborg og Tryggingamiðstöðina hf.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt Reykjavíkurborg og Tryggingamiðstöðina hf. til að greiða sextugri konu tæplega tíu milljónir króna í bætur vegna slyss sem hún varð fyrir í vagni Strætisvagna Reykjavíkur í september 1997, en óumdeilt er að allir vagnar Strætisvagna Reykjavíkur voru á umræddum tíma ábyrgðartryggðir hjá Tryggingu hf., síðar Tryggingamiðstöðinni hf.

Málsatvik voru þau að konan lagði farmiða sinn á lítið borð við hlið vagnstjórans og hugðist síðan ganga inn eftir vagninum. Þá þreif vagnstjórinn í handlegg hennar og stöðvaði hana með skömmum yfir því að hún hefði ekki sett farmiðann í þar til gerðan kassa. Á meðan þetta fór fram ók vagnstjórinn af stað. Kallað var aftan úr vagninum og vagnstjórinn spurður hvort hann ætlaði ekki að stöðva vagninn svo að nokkrir farþegar kæmust út á biðstöðinni. Hafi bílstjórinn þá snarhemlað og við það hafi konan misst jafnvægið þar sem hún var á leið inn eftir vagninum. Hafi hún gripið upp fyrir sig í súlu til þess að verja sig falli en við það fengið slink á handlegg og öxl.

Sýknukrafa stefndu, Reykjavíkurborgar og Tryggingamiðstöðvarinnar var byggð á því að með öllu væri ósannað að líkamstjón konunnar hefði hlotist af notkun strætisvagns í eigu Strætisvagna Reykjavíkur og gætu stefndu þar af leiðandi ekki borið ábyrgð á tjóni hennar.

Það var hins vegar álit dómsins að frásögn konunnar væri trúverðug og komu áverkar vel heim og saman við lýsingu hennar á slysinu. Ekki þótti það óeðlilegt að hún leitaði ekki lækna fyrr en tæpum mánuði eftir slysið. Einnig þótti frásögn konunnar fá stuðning í vitnisburði samstarfskvenna hennar. Þá þótti upplýst að konan tilkynnti forstjóra Strætisvagna Reykjavíkur atburðinn.