JÓNATAN Þór Magnússon, handknattleiksmaður úr Íslandsmeistaraliði KA, segist fastlega reikna með því að vera áfram í herbúðum KA á næsta tímabili en hann hafnaði tilboði frá danska úrvalsdeildarliðinu Tvis Holstebro sem hann skoðaði aðstæður hjá í...

JÓNATAN Þór Magnússon, handknattleiksmaður úr Íslandsmeistaraliði KA, segist fastlega reikna með því að vera áfram í herbúðum KA á næsta tímabili en hann hafnaði tilboði frá danska úrvalsdeildarliðinu Tvis Holstebro sem hann skoðaði aðstæður hjá í síðustu viku.

"Þeir vildu semja við mig en eftir að hafa skoðað málið vel og vandlega voru mínusarnir fleiri en plúsarnir. Eins og staðan lítur út í dag verð ég áfram hjá KA," sagði Jónatan í samtali við Morgunblaðið.

Heimir Örn Árnason, félagi Jónatans hjá KA, hefur ekki gert upp hug sinn en norska liðið Haslum, sem leikur í næstefstu deild, hyggst gera Heimi tilboð. Heimir Örn fór út til Noregs í boði félagsins í síðustu viku og átti viðræður við forráðamenn félagsins.

"Mér leist mjög vel á félagið og í raun var þetta betra en ég reiknaði með. Það getur vel komið til greina að ég gangi til liðs við Haslum. Mér skilst að liðið ætli að gera mér tilboð og ég kem til með að vega það og meta áður en ég tek ákvörðun," sagði Heimir Örn í samtali við Morgunblaðið í gær en hann heldur í dag í tveggja vikna frí til Spánar.

Kristján Halldórsson var fyrir skömmu ráðinn þjálfari Haslum og með liðinu leika tveir fyrrum leikmenn Vals - Daníel Ragnarsson og Theodór Valsson.