Bowie búinn að skipta um útgefanda, enn eina ferðina, og reiðir sig áfram á gamla handbragðið.

ÉG VAR nokkuð hrifinn af síðustu plötu Davids Bowies Hours, þar sem hann jós markvisst úr reynslubrunni sínum og beitti auðheyrilega handbragði sem hann hafði ekki gert frá fyrstu plötum sínum. Enn er hann með hugann við árdaga ferilsins og gengur jafnvel ennþá lengra í þeim efnum með því að kalla til sögunnar gamla upptökustjórann sinn Tony Visconti en þeir hafa ekki unnið saman í rúma tvo áratugi eða síðan þeir stýrðu saman upptökum á Scary Monsters. Sumum kann að þykja það kærkomnir fagnaðarfundir og fyrirfram var ég vissulega í þeim hópi. En eftir að hafa hlýtt ítrekað á útkomuna verð ég að segja að ráðagerðin sú hafi heldur óráðleg fyrir Bowie. Heathen er nefnilega íhaldssamasta plata síðan á hörmungarskeiði níunda áratugarins. Það er auðvitað sorglegt að heyra aðra eins hugleysu frá annars einhverjum frjóasta og framsýnasta manni rokksögunnar. Sérstaklega er það sorglegt í ljósi þess að lagasmíðarnar eru hans kröftugustu síðan á hinni grátlega vanmetnu 1. Outside og missa marks í hefðbundnum og fyrirsjáanlegum útsetningum. Upphafslagið og eitt besta lag plötunnar "Sunday" vekur reyndar falskar vonir um að í vændum sé viðlíka snilld en tilgangslaus útgáfa á Pixies-laginu "Cactus", sem á eftir fylgir, slær snögglega á þær væntingar. Og síðan tekur við spælingin yfir því hversu andlitlar útsetningar spilla fyrir annars haganlega sömdum "Slip Away" og "Slow Burn".

En þrátt fyrir viss vonbrigði eru samt nægilega margir ljósir punktar á Heathen til að platan flokkist undir skyldueign fyrir fylgjendur Bowies. Hann hefur t.a.m. blessunarlega losað sig við Fripp-eftirhermuna Reeves Gabriel og óbærilegt gítarvælið hans. Síðan eru lagasmíðar Bowies fyrsta flokks, eins og áður segir, melódíur skemmtilega lúmskar og ágengar og textarnir óvenju gegnsæir og einlægir. Í reynd eru tökulögin þrjú, áðurnefnt Pixies-lag, Neil Young-slagarinn "I've Been Waiting For You" og gamla geimópus Legendary Stardust Cowboys "I Took a Trip on a Gemini Spaceship", slökustu lög plötunnar og harla óskiljanlegir valkostir.

Heathen mun þegar fram líða stundir ekki flokkast með bestu plötum Bowies en þegar allt kemur til alls og með sérstöku tilliti til lagasmíðanna þá er hún samt frambærilegri en flest það sem karlinn hefur verið að gera undanfarna tvo áratugi.

En ef þú ert að lesa þetta kæri Bowie, þá vil ég nota tækifærið til að biðja þig um að taka á ný upp þitt góða fordæmi, að horfa fram á veginn, í stað þess að horfa reiður um öxl.&sstar;&sstar;&sstar;

Skarphéðinn Guðmundsson