SALA á fólksbílum dróst saman um fimmtung fyrstu fimm mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Sala á þremur bílategundum af fimmtán jókst, mest á Skoda eða um 39,3%. Einnig jókst sala á kóresku bílunum Hyundai um 20% og á Kia um 14,8%.

SALA á fólksbílum dróst saman um fimmtung fyrstu fimm mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Sala á þremur bílategundum af fimmtán jókst, mest á Skoda eða um 39,3%. Einnig jókst sala á kóresku bílunum Hyundai um 20% og á Kia um 14,8%.

Stefán Ásgrímsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda segir að gæði þessara bíla hafi farið mjög vaxandi, sérstaklega undanfarin fjögur ár, en þeir séu samt sem áður ódýrir. "Eftir að Skoda komst í eigu Volkswagen hefur hann batnað gríðarlega mikið. Þetta sýna t.d. bilanatíðnitölur frá Þýskalandi. Kóresku bílarnir hafa einnig batnað mjög mikið og þeir virðast vera komnir í flokk með japönskum bílum sem hafa verið hvað minnst hrjáðir af bilunum," segir Stefán.

Hekla hefur umboð fyrir Skoda á Íslandi. Sverrir Sigfússon, framkvæmdastjóri hjá Heklu, segir að sala á Skoda hafi farið stöðugt vaxandi undanfarin ár. Að hans mati er ástæðan bæði verð og gæði. "Þetta er mjög vel byggður bíll, á góðu verði og vel búinn. Skoda er vel samkeppnishæfur við hvaða evrópskan eða japanskan bíl sem er," segir Sverrir.

Skoda Oktavia 1600 kostar nú nýr 1.620 þúsund krónur. Til samanburðar kostar nýr Volkswagen Golf 1600 1.850 þúsund krónur og ný Toyota Corolla 1600 1.759 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum á vefsíðum umboðanna.

Bílar frá Kóreu verða vinsælli

Samkvæmt könnun J.D. Power í Bandaríkjunum hafa gæði í bílaframleiðslu aukist mjög og voru kóresku framleiðendurnir Kia og Hyundai nefndir sérstaklega. Sala á þessum bílum hefur einnig aukist og að sögn Guðmundar Gíslasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra B&L, jókst sala verulega í maímánuði á þessum tegundum í Bandaríkjunum á meðan sala dróst saman á öðrum tegundum. Jepplingurinn Santa Fe er söluhæsti Hyundai-bíllinn á Íslandi að sögn Guðmundar. "Fleiri en ein könnun hefur sýnt fram á lága bilanatíðni Hyundai og vöruúrvalið hjá Hyundai er einnig mjög gott," segir hann.

Hyundai Santa Fe kostar nýr 2.350 þúsund krónur. Til samanburðar kostar Suzuki Grand Vitara 2.438 þúsund krónur og Toyota Rav 4 2.489 þúsund krónur.

Kia Sportage er söluhæsti bíll Kia á Íslandi og er í svipuðum flokki og Santa Fe, Grand Vitara og Rav 4. Sportage er svokallaður jepplingur en er þó byggður á grind. Nýr Sportage með tveggja lítra bensínvél kostar 2.090 þúsund krónur.

Stefán Tómasson, forstjóri Kia á Íslandi, segir að svo virðist sem ódýrari bílar verði vinsælli hjá almenningi þegar harðnar á dalnum. Söluaukningin hjá Kia stafi fyrst og fremst af viðskiptum við bílaleigur og af sölu á smærri og ódýrari bílum sem standist fyllilega samanburð við aðrar tegundir. "Söluaukningin fyrstu fimm mánuðina er á Skoda, Hyundai og Kia en gæði allra þessara tegunda hafa aukist mjög mikið undanfarin ár," segir Stefán.