Staðan í þeim harðvítugu deilum, sem staðið hafa um yfirráðin yfir Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis undanfarnar vikur, er nú sú, að hinir svonefndu fimmmenningar, sem vildu kaupa stofnfjárbréf eigenda þeirra og selja Búnaðarbanka Íslands hf.

Staðan í þeim harðvítugu deilum, sem staðið hafa um yfirráðin yfir Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis undanfarnar vikur, er nú sú, að hinir svonefndu fimmmenningar, sem vildu kaupa stofnfjárbréf eigenda þeirra og selja Búnaðarbanka Íslands hf., hafa dregið sig í hlé en fyrir liggur tilboð frá Starfsmannasjóði SPRON um að kaupa bréfin. Á morgun, mánudag, verður svo haldinn sá almenni fundur stofnfjáreigenda, sem beðið hefur verið eftir.

Frá því að þetta mál kom upp hefur Morgunblaðið lagt áherzlu á, að með tilboði fimmmenninganna í bréf stofnfjáreigenda væri gengið þvert á markmið og vilja Alþingis með þeirri löggjöf, sem sett var til að auðvelda hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Kjarninn í þeirri lagasetningu var sá, að koma í veg fyrir að komið yrði á nýju gjafakvótakerfi í kringum stofnfjárbréf í sparisjóðunum. Þetta er óumdeilt og þarf ekki að endurtaka þau rök, sem Morgunblaðið hefur fært fram fyrir þessari afstöðu. Hún er raunar ekki ný, þar sem blaðið byrjaði að fjalla um þennan þátt málsins fyrir nokkrum árum, þegar umræður hófust um hugsanlega hlutafélagavæðingu sparisjóðanna og við blasti að hætta væri á að nýtt gjafakvótakerfi yrði til í tengslum við þær breytingar.

Greinargerð Fjármálaeftirlitsins benti hins vegar til þess, að gat væri í lagasetningunni, og þess vegna væri nauðsynlegt að Alþingi tæki þetta mál upp strax í haust til þess að bæta úr því, sem áfátt væri í löggjöfinni, og tryggja þannig að vilji Alþingis næði fram að ganga. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og nokkrir þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið undir þetta sjónarmið. Morgunblaðið hefur hvatt til þess, að Alþingi tæki í taumana í þessum efnum.

Þegar fjallað er um deilurnar um SPRON út frá þessu grundvallarsjónarmiði, sem er auðvitað það, sem máli skiptir, er ljóst, að það skiptir engu máli hver hugsanlegur kaupandi stofnfjárbréfanna er, hvort um er að ræða fimmmenningana svonefndu, Búnaðarbanka Íslands eða Starfsmannasjóð SPRON.

Þótt Starfsmannasjóður SPRON hafi orðið ofan á í deilunum við fimmmenningana og Búnaðarbankann breytir það engu um þau grundvallarsjónarmið, sem hér hefur verið lýst.

Vilji Alþingis er skýr. Lagasetningin virðist hafa verið gölluð ef tekið er mið af greinargerð Fjármálaeftirlitsins. Úr þessu verður Alþingi að bæta strax í haust.

Stofnfjáreigendur vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu, þegar þeir keyptu stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og í öðrum sparisjóðum, og geta ekki búizt við neinu öðru, hvað sem líður þeim vonum, sem kunna að hafa kviknað í brjóstum þeirra um verulegan ávinning umfram það.

Sá kjarni þessa máls, sem Morgunblaðið hefur fjallað um í tengslum við deilurnar um SPRON, skýrist kannski betur, ef reiknað væri út hver hlutur stofnfjáreigenda yrði í sumum öðrum sparisjóðum, sem nálgast SPRON að stærð og eignastöðu en þar sem stofnfjáreigendur eru mun færri. Í SPRON eru þeir um 1.100 en í Sparisjóði Hafnarfjarðar til dæmis 45. Þar mundu milljónatugir koma í hlut hvers stofnfjáreiganda ef upphaflegar hugmyndir fimmmenninganna og nú Starfsmannasjóðs SPRON mundu ná fram að ganga. Ekkert væri við það að athuga, ef til þess hefði verið stofnað með leikreglunum í upphafi. Svo var ekki.