Stefán Hörður Grímsson skáld fæddist í Hafnarfirði 31. mars 1919. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 18. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Stefánsdóttir og Grímur Gísli Jónasson. Bróðir Stefáns var Borgar, d. 1953.

Stefán Hörður var ókvæntur og barnlaus en bjó í allmörg ár með Unni Eiríksdóttur rithöfundi, d. 1976.

Stefán Hörður ólst upp á Álftanesi og undir Eyjafjöllum, stundaði nám við Laugarvatnsskóla 1939-1940 og einnig í ýmsum tungumálaskólum. Auk ritstarfa vann Stefán Hörður margs konar störf um ævina; hann var sjómaður framan af ævi á fiskiskipum og farskipum.

Fyrsta ljóðabók Stefáns Harðar, Glugginn snýr í norður, kom út 1946 en verulega athygli vakti önnur bók hans, Svartálfadans, frá árinu 1951. Hliðin á sléttunni kom út 1970 og Farvegir 1981. Árið 1987 kom Tengsl sem var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs tveimur árum síðar, en fyrir síðustu bók sína, Yfir heiðan morgun, 1989, hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrstur höfunda árið 1990. Heildarsafn með ljóðum Stefáns Harðar kom út árið 2000 og verk hans hafa ennfremur birst á bók í Þýskalandi, Svíþjóð, Frakklandi og Danmörku. Stefán Hörður hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. úr Rithöfundasjóði Íslands og Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og heiðurslaun listamanna frá 1995. Einnig var hann heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands.

Útför Stefáns Harðar verður gerð frá Dómkirkjunni á morgun, mánudaginn 30. september, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

hyldjúp einvera að baki hæverskum ljóma

Kveðja frá Rithöfundasambandi Íslands

Sé horft út í geiminn

gegnum skýlausa nótt

sést að bilin milli stjarna

mynda stjörnur

og stjörnur bilin

Meistari ljóðsins, Stefán Hörður Grímsson, er horfinn á braut. Eftir standa verk hans, fáorð, hnitmiðuð og með sínum sérstaka blæ. Þótt hann væri ekki afkastamikið skáld og langur tími liði jafnan á milli bóka, náði hann tvímælalaust að fullkomna æviverkið og skipa sér á bekk með merkustu skáldum okkar Íslendinga á nýliðinni öld. Áhrifa hans gætir víða í skáldskap yngri höfunda og rista eflaust dýpra en séð verður á líðandi stund. Á seinni árum dró Stefán Hörður sig í hlé frá skarkala heimsins, baðst undan heimsóknum og vildi fyrir enga muni lenda í sviðsljósinu. Er skemmst að minnast þess að rithöfundar vildu heiðra hann með bókmenntadagskrá á áttræðisafmælinu en hann óskaði eindregið eftir að það yrði látið ógert. Þá var gott til þess að vita að Ágústína Jónsdóttir ljóðskáld bar einstaka umhyggju fyrir honum og reyndist honum stoð og stytta í hvívetna. Stefán Hörður var kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambandsins vorið 1989, en á árum áður hafði hann m.a. setið í stjórn Rithöfundafélags Íslands og gegnt trúnaðarstörfum í þágu þess.

Félagar í Rithöfundasambandi Íslands kveðja Stefán Hörð Grímsson með virðingu og þökk.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

Stefán Hörður Grímsson var enginn unglingur þegar ég sá hann fyrst en þá hafði ég dregið upp í huganum óljósa mynd af hrjúfum öldungi en heilsaði síðan hæverskum manni, sem hafði traustvekjandi handtak, glettni í augum og milda rödd.

Hann virti mig fyrir sér eins og til að ganga úr skugga um að ég væri sú sem ég sagðist vera, ljóðunnandi sem óskaði að skyggnast nánar inn í ljóðheima hans. Hann var tortrygginn að eðlisfari, eflaust ekki að ástæðulausu, en féllst þó á að við ræddum saman um líf og list. Segja má að hann hafi stjórnað því, á óbeinan hátt, að viðræðum okkar lauk ekki fyrr en núna á haustdögum, á ári fjallsins, þegar hann kvaddi þennan heim.

Eftir andlát hans leit ég til himins og sá að tunglið skein glatt, eitt af eftirlætistáknum hans.

Stefán Hörður var heiðursskáld sem helgaði ljóðlistinni krafta sína alla tíð. Hann byrjaði að setja saman ljóð á barnsaldri og fékk þá forsmekkinn af því sem síðar kom: ávítur eða viðvaranir. Afasystir hans reyndi að koma í veg fyrir að hann setti saman ljótar lausavísur, sem hann hlyti bágt fyrir. Það kom hinsvegar í ljós þegar ungi maðurinn þroskaðist að ljóð hans voru fjarri öllum ljótleika. Hann orti um mannleg samskipti, ástina, náttúruna og hið viðkvæma og smáa; fugla, fiðrildi, blóm en honum nægði ekki að gera það með hefðbundnum aðferðum. Hann varð eitt af formbyltingarskáldunum og þurfti reyndar að heyja baráttu til að losna undan ofurvaldi hefðbundins ljóðforms.

Stefán Hörður tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum á Kjarvalsstöðum árið 1990 úr hendi forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur, fyrir síðustu ljóðabók sína: Yfir heiðan morgun. Ég hreifst strax af ljóðunum í þeirri bók og skynjaði eitthvað sterkt og heillandi í þeim sem snart mig djúpt.

Síðan hefur bókin fylgt mér heima og að heiman.

Það gladdi Stefán áttræðan að sjá heildarsafn ljóða sinna í einni bók sem Mál og menning gaf út. Það skipti hann máli að geta litið æviverk sitt í einni heild og fallegri umgjörð. Hann efaðist aldrei um kynngimátt orðsins og það gladdi hann einnig þegar ljóð hans voru þýdd og hlutu góða dóma erlendis. Að boðskapur hans skyldi ná til annarra þjóða. Það dró hins vegar hvorki úr hógværð hans né lítillæti.

Stefán unni tónlist, hlustaði talsvert á útvarp, var vel lesinn og minnugur á það sem hann kærði sig um að muna. Aðrar minningar gróf hann í glatkistuna. Stundum festi hann sig í eigin fjötri eins og t.d. þegar hann tók að neita sér um að fara út úr húsi en það gerði hann í nokkur ár og bar því við að hann væri sjúkur. Hann hafði gengið í gegnum ýmsa hrakninga heilsufarslega og m.a. fengið kransæðastíflu, sem reyndist vera hans banamein. Hann óttaðist stöðugt versnandi heilsufar, hreyfði sig lítið sem ekkert og hrörnaði líkamlega fyrr en ella þegar hann einangraði sig innan veggja. Önnur hönd hans var máttlítil og háði það honum til daglegra verka.

Hann hleypti engu öðru að sér en andagiftinni, sem honum kom vel saman við.

En sem betur fer breyttist hann nokkuð hin síðari ár og dreif sig m.a. út undir bert loft nokkrum sinnum. Hann fór í ökuferðir, svipaðist um í höfuðborginni og nálægum byggðarlögum. Fór m.a. út á Álftanes, að Bessastöðum, en þar lék hann sér á bernskuárunum, í fæðingarstað sinn Hafnarfjörð, að Vífilsstöðum og á Kjalarnesið. Hann litaðist um í Öskjuhlíðinni og nágrenni og voru þetta eftirminnilegar ferðir að mörgu leyti. Stefáni þóttu litirnir skýrari en áður, borgin hefði þanist út og vegirnir breyst. Það var ánægjulegt að sjá hve hann naut þess að drekka í sig náttúruna sem fyrir augu bar og fann hjá sér þörf að yrkja en úr því varð aldrei - því miður.

Vífilsstaðir voru örlagastaður í lífi hans. Borgar bróðir hans dvaldist þar en hann dó úr berklum. Stefán dvaldist þar einnig um skeið og kynntist þá Unni Eiríksdóttur, sambýliskonu sinni. Þau bjuggu í Hlíðunum en fluttu svo þaðan að Hátúni í Reykjavík, í hús Öryrkjabandalagsins. Unnur var ekki hraust kona og andaðist aðeins 55 ára gömul. Eftir sat Stefán, öryrki og einfari með listamannssál, stórt hjarta, harða skel og sterka tjáningarþörf. Maður sem lét hugverk sín hvísla hrópum til umheimsins, máttugum stefjum sem hljóma bæði sem lágvært fótatak og hávær raust.

Nú þegar hann kveður okkur öll, á sinn hljóða hátt, efast ég ekki um að fuglar munu syngja honum sálm eins fallega og hann hafði ort um þá. Síðast var heimili hans á Hrafnistu í Reykjavík. Þar sem hann naut umönnunar hlýrra handa. En mynd hans lifir: hlédrægur maður, veikur og sterkur í senn og skemmtilega kíminn. Maður sem vakti grun og von, bros og hlýju.

Stefán var snyrtimenni og gekk vel um eigur sínar en seint verður um hann sagt að hann hafi sankað að sér veraldlegum gæðum. Hann þurfti ekki á slíku að halda; honum var meira í mun að vinna úr lífinu á ljóðrænan hátt.

Ég samhryggist unnendum ljóðlistar sem nú hafa misst ástsælt skáld.

Stefáni vil ég þakka gefandi samræður og ég tileinka honum eftirfarandi ljóð úr síðustu ljóðabók minni Vorflautu. Það var ort eftir eina af ferðum okkar á bernskuslóðir hans, Álftanesið. Megi Stefán Hörður njóta friðar í faðmi ættmenna sinna í Bessastaðagarði. Sjálfur sagði hann eitt sinn við mig: "Álftanesið á mig allan."

Skógartjörn

Úr dröfnóttum eggjum

skríða tveir læsir

ungar

lesa úr fjöðrum

við vatnasöng

á Skógtjörn

stafa daggarstjörnur

friði

Ágústína Jónsdóttir.

Stefán Hörður kvað ungur um óró hins myrka blóðs, "sem kemur í formleysi / og heldur dyrum hamingjunnar / í hálfa gátt". Þau upphafsorð að höfundarverki hans, ljóðið Stef í Glugginn snýr í norður, voru á marga lund forsögn þess sem fram kom svo ríkulega æ síðan í ljóðum hans; hann ávarpar þetta hreyfiafl ástar, lífs og listar, óróleikann, óvissuna, sem hann kveðst að vísu hata - en "daginn sem ég myrði þig / mun hjarta mitt springa", yrkir hann.

Við hinztu spor Stefáns þakka ég nú af hrærðum huga alla hans fylgd gegnum árin; hún hófst með föðurlegum umvöndunum, umhyggju og skilningi í minn garð, og eftir því sem tímar liðu markaðist hún af skemmtan, góðvild, trausti og trúnaði. Ég gæti ekki skráð annál þeirra stunda; sagan yrði hvorki sannari né betri við það. Þeir sem nutu samvista við Stefán muna hvílíkt dýrindi þær voru, fágætur vitnisburður um einstakan persónuleika, glæstur vottur um listræna trúmennsku; og þeim fylgdi ylríkur andblær, sem af og til var rofinn af heilnæmum þjósti.

Hin síðustu ár myndaðist vík milli Stefáns og vina hans flestra; hann gerðist æ varari um sig, hvarf af vettvangi og gaf ekki á sér færi persónulega svo nokkru næmi. Sú ákvörðun var yfirleitt virt og skilin af þeim sem á annað borð gera sér ljósan rétt hvers manns til að fara sinna ferða, sé það öðrum að meinalausu. Svo gat virzt sem hann kysi að lifa sín efstu ár við algjöra kyrrð og þau ein mannleg afskipti sem brýnasta nauður rak til. Vart var að undra þótt fólki þætti slíkir hættir hans jaðra við meinlæti. Enginn les að fullu í annars hug. Við sem þekktum til Stefáns gengum þess ekki dulin, að fús jafnt sem tregur hafði hann við ærið að etja fyrir. Kvika heitra tilfinninga bærðist hið innra, nákvæmlega þar sem Jónas segir að beztu blómin grói. Þessi hlédrægi maður bjó sjaldnast við skilyrðislausa rósemd - og bað ekki um hana heldur. Í ljóðinu góða, Næturgrið, sem hann orti á síðari árum, væntir hann þess af "skógarhvíldinni", hinni jarðnesku kyrrð, að hún verði sér "náðug um stund" en veiti sér áfram "hina friðlausu ró": útþrána - sem þó er heimþrá. Enn var hún á ferðinni, óró hins myrka blóðs.

Eitt sinn þegar Stefán var spurður um hinztu rök, varð honum að orði: "Það er einhver ógurlegur kraftur sem fer af stað þegar maður deyr." Nú, þegar hann er horfinn sjónum, virðast þessi orð einkennilega samkvæm hinu sterka tilfinningalífi sem ríkir í verki hans, blandað magnaðri dul.

Og línur úr ljóðum Stefáns, alskírar myndir í innilegum hljóðleik sínum, spretta fram í hugann, ein af annarri, og lyfta því hátt yfir allan jarðneskan efa, að þau muni lengi lifa.

Þorsteinn frá Hamri.

Árið 1960 gerðist Ragnar bókaútgefandi í Smára leiður á því að gefa út eitt af tímaritum sínum - Heimilisritið. Um svipað leyti varð skáld hinna ör-fáu, Stefán Hörður Grímsson, fertugur og Ragnar gaf honum í afmælisgjöf útgáfuréttinn og blaðhausinn og þeirra tíma prentklissjur og réð hann jafnframt til að safna efni í minningabók um Stein Steinarr, sem var nýdáinn. Stefán Hörður tók þetta verkefni mjög alvarlega og safnaði saman handritum yngri og eldri skálda; ekki eingöngu viðurkenndra listamanna, heldur leitaði hann ekki síður til utangarðsskálda og sérvitringa, sem nutu lítillar vildar í bókmenntakreðsum, þá sem nú. Er Stefán Hörður hafði efnt saman í vænt handrit Steinsbókar gekk hann á fund Ragnars og afhenti honum handritið. Skömmu síðar fékk hann orð frá Ragnari; nú hafði útgefandinn misst áhugann að gefa út bókina og Stefán Hörður náði í handritið, mestallt frumhandrit skálda þess tíma.

Á þessum tíma var ég undirmaður Jóns magisters Böðvarssonar, sem var yfir-siðferðisvörður á næturvöktum hjá nokkrum helstu hótelum í Reykjavík; aðrir kollegar voru m.a. Jón frá Pálmholti, Ari heitinn Jósefsson og Guðbergur Bergsson.

Mörg af börnum næturinnar lögðu leið sína í heimsókn á vaktirnar, þ.ám. ýmis skáld, einnig Stefán Hörður, sem kom alloft, enda var hann næturhrafn og stóð á þessum árum oft dálítið fyrir utan sjálfan sig, en var mjög leitandi og vann m.a. að því að þýða heimspekinginn Sören Kierkegaard og geymdi handritin í pappakassa á háalofti undir vernd Einars Braga skálds.

Stefán var einkar ósáttur við endalyktir varðandi Steinsbók, enda hafði hann miklar mætur á Steini og m.a.s. búið hjá honum um hríð í Fossvoginum.

Og eina nóttina kom Stefán Hörður í næturkaffi á Hótel Skjaldbreið og hafði meðferðis handrit margnefndrar Steinsbókar og einnig mjög dularfullt fræðirit, sem hann nefndi "bragfræði atómskáldskapar". Skildi hann þessi gögn hvorutveggja eftir í vörslu undirritaðs.

Stefán Hörður var maður hinna strjálu kynna. Það var aldrei hægt að ganga að honum vísum, hvorki í lífi né list. Þessvegna hittumst við óreglulega en oftsinnis og með okkur varð trúnaður og einlægni. Og stundum fórum við í kirkjugarðinn í heimsókn til náinna ættingja hans.

Stefán Hörður virkaði fáskiptinn og feiminn, allt að því inniluktur. En fáir voru jafnskemmtilegir og myndrænir í frásögn og hann. Konur löðuðust að þessum fátæka einfara, sem tróð skáldstíginn aleinn. Á miðjum aldrei kynntist hann skáldinu Unni Eiríksdóttur og átti með henni allnokkur falleg og erfið ár.

Síðustu árin lét hann hinn ytri heim eiga sig og dró sig til baka frá samskiptum við fólk. Það var honum jafneðlilegt og annað í lífi hans.

Fræðingarnir munu á komandi árum velta sér óspart uppúr djúpum skáldheimi Stefáns Harðar. Hann mun fylgjast með þeim úr fjarska, sposkur á svip með bros í augum.

Og nú er einfarinn hógværi horfinn inní rjóðrið.

Bragi Kristjónsson.

Liðin eru 55 ár síðan ég mætti þeim Ása í Bæ og Stefáni Herði á götu í Vestmannaeyjum og við Stefán vorum kynntir. Ég vissi hver maðurinn var, hafði lesið fyrstu ljóðabók hans Glugginn snýr í norður og skrifað um hana ritdóm. Mér kom hann svo fyrir sjónir sem hann væri feiminn; að minnsta kosti lét hann Ása um að halda uppi samræðum og hélt sig til hlés. Í ritdóminum segir: "Fyrstu verk ýmissa bestu núlifandi ljóðskálda vorra hafa á engan hátt staðið þessum ljóðum framar, svo að hér getur farið efnilegt skáld þess vegna."

Síðan liðu sex ár áður en fundum okkar Stefáns Harðar bar saman næst.

Snemma vors 1953 bar mig að landi í Reykjavík eftir nokkurra ára menntastúss í útlöndum úttroðinn af háleitum hugmyndum um útgáfu tímarits sem gæti blásið burt kæfandi dauðaloftinu yfir íslensku listalífi. Ég mætti alls staðar úrtölum nema hjá feimna skáldinu úr Eyjum sem var nú gengið í land eftir nokkurra ára slark á sjótrjám, hafði komið sér snoturlega fyrir í skáldakompu á norðurlofti Blöndu á horni Bergstaðastrætis og Spítalastígs og hafði um sig dálitla hirð sem vel gat veitt sér þann munað að vaka vorbjartar nætur, því hennar biðu engin leiðinda skyldustörf að morgni. Ég kom þarna nokkrum sinnum í heimsókn og naut góðra veiga. Stefán Hörður var gífurlega bjartsýnn þetta vor og ég er ekki frá því að nafnið Birtingur hafi komið mér í hug vegna okkar nýju kynna.

Um sumarið var ég í síld fyrir norðan, en þegar ég kom í bæinn um haustið og ætlaði að athuga hvort nokkuð væri afgangs í Blöndukútnum var heldur dauflegt um að litast á loftinu og skáldið á bak og burt. Ég hafði samt fljótlega uppi á Stefáni og þá sagði hann mér að nágrannar hefðu verið að röfla um óþarflega mikinn gný frá hornhúsinu og húseigendur brugðist svo við að þeir sópuðu út í bræði, fyrst húsráðanda og gestum hans; síðan öllu innanstokks og létu aka því á haugana. Hann taldi húsgögnin ekki hafa verið óbætanleg en sá dálítið eftir bókum og myndum sem hreinsunarmenn höfðu ekki vilja eða vit á að greina frá öðru dóti. En Stefán hafði fljótlega fundið sér annað slot ekki síðra. Það stóð við Bókhlöðustíg þar sem nú er bílastæði beint niður af sýningarsalnum Stöðlakoti, svartmálað hús sem fávísir kölluðu svarta skúrinn. En þeir höfðu aldrei hlustað á Stefán í stuði lýsa því hvílíka skáldahöll mætti gera úr þessu húsi ef rétt væri að málum staðið, og það sýndi hann manni svart á hvítu, því innrétting var aldrei hin sama í tvö skipti sem mann bar þar að garði, og efalaust hefði hann reist ljóðlistinni þarna veglegan veraldarumbúnað, ef höllin hefði ekki brunnið til kaldra kola einn góðan veðurdag. Blessuð sé hennar minning.

Hinn 29. október 1953 skrifaði ég heilsíðugrein í Þjóðviljann um skáldið Stefán Hörð Grímsson. Þá hafði hann fyrir tveimur árum gefið út aðra ljóðabók sína Svartálfadans, og nú kvað ég sterkar að orði en áður: "Stefán Hörður hefur vaxið verulega við Svartálfadansinn og er orðinn skáld sem ríkar kröfur verða gerðar til í framtíðinni." Þegar ég leit yfir þessa grein á dögunum hjó ég eftir stuttum kafla sem kallast mætti eins konar manifesto: "Viðhorf ungskáldanna virðist mér mega orða á þessa leið: Það hæfir ekki að hella nýju víni á gamla belgi. Skáldskapinn má ekki reyra í fjötra úreltra hátta, heldur eiga skáldin að skapa hverju ljóði form við hæfi. Ljóðform verða þá jafnmörg ljóðunum - form nýs ljóðs hefur aldrei áður verið til og verður aldrei endurtekið. Formið er ekki sjálfstæð höfuðskepna aðgreinanleg frá öðrum þáttum ljóðs, heldur eru inntak og form ódeilanleg heild: ljóð." Þessi meinlausa grein dró heldur en ekki dilk á eftir sér. Það var eins og ég hefði verið að boða djöflatrú meðal ofstopafyllstu kristinna manna: andmælum rigndi yfir ritstjórn Þjóðviljans í margar vikur, og einnig í öðrum blöðum risu menn upp til varnar íslenskri ljóðlist.

Ég man ekki með nákvæmni að rekja feril skáldsins um borgina fyrst eftir húsbrunann, en minnir þó að ekki hafi það alltaf ráðið sínum næturstað, þar til svo atvikaðist að við urðum sambýlingar að Hjarðarhaga 38: hann hafði til umráða risherbergi sem fylgdi íbúð okkar á fyrstu hæð, og þegar við fluttum þaðan í Unuhús var orðin svo náin vinátta með okkur og fólkinu hinum megin á sömu hæð í stigaganginum, að það lét Stefáni með ánægju eftir risherbergi sem fylgdi íbúð þess. Þarna bjó hann því við þolanlegt öryggi í sex ár. Á þeim tíma hittumst við daglega og því hæg heimatökin að fá hann í viðtal fyrir Birting. Það birtist fremst í 1.-2. hefti 1959 og náði yfir 9 síður. Ég tel að þar hafi fyrst verið staðfest hin sterka staða Stefáns Harðar á skáldaþingi. Viðtalið var þó töluvert lengra í upprunalegri gerð, og ég sá talsvert eftir að þurfa að stytta það, því að í köflunum sem niður voru felldir eru bæði mikilsverðar upplýsingar um bernsku- og æskuár hans sem hvergi eru til annars staðar og líka dæmi um hvílíkur frásagnarsnillingur hann var þegar hann komst á flug og samdi jafnhratt og hann talaði. Reyndar skrifaði hann í upphafi ritferils síns smásögur sem sýna að hann hefði ekki síður getað orðið liðtækur í þeirri grein en ljóðlistinni, en lét allan prósaskáldskap fyrir róða þegar frá leið. Ég freistast til að taka hér upp stuttan kafla af því sem komst ekki á prent: "Faðir minn var hagur nokkuð og fékkst við smíðar eftir að hann hætti sjómennsku. Hann dó þegar ég var fjögurra ára, Borgar bróðir minn tveggja.

Þá fór móðir mín með okkur út í Vestmannaeyjar og var þar um veturinn, vann fyrir sér við sauma. Vorið eftir réðst hún kaupakona að Ystabæli undir Eyjafjöllum og hafði Borgar með sér en mér var komið fyrir í Selkoti í sömu sveit hjá Önnu Tómasdóttur. Um haustið fór móðir mín með okkur til Eyja aftur, bjó í leiguhúsnæði uppi á lofti. Hún var þá orðin veik, hefur vafalaust orðið það þegar faðir minn dó. Vorið þar á eftir fór hún enn að Ystabæli með mig en Borgar varð eftir hjá ömmu okkar; gamla konan neitaði að sleppa honum. Hann ólst svo upp hjá henni og átti gott í uppvextinum. Ég undi mér ekki í Ystabæli, vildi ólmur komast til Önnu í Selkoti og strauk hvað eftir annað yfir mýrar og ófærur. Ég komst aldrei lengra en að á sem skilur bæina, en það nægði til að heimafólk í Ystabæli varð að hefja leit að mér. Þannig komst í hámæli að ég sækti fast að Selkoti og með þráanum fékk ég mitt fram. Um haustið réð hún sig að Bessastöðum á Álftanesi til Jóns Þorbergssonar.

Þegar hún var komin í vistina vildi hún endilega fá mig til sín. Þá var brotist í að koma mér í hálfgerðri ófærð undir vetur vestur yfir alla sanda, síðan í áföngum suður að Bessastöðum. Á daginn bar ekki á sjúkleika móður minnar en ég fann strax að hann hafði ágerst: börn eru næm á allt sem móður þeirra viðkemur. Þeim fer svo margt á milli á kvöldin og næturnar þegar engir aðrir eru nærri. Á Bessastöðum var gömul athugul kona sem hafði grun um hvernig komið væri heilsu hennar en gat ekki sannað það lengi vel af því að ég þagði sem fastast hvernig sem á mig var gengið. Þó fór svo um síðir að engu varð lengur leynt og skömmu síðar skildi leiðir okkar móður minnar endanlega: hún var flutt á sjúkrahús og átti ekki afturkvæmt. Eftir að hún fór leið mér á ýmsan hátt miklu betur: ég var ekki nema sex ára, engum datt í hug að ýta mér til vinnu, ég fékk að lifa og leika mér eins og önnur börn.

Um vorið fór ég aftur að Selkoti og var þar til 16 ára aldurs. Þar átti ég náðuga daga, einkum næstu fimm árin meðan Anna réð þar búi, því hún hlífði mér við allri vinnu - gekk jafnvel svo langt að ég mátti ekki brjóta spírur af kartöflum eins og snúningarnir voru látnir gera. "Eruð þið að láta d r e n g i n n brjóta af kartöflum!" sagði hún og dustaði af mér moldina.

Þegar ég var 11 ára brá Anna búi og fluttist til Tómasar sonar síns í Eyjum en ég varð eftir hjá einyrkja sem settist að í Selkoti. Þetta er ævisagan, því eins og þú veist á maður enga ævisögu eftir að bernskunni sleppir."

Sextán ára réðst Stefán til sjóróðra í Vestmannaeyjum en pukraðist með óljósar hugmyndir um skólagöngu, segir hann: "Þegar ég sótti um skólavist á Laugarvatni fór ég með það eins og mannsmorð. Ég fór í Íþróttaskólann haustið 1938 og var þar um veturinn. Eftir það kenndi ég sund tvö sumur víðsvegar um Suðurlandsundirlendið, var í yngri deild héraðsskólans næsta vetur ... Þar með var skólagöngunni lokið."

Haustið 1940 fór Stefán til Reykjavíkur, stundaði þar ýmsa daglaunavinnu fyrst í stað en keypti svo veitingastofu sem Drangey hét: "Fimm borð, sælgætisdiskur og eldhús. Ég borgaði 2400 krónur fyrir innanstokksmuni og vörulager, greiddi það með víxlum ... Ég rak fyrirtækið af rausnarskap, hafði fjórar stúlkur á mínum snærum og vann framan af sjálfur við útréttingar; stóð líka við diskinn. En það borgaði sig illa, því ég seldi ekki neitt. Bretarnir vildu hafa stelpur við afgreiðslu. Þá réð ég mig afgreiðslumann á Bifreiðastöð Steindórs en tapaði meiru en kaupinu nam vegna þess að stelpurnar stálu svo gegndarlaust, trössuðu að gera innkaup og allt fór í handaskolum. Eftir 7 mánuði seldi ég búluna fyrir átta þúsund, hafði þá greitt kaupverðið og átti dálitla peninga afgangs. Sá sem keypti sagðist hafa grætt drjúgan skilding en skaðast samt: Kanar nældu nefnilega í dætur hans og teygðu þær með sér vestur um haf. Um sumarið fór ég á síld."

Á sjötta áratugnum lifði Stefán stormasömu og hættulegu lífi sem hefði getað riðið veikgerðari og veiklundaðri manni að fullu. Árið 1960 var hann hætt kominn. En þá ákvað hann að vina ráði að leita sér hjálpar og var lagður inn á sjúkrahús. Það sýnir hve viljasterkur hann var, að eftir mánaðarvist útskrifaðist hann og snerti ekki viðsjálustu efni lengi eftir það og sum aldrei.

Dag nokkurn árið 1962 hringdi íbúi á Hjarðarhaga 38 til mín og sagði að Stefán Hörður væri staddur hjá sér mikið þjáður og bæði mig koma sem skjótast. Ég brá þegar við, hringdi í leigubíl og var kominn á staðinn eftir fáar mínútur. Mér brá óskaplega, því ég fékk ekki betur séð en maðurinn væri í dauðans greipum. Hringt var í snatri í Ófeig Ófeigsson lækni sem kom að vörmu spori með sjúkrabíl, lét bera sjúklinginn niður, skutlaði okkur báðum inn í bílinn og síðan var ekið með sírenur vælandi upp á Landspítala. Stefán hafði fengið kransæðastíflu. Vegna þess hve allt gekk greiðlega varð lífi hans bjargað.

Þegar hann var tekinn vel að hressast var hann vistaður á Vífilsstöðum til frekari heilsubótar. Þar dvaldist þá einnig Unnur Eiríksdóttir skáld, ein 15 Réttarholtssystra, gáfuð kona og glæsileg. Með þeim Stefáni tókust heitar ástir, og eftir að vistinni á Vífilsstöðum lauk bjuggu þau saman meðan Unnur lifði. Ég held að þessi ár hafi verið hamingjuríkust á ævi Stefáns Harðar.

Meðan ég lifi verður mér í minni ferð sem við hjón fórum austur að Kirkjubæjarklaustri og buðum Stefáni með. Við vorum á lasburða Fiat sem við höfðum nýlega keypt til að geta skoðað okkur almennilega um á Suðurlandi.

Þetta var um verslunarmannahelgi og við lögðum af stað síðla föstudags, fórum hægt yfir og urðum svo sein fyrir að finna okkur hentugan tjaldstað að komið var svartamyrkur sem gerði leitina enn örðugri. Allt í einu gellur Stefán við: "Stansa! Hér er afleggjari og einhver grasbali sýnist mér." Ég snarbremsaði og mikið rétt: þarna mátti vel tjalda á grasivöxnum hól og gott ef þar voru ekki gamlar húsatættur líka. Lækur niðaði í nánd. Öll vorum við þreytt og sofnuðum fljótt eftir að hafa fengið okkur snarl. Í eldingu hrekk ég upp við það að Stefán stendur utan við tjaldið og mælir stundarhátt eins og við sjálfan sig: "Djöfullinn sjálfur, hún hefur ætlað að drepa mig!" Mér varð ekki um sel, skreið út til hans og spurði hvað væri á seyði. Við höfðum þá tjaldað á fornum bæjarrústum skammt austan við prestssetrið Holt undir Eyjafjöllum. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þarna höfðu orðið válegir atburðir sem Stefán hafði notað sem efni í smásögu. Ein af kvenpersónum sögunnar hafði ráðið sér bana með skelfilegum hætti, og Stefán var sannfærður um að hún hefði með vilja tælt okkur á þennan stað í náttmyrkrinu í því augnamiði að gjalda honum rauðan belg fyrir gráan.

Þegar við vorum ferðbúin morguninn eftir spurði ég Stefán hvort við ættum að koma við í Selkoti. Hann hugsaði sig lengi um, var greinilega á báðum áttum, virtist fremur andvígur eða kvíðinn, en svaraði að lokum ákveðinn: Við skulum gera það! Þegar við ókum í hlað kom Gissur bóndi Gissurarson út og heilsaði okkur, rétt á eftir birtist húsfreyjan Gróa Sveinsdóttir í dyrunum, sló saman lófum undrandi og hrópaði: "Nei, ert þú kominn, Stebbi minn!" og flaug upp um hálsinn á honum. Stefán fór hálfpartinn hjá sér.

Okkur var boðið inn, bornar fram veitingar að sveitasið og við áttum þarna ljúfa morgunstund með hjónunum. Stefán hafði ekki mörg orð um, en auðfundið var að hann gladdist yfir endurfundunum.

Árin liðu hvert af öðru án þess að nokkuð benti til að þau fyrirheit sem Svartálfadans hafði gefið ætluðu að rætast. Tími skáldsins fór í annað en yrkingar og aðdáendur þess voru að verða úrkula vonar. En margur má sín lengi bíða. Eftir 19 ára þögn gefur Helgafell árið 1970 út örlítið ljóðakver eftir Stefán Hörð: Hliðin á sléttunni. Í því voru aðeins 16 ljóð en hvert einasta gulls ígildi. Boðskapur þeirra í hnotskurn: "Lofið varir ljóðið og ástina/ fram á ystu nöf". Enn meira var þó um vert að hér hafði stífla brostið og nú rak hver bókin aðra: Farvegir (1981), Tengsl (1987) var lögð fram af Íslands hálfu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Yfir heiðan morgun (1989) hlaut fyrstu Íslensku bókmenntaverðlaunin ein bóka 1990. Skáldið sem flestir litu hornauga framan af hafði sannað sig svo rækilega að nú féllu allir því fúslega til fóta. Árið 1995 sýndi alþingi sjálfu sér þann sóma að veita honum heiðurslaun listamanna. Svo vel þóttist ég þekkja merkjamál Stefáns Harðar að úr því mætti lesa að hér teldi hann þeim árangri náð sem réttlætti að hann hyrfi heiminum, hve lengi sem hann dæmdist til að hírast þar enn í holdinu við ærna kröm. Við hittumst aldrei árin hans á Hrafnistu. Ég vissi að hann átti sér góðan anda sem hann treysti og trúandi var fyrir honum; það var allt sem þurfti eins og komið var.

Stefán Hörður var ekki aðeins stórgott skáld. Hann var fyrir margra annarra hluta sakir óvenjulega mætur maður. Það er hvergi boðað í Evangelium að menn eigi að gefa náunganum eina frakkann sinn. En það gerði Stefán Hörður.

Hann klæddi sig úr eina frakka sínum úr ágætu gabardínefni, færði mig í hann þar sem ég stóð að vorlagi ferðbúinn til útlanda og tjóaði ekki fyrir mig að múðra, því hann sagði það mætti ekki gera þjóðinni þá smán að ég kæmi frakkalaus til annarra landa, sjálfur gæti hann hæglega orðið sér úti um annan eða skotist frakkalaus milli húsa hér í Reykjavík! Reyndar hafði ég engar áhyggjur af að þjóðarsómi liði fyrir frakkaleysi mitt hvað þá að ég færist úr kulda í vorveðrum Evrópu, en vildi ekki vanvirða hans góða hug. Þvílíku vinarbragði gleymir maður ekki. Hann var einfari og einyrki eins og skáld eru jafnan, einstæðingur var hann í viðtekinni merkingu en átti sér fleiri velunnara og aðdáendur í fjarska en margur annar, ekki síst meðal kvenna. Hann var í aðra röndina guðdómlegur sérvitringur. En um leið og ég segi það tek ég mér í munn orð vinar míns Harðar Ágústssonar: Allir mætustu menn sem ég hef þekkt hafa verið sérvitringar. Hann gat sannarlega verið erfiður, og hvað um það? Hver segir að menn eigi að vera auðveldir? Við vorum vinir í hálfa öld. Ég get þó ekki sagt eins og einatt má lesa í eftirmælum að þar hafi aldrei borið skugga á. Það gerðist einmitt töluvert oft, og eitt sinn reiddist ég honum svo heiftarlega að mér þótti ekki líklegt að við töluðumst við framar. En þá kom kvenþjóðin á heimilinu til skjalanna, þessi þjóð sem er þeirri gáfu gædd að geta hugsað með hjartanu þær hugsanir sem heilinn ræður ekki við. Við sættumst heilum sáttum fyrir orð konu minnar, og okkur leið öllum betur á eftir. Því get ég að leiðarlokum sagt í einlægni: Ég sakna vinar í stað.

Einar Bragi.

"Það er nú einusinni svo, að það er miklu erfiðara að vera skáld og yrkja um heiminn en vera maður og lifa í heiminum" segir Ólafur Kárason í Heimsljósi. Og erfiðast af öllu er að sameina þetta tvennt, því "fegurðin og mannlífið eru tveir elskendur sem fá ekki að mætast" einsog segir í sömu bók. Oft virðist manni einmitt að þau ljóðskáld sem ort hafa um heiminn af hvað næmastri skynjun standi sjálf aðeins utan við hann, eigi ekki fyllilega samleið með mannlífinu. Þess vegna getum við venjulegir lesendur átt í erfiðleikum með að koma heim og saman þeim skáldskap sem við unnum og manninum sem orti hann - hvort tveggja smýgur undan mælikvörðum þessa heims.

Stefán Hörður Grímsson var við fyrstu kynni manna ólíklegastur til að hafa sett saman djarfar myndlíkingar Svartálfadansins eða ort snörp háðskvæði einsog bregður fyrir í síðustu bókum hans; hógvær maður, ekki orðmargur og því fáorðari sem fleiri höfðu sig í frammi. Hann bar með sér að hafa átt erfið ár, óreglusöm ár og stundum búið við mikla einsemd og kannski þá einsemd sem er snúnust allra, einsemd hugans. Samtímis voru töfrar skáldskapar hans með fullkomnum ólíkindum, hann gat miðlað svo frumlegri sýn að breytti varanlega viðhorfi lesandans. Stundum orti hann einsog sagt er að Bobby Fischer hafi teflt: Framan af gat verið erfitt að átta sig á hvað hann var að fara, eftir á hefði engin önnur leið komið til greina. Það er fegurð snilldarinnar. Við skulum ekki láta þreytu á síbyljunni um heimsfrægð villa okkur sýn: Stefán Hörður Grímsson var eitt af hinum stóru ljóðskáldum Evrópu á 20. öld, og átti sér ratvísa lesendur víða, í krafti góðra þýðinga.

Kynni mín af Stefáni Herði voru ekki náin, en dugðu þó til þess að sjá meiri samhljóm með manni og skáldi en blasti við í fyrstu. Hann var sannarlega ekki erfiður viðskiptis fyrir okkur hjá Máli og menningu, en útgáfur hans urðu að vera lausar við allt prjál og hvers konar bókarkáputildur. Með síðasta handriti hans fylgdi svohljóðandi miði: "Bókstafurinn z er eina skilyrðið sem ég set til þess að ég leyfi prentun á bókartexta, sem ég er skrifaður fyrir." En hann hafði sínar skýru meiningar, ef eftir var leitað. Skáldskapur hans var aldrei gerður til að þóknast neinum, og hann reyndi heldur ekki að vera klassískur - alveg fram í síðustu bók leyfði hann sér hið óvænta; hann var "kankvís, já örlítið ertinn" einsog segir þar. Rétt einsog þegar hann sagði eitt sinn við ungskáld og aðdáanda að þeim væri merkilegur hlutur sameiginlegur, og sá yngri beið rjóður af gleði framhaldsins: "við höfum báðir verið sundkennarar", bætti Stefán Hörður við.

Aldrei troðin slóð, aldrei alveg allra, þannig komu bæði skáld og maður fyrir sjónir. Og kannski lýsa engar línur honum betur en þessar úr Yfir heiðan morgun:

hyldjúp

einvera að baki

hæverskum ljóma

Við kveðjum Stefán Hörð Grímsson með söknuði, og ég vona að fegurðin og hann haldist nú í hendur, yfir heiðan morgun.

Halldór Guðmundsson.

Hjartkæra Eðalskáld!

Þú ert alltaf svo stór að þú getur leyft þér að vera hljóðlátur. Þess vegna ætla ég að kveðja þig ofur hljóðlega, og segja þér um leið að ég heilsa þér daglega. Því þú ert sínýr.

Hvíldu rótt.

Hjalti Rögnvaldsson.

Galdur ljóðlistar er að tjá hið ósegjanlega. Svo meitluð er merking ljóða Stefáns Harðar, samofin ofurvaldi hans á máli og stíl, að ætla mætti að ekki yrðu þau svipur hjá sjón á erlendum málum. Það gagnstæða er þó raunin. Hinn skáldlegi veruleiki, merking ljóðsins og áhrif skila sér einmitt prýðilega í þýðingum. Ljóð hans hafa vakið verðskuldaða aðdáun og athygli útlendra ljóðvina og bókmenntafólks og hlotið frábærar viðtökur. Menn sjá að hér yrkir sá sem valdið hefur, hógvær, lágvær, blíður en beinskeyttur. Ekkert má betur fara. Ljóð hans hafa birst á fjölmörgum tungum, í vönduðum útgáfum, í tímaritum, í sýnisbókum með úrvali ljóðbókmennta heimsins. Því ljóð hans eru einfaldlega heimsbókmenntir.

Þrátt fyrir kröpp kjör alla tíð var Stefán víðlesinn og hámenntaður maður, einkum á sviði tungumála, bókmennta, sögu og heimspeki. Hann var prúðmenni og snyrtimenni, lítillátur svo af bar og hlédrægur. Það voru forréttindi sem ekki verða fullþökkuð að kynnast Stefáni Herði og hlýða á hann skýra ýmis sjónarmið sín. Það bíður nú bókmenntafræðinga og annarra að fjalla ýtarlega um verk hans og stöðu í menningunni, en þar reisti hann sér varanlegan minnisvarða með list sinni.

Magnús Skúlason.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.