Hálendið er fjársjóður sem við getum lagt til heimsmenningarinnar.

"VÆR så god, Flatøbogen." Svo fórust danska ráðherranum orð er hann afhenti handritin formlega við hátíðlega athöfn í Háskólabíói fyrir margt löngu. Áratuga löng barátta Íslendinga fyrir því að fá gersemar þjóðarinnar heim hafði skilað árangri. Handritin voru komin heim!

Ef til vill var það gæfa okkar að þau voru flutt út fyrr á öldum og varðveitt þar. Hvað hefði orðið um þau hér í fásinni og fátækt á niðurlægingartímum? Hugsanlega hefðu bæði skilningsleysi landans og slæmur húsakostur, fátækt og sífelldur þræsingur orðið til þess að þau hefðu öll morknað eða jafnvel horfið með sprekum á eldinn.

Handritin eru ótæmandi uppspretta fyrir fræðimenn og alla sem unna íslenskri menningu og skilja mikilvægi framlags þjóðar okkar til heimsmenningarinnar. Stolt tökum við á móti erlendum gestum og sýnum þeim handritin í Árnastofnun. Ráðstefnur eru haldnar og íslenska er kennd víða um heim einkum vegna þess að fólk af erlendu bergi brotið hefur áhuga á sagnaarfi söguþjóðarinnar. Við erum þjóð meðal þjóða vegna þess að við eigum menningararf og höfum lagt okkar skerf til heimsmenningarinnar.

Við erum rík þjóð, bæði vegna þess sem við höfum safnað og lagt í sjóð en ekki síður vegna þess sem forsjónin hefur fengið okkur í hendur. Við búum í fögru landi með einstaka náttúru. Hér eru á tiltölulega litlu landsvæði fjölbreytt dæmi um myndun lands og jarðar. Eldfjöll og jöklar, sandar og mýrarflákar, vötn og hraunbreiður, fjöll og flatlendi, ólgandi haf og iðandi fuglalíf í björgum. Og svo er það hin einstaka birta norðursins, bjartar sumarnætur og "blikandi norðljósatraf" á vetrum, síbreytilegt veðurfar og mildara loftslag en margan grunar.

Á níunda áratugnum lagði ég land undir fót og fór í hnattreisu með konu minni. Það var fróðleg ferð þar sem við sáum margt fróðlegt og fagurt. Sama sumar gengum við þvert yfir Reykjanesið ásamt fólki sem sótt hafði messu í Kirkjuvogskirkju í Höfnum þar sem ég þjónaði sem sóknarprestur. Um haustið þegar ég leit yfir farinn veg kom það mér á óvart að gönguferðin yfir úfin hraunin á Reykjanesi var ekki síður minnisstæð en sjálf hnattreisan. Löngu síðar gengum við svonefndan Laugaveg sem liggur frá Landmannalaugum og í Þórsmörk og urðum fyrir einstökum hughrifum af ómótstæðilegri fegurð þessa nær ósnortna lands.

Ísland er einstakt land sem býr yfir óviðjafnanlegum töfrum. Auðvitað eru önnur lönd líka heillandi og víst er að aðrar tilfinningar bærast í brjósti manns til fósturjarðarinnar en fjarlægra landa. Hins vegar skulum við ekki gleyma því að Ísland býr yfir fjölbreyttari náttúru en mörg önnur lönd, ef ekki flest. Svo er landið ekki þakið skógi og því hefur það allt annað svipmót og aðra fegurð en t.d. lönd Evrópu þar sem nánast hver fermetri er ræktaður og löndin líta út eins og taflborð séð úr lofti.

Hálendi Íslands er einstakt í veröldinni og verður dýrmætara með hverju árinu sem líður. Landið sem við höfum tekið í arf og verið falið til varðveislu er engu líkt. Líklega gefur hvergi í veröldinni að finna viðlíka samspil ólíkra náttúruperla á litlu svæði. Vaxandi þéttbýlismyndun í Evrópu og víðar í heiminum gerir það að verkum að þeim svæðum fækkar sem mannshöndin hefur ekki sveigt til hlýðni við þarfir manneskjunnar. Hálendi Íslands er fjársjóður sem við getum lagt til heimsmenningarinnar. Handritin eru afurð mennta og menningar sem hér blómstraði á miðöldum, fjársjóður fámennrar þjóðar. Hálendið er ekki okkar eigin afurð heldur arfur sem við höfum fengið í hendur til að varðveita. Við getum vissulega beygt landið til hlýðni við neysluhyggjuna en við getum líka haldið því fram sem einstöku listaverki í augum alheims með því að snerta það sem allra minnst og leyft því að vera eins og skaparinn hefur skilað því í hendur okkur með starfi sem tekið hefur tugi þúsunda ára. Vísindamenn hafa bent á það að vistkerfi sem látin eru í friði skila sum margföldum arði í samanburði við það sem kreista má úr þeim með stálkrumlu tækninnar.

Með varðveislu hálendisins gætum við tvöfaldað framlag okkar til heimsmenningarinnar og gott betur ef vel tekst til. Handritin og hálendið gætu orðið óþrjótandi uppsprettur handa heimsbyggðinni að bergja af, uppsprettur fegurðar og gleði í heimi sem er að verða staðlaður og steríl.

Þegar ég sagði kunningja mínum frá þessu hugtakapari, handritin og hálendið, og áformum mínum um að rita þessa grein, varð honum á orði: "Ef ég þyrfti að velja mundi ég jafnvel fórna handritunum fyrir hálendið." Þetta var auðvitað sagt í gríni en er þó umhugsunarverð afstaða. Getur verið að við séum að kasta á glæ fjársjóði sem er margfalt verðmætari en sjálf handritin sem eru undirstaða menningar okkar og sjálfsvitundar? Guð forði okkur frá því feigðarflani og fyrirtækjum trölla.

Í umræðunni um það hvort við eigum að tengjast Evrópusambandinu eða ekki er oft rætt um sérhagsmuni okkar á sviði sjávarútvegs og það hvort við megum vænta einhvers skilnings þar að lútandi. Við höfum aðra og meiri sérhagsmuni sem vert væri að deila með öðrum og gera að hagsmunum heimsbyggðarinnar. Hvað sem líður skiptum skoðunum um aðild að Evrópusambandinu þá gætum við í það minnsta sagt við nágranna okkar í eigin álfu og umheiminn allan: "Hér er land sem býr yfir einstakri fegurð og fjölbreytni. Við skulum varðveita það í þágu heimsins og snerta það eins lítið og mögulegt er ef þið eruð reiðubúin að leggja okkur lið og greiða kostnaðinn." Þar með yrði á Íslandi til rík þjóð sem margir þrá, en ekki endilega rík að fjármunum, heldur af því sem meira er um vert, rík af virðingu og viti, forsjálni og fyrirhyggju, þjóð sem skilur og skynjar þær aðstæður og þau verðmæti sem fólgin eru í því að láta fegurðina eina ríkja.

Slík þjóð gæti sagt við umheiminn með sama stolti og mælt var þegar handritin voru afhent: Gjörið svo vel, íslenska hálendið! Varðveitum hálendið og gerum Ísland að þjóðgarði heimsbyggðarinnar!

Eftir Örn Bárð Jónsson

Höfundur er prestur.