31. október 2002 | Viðskiptablað | 247 orð | 1 mynd

Offset kaupir e-póstdeild Íslandspósts

OFFSTET ehf. hefur keypt e-póstdeild Íslandspósts og var skrifað undir kaupsamning þar um í síðustu viku. Fyrirtækið tók við rekstri deildarinnar um síðustu mánaðamót. Deildin prentar reikninga og margt fleira, stafrænt, fyrir ýmis fyrirtæki.
OFFSTET ehf. hefur keypt e-póstdeild Íslandspósts og var skrifað undir kaupsamning þar um í síðustu viku. Fyrirtækið tók við rekstri deildarinnar um síðustu mánaðamót. Deildin prentar reikninga og margt fleira, stafrænt, fyrir ýmis fyrirtæki. Allir reikningar Landssímans eru til að mynda prentaðir hjá deildinni, en Landssíminn er stærsti einstaki viðskiptavinur hennar. Valgeir Hallvarðsson, framkvæmdastjóri Offset, segir að kaupin hafi haft nokkurn aðdraganda. Viðræður um þau hafi hafist síðastliðið vor. Íslandspóstur hafi viljað selja deildina, m.a. vegna þess að afkastagetan hafi hamlað starfseminni og deildin hafi ekki getað vaxið eins og þörf hafi verið á.

"Offset er sérhæft í stafrænni prentun," segir Valgeir. "Afkastageta fyrirtækisins er margfalt meiri en starfsemi e-póstdeildarinnar býður upp á og því er auðvelt að anna því álagi sem er á henni nú. Þá eru vaxtarmöguleikar Offset einnig töluverðir á þessu sviði."

Valgeir segir að nafn deildarinnar, e-póstur, sé til komið vegna þess að tekið er við upplýsingum og gögnum rafrænt í gegnum Netið. Deildin vinni síðan úr þeim upplýsingum, prenti út reikninga, komi þeim í umslag og póstsendi.

"Við getum boðið viðskiptavinum okkar upp á mjög fjölþætta þjónustu á þessu sviði á mjög skömmum tíma, til dæmis prentun og póstlagningu alls konar yfirlita, reikninga, launaseðla og greiðsluseðla. Til dæmis getum við prentað um 30 þúsund bréf og sett í póst innan tveggja vinnudaga frá móttöku rafrænna gagna," segir Valgeir. Stafsmenn e-póstdeildarinnar fylgja með í kaupunum og eru nú starfsmenn Offset, en þeir eru þrír, deildarstjóri og tveir kerfisfræðingar. Alls starfa 18 manns hjá Offset ehf. eftir kaupin.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.