7. nóvember 2002 | Fólk í fréttum | 352 orð | 1 mynd

Nýr þáttur með Jóni Gnarr hefst á morgun á Stöð 2

Lífið í Gnarrenburg

Það ber margt undarlegt á góma í Gnarrenburg.
Það ber margt undarlegt á góma í Gnarrenburg.
EINHVERN tíma lýsti Jón Gnarr því yfir í Tvíhöfða að hann hefði hug á að setjast að í Gnarrenburg í framtíðinni, litlum hafnarbæ í Norður-Þýskalandi.
EINHVERN tíma lýsti Jón Gnarr því yfir í Tvíhöfða að hann hefði hug á að setjast að í Gnarrenburg í framtíðinni, litlum hafnarbæ í Norður-Þýskalandi. Af því hefur enn ekki orðið en í millitíðinni geta áhorfendur Stöðvar 2 barið kappann augum á föstudagskvöldum kl. 21.00 þar sem hann mun stjórna eigin þætti, sem einmitt er titlaður Gnarrenburg.

"Þetta verður spjallþáttur á skemmtilegum og alvarlegum nótum," upplýsir Jón Morgunblaðið um. "Hann verður í sjónvarpssal með áhorfendum og gestum. Inni á milli verða svo fréttir af því sem ég tel markverðast í viku hverri."

Jón, sem hvað kunnastur er fyrir gamanmál hvers konar, segir að honum lítist dável á hið alvarlega.

"Oft er hið alvarlega ekki eins alvarlegt og margir vilja meina. Hið alvarlega og hið gamansama eru einfaldlega tvær hliðar á sama krónupeningi í mínum huga. Alvarlegt fólk er líka ekkert endilega að hugsa um alvarlegri hluti en þeir sem glaðlegri eru."

Jón samsinnir því að hlutverk hans í kvikmyndinni Maður eins og ég hafi opnað nýjar víddir.

"Ekki gagnvart mér sjálfum þó en efalaust gagnvart einhverjum öðrum. Fyrir mér er þetta bara hluti af því sem ég geri. Lífið er of margslungið til að hægt sé að taka því á einfaldan hátt, sérhæfing á ekki við það. Það þarf að taka á því á breytilegan hátt, þeir sem hafa reynt að taka því alltaf brosandi hafa séð að það gengur bara ekkert upp."

Hann segir það vissulega hafa verið erfitt að hætta í útvarpsþættinum Tvíhöfða sem hann og Sigurjón Kjartansson stýrðu í sameiningu en Jón hvarf af þeirri braut um síðustu áramót.

"Auðvitað var ég að gefa ákveðið félagslegt og fjárhagslegt öryggi upp á bátinn. En ég er bara þannig gerður að ég hef ekki áhuga á að gera það sama trekk í trekk. Ég var einu sinni í leikriti og mér var farið að leiðast í annarri sýningu!"

Að þessu gefnu er Jón ekki með neitt niðurneglt er Gnarrenburg hættir, en er þó engu að síður með ýmis járn í eldinum.

"Mig langar til að fara að skrifa meira. Einnig langar mig til að gera bíómyndir. Þá er ég með ýmis listaverk í bígerð. Það er nóg fyrir stafni."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.