Elzti hluti hússins er timburhús, byggt 1904. Húsið var upphaflega byggt sem prentsmiðjuhús og því mjög mikill burður í gólfum og veggjum. Yngri hluti aftan við húsið er úr steini og byggður í tveimur áföngum, fyrst 1936 og síðan var byggt ofan á hann 1954
Elzti hluti hússins er timburhús, byggt 1904. Húsið var upphaflega byggt sem prentsmiðjuhús og því mjög mikill burður í gólfum og veggjum. Yngri hluti aftan við húsið er úr steini og byggður í tveimur áföngum, fyrst 1936 og síðan var byggt ofan á hann 1954
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gutenberg-húsið við Þingholtsstræti er hluti af sögu miðborgarinnar og sögu prentlistarinnar í landinu. Húsið hefur nú verið endurnýjað og því fengið nýtt hlutverk. Magnús Sigurðsson ræddi við Brynleif Siglaugsson húsasmið, sem stendur fyrir framkvæmdinni.

VARÐVEIZLA gamalla húsa í miðborg Reykjavíkur er mikið áhugamál margra og ekki að ástæðulausu. Þau eru ekki bara hluti af byggingarsögu borgarinnar heldur hafa þau oft gegnt svo mikilvægu hlutverki gegnum tíðina, að saga þeirra er samtvinnuð sögu heilla stétta og sögu þjóðarinnar allrar.

Eitt þessara húsa er Gutenberg-húsið við Þingholtsstræti 6. Þetta er glæsilegt hús að upplagi og var byggt í hlutum. Elzti hluti hússins er timburhús byggt 1904. Yngri hluti aftan við húsið er úr steini og byggður í tveimur áföngum, fyrst 1936 og síðan var byggt ofan á hann 1954.

Húsið var byggt fyrir hlutafélagið Gutenberg, sem tók til starfa 1905 og voru stofnendur þess tuttugu prentarar. Ríkisprentsmiðjan hóf svo starfsemi í húsinu 1930 og var hún þar til húsa til ársins 1975. Síðan var prentsmiðjan Fjölprent í húsinu auk ýmissar annarrar starfsemi.

Núverandi eigandi Gutenberg-hússins er fasteignafélagið Domus ehf., sem eignaðist húsið um síðustu áramót, en Brynleifur Siglaugsson húsasmiður er einn eigandi Domus.

Þegar er langt komið með að breyta húsinu í íbúðir. Þær verða átta og misstórar eða frá 50 ferm og upp í þakíbúð (penthouse) á efstu hæð sem verður 180 ferm. Arkitekt að breytingunum er Oddur Kr. Finnbjarnarson. Íbúðirnar eru þegar komnar í sölu hjá þremur fasteignasölum, það er Fasteignamarkaðnum, Kjöreign og eign.is

Hvergi fúa að finna

"Timburhúsið er mjög vel viðað og hvergi fúa að finna," segir Brynleifur Siglaugsson. "Þetta er norskt, forunnið timburhús, sem er sett saman hingað komið. Húsið var upphaflega byggt sem prentsmiðjuhús og burður og annað í húsinu er miðað við prentsmiðju.

Það er því mjög mikill burður í gólfum og veggjum í þessu húsi. Timburgólf yfir 1. hæð hefur til dæmis greinilega verið hannað með mikinn þunga í huga þar sem það stenzt allar burðarkröfur sem gerðar eru til slíkra gólfa í dag.

Mjög stórir gluggar eru í húsinu og lofthæð er rífleg, eða um 3 metrar á fyrstu hæð og 3,6 metrar á annarri hæð. Gluggarnir eru í góðu ástandi en í þá hafa verið smíðaðir nýir rammar eins og voru í þeim upphaflega og í þá er sett sérsamlímt gler frá Glertækni."

Þar sem húsið er B-friðað er því komið í sem upphaflegast form. Gömul bárujárnsklæðning var tekin utan af húsinu og síðan endurnýjaður vindpappi utan á húsinu, því að allt annað var í góðu lagi og síðan var húsið klætt aftur með bárujárni. Þá var tekinn burt inngangur, sem settur var á húsið fyrir 10-12 árum. Var það gert í samráði við húsfriðunarnefnd ríkisins og Reykjavíkurborgar til þess að færa húsið í sem næst upprunalegt horf að utan.

Þá voru smíðaðar svalir á gafl hússins eftir ljósmyndum af upprunalegum svölum sem verða þó ekki af sömu stærð þar sem ekki er hægt að koma því við. Svalahurðir eru einnig smíðaðar eftir gömlum ljósmyndum.

Burðarþol hússins hefur verið tekið út og í það hafa verið settir bitar til styrkingar fyrir þriðju hæð og þak og reynt hefur verið að láta það ekki bitna um of á lofthæð hússins.

Á þak hefur verið settur kvistur á sínum tíma og er hann allur endurnýjaður. Þá er sólstofa á þaki einnig endurnýjuð frá grunni.

Að sögn Brynleifs er steinhúsið líka mjög traustbyggt og eru gólfplötur þar allt að 30 cm þykkar. Þar hefur verið skipt um alla glugga og settar svalir á 2. hæðina.

Fjórar íbúðir á 1. hæð

Á fyrstu hæð hússins verða alls fjórar íbúðir, tvær í eldri hluta hússins og tvær í steypta hlutanum. Í kjallara er rúmgott fylgirými með tveimur íbúðanna þar sem gert er ráð fyrir vinnuherbergjum. Einnig hefur verið komið fyrir þakgluggum á hluta kjallarans. Þeir snúa upp í upphitaðan hellulagðan bakgarð sem fylgir hvorri íbúð.

Í kjallara eru annars geymslur, hjólageymsla og sameiginlegt þvottahús. Innangengt er í kjallarann úr húsinu en einnig er sérinngangur beint inn í hjólageymsluna.

Á annarri hæð hússins eru þrjár íbúðir, tvær í steypta hlutanum, ein tveggja herbergja og ein rúmgóð stúdíóíbúð, báðar með góðum svölum og mjög skemmtilegu útsýni. Ein íbúð er í timburhúsinu. Hún er þriggja herbergja, mjög björt og skemmtileg, en lofthæðin þar er rétt um 3,5 metrar. Gengið er út úr öðru svefnherberginu út á svalir.

Sérsmíðaðar innréttingar eru í öllum íbúðunum frá trésmiðjunni Beyki, spónlagðar með eik. Þá eru allar hurðir einnig með svipuðu útliti. Baðherbergi eru flísalögð og með innréttingu.

Að lokum er ein mjög góð íbúð i risi hússins sem gengið er inn í á annarri hæð. Þar er rúmgóð forstofa og mjög vandaður eikarstigi upp í íbúðina. Í henni verða tvö til þrjú svefnherbergi, rúmgott baðherbergi, eldhús með miklu útsýni yfir miðbæinn og höfnina og að lokum stór og björt stofa með gríðarlegu útsýni.

Gengið er úr stofu út á 65 ferm. upphitaðar hellulagðar svalir með lögnum fyrir heitan pott. Mjög mikið er lagt í þessa íbúð t.d. verður fjarstýrt innbrota- og brunavarnarkerfi í henni ásamt forritanlegri iðntölvu sem tengd er við raflagnakerfi íbúðarinnar.

Í sameign verða hreyfiskynjarar fyrir lýsingu, sjónvarpsdyrasímar í öllum íbúðum ásamt brunavarnarkerfi. Sérsmíðaður stigi úr gegnheilli eik verður á milli hæða með mjög vönduðu handriði. Annars verður sameign bæði flísalögð og teppalögð.

Tilbúnar í byrjun næsta árs

Þessar íbúðir eru ætlaðar til sölu og eiga að verða tilbúnar í byrjun næsta árs. "Þetta verða mjög vandaðar íbúðir, enda mikið í þær lagt," segir Brynleifur Siglaugsson. "Hljóðeinangrun verður afar góð. Það er hátt til lofts og góðar innréttingar. Þetta eiga að verða afar skemmtilegar íbúðir."

Allar íbúðirnar eru með sömu uppbyggingu á milliveggjum og útveggjum, en allir veggir milli íbúða eru klæddir alls fimm lögum af gifsi, þ. e. tvöfalt öðrum megin en þrefalt hinum megin.

Útveggir og léttir veggir innan íbúðanna eru klæddir tvöföldu gifsi. Milliveggir eru fylltir af ull og útveggir timburhúss eru einangraðir mun meira en reglur kveða á um.

Þar sem timburgólf eru í húsinu eru þau styrkt samkv. teikningum og fyllt af þéttull. Þá eru loft í timburhúsinu klædd þreföldu gifsi og er neðsta lagið slitið frá þeim efri til hljóðeinangrunar. Öll loft skilast fullfrágengin.

Í steypta hlutanum eru loft hússins tekin niður vegna lagna og klædd viðarþiljum. Allir gluggar í steypta hluta hússins eru nýir með tvöföldu k-gleri. Í eldri hluta hússins eru nýir rammar (fög) í öllum gluggum með sérlímdu k-gleri.

Þak hússins er allt endurnýjað og klætt með aluzinki. Þar sem við á hafa verið settir þakgluggar og í eldri hlutann eru þeir sérpantaðir í eldri stíl. Þá hefur sá hluti þaksins sem er sléttur, verið lagður þar til gerðum dúk og einangraður undir hitalagnir og hellulögn. Þak yfir hluta kjallarans sem einnig er bakgarður, er líka dúklagt og með hita og hellulögn.

Sameign hússins skilast máluð og fullfrágengin. Þvottahús og vagna- og hjólageymsla eru með flísalögðum gólfum og lögnum fyrir þvottavélar og er innangengt í bæði þvottahús og vagnageymslu úr sameign. Geymslur eru í kjallara hússins.

Fataskápar, eldhús og baðinnréttingar eru sérsmíðaðar frá Beyki ehf. og allar vatns-, hita- og skolplagnir eru endurnýjaðar frá grunni. Raflagnir eru einnig allar nýjar.

Mikill áhugi á íbúðunum

Brynleifur segir, að verð hafi ekki enn verið endanlega ákveðið.

"Það er alls ekki ódýrara að taka svona gamalt hús í gegn en að byggja nýtt og erfiðara að gera kostnaðaráætlun," segir hann og bætir því við, að húsið hafi verið dýrt er hann keypti það, en segist ekki vilja gefa upp kaupverðið.

Brynleifur kveðst verða var við mikinn áhuga á þessum íbúðum. Það er mikið spurt og hann segist reikna með, að það verði auðvelt að selja þær. "Það er ávallt talsverður hópur fólks, sem vill búa í miðborg Reykjavíkur," segir hann. "Þetta er fólk á öllum aldri, karlar jafnt sem konur og úr mismunandi starfstéttum. Þá er það mjög algengt, að listafólk vilji búa í miðborginni."

Áður hefur Brynleifur endurbyggt nokkur gömul hús í miðborginni nánast frá grunni. Þeirra á meðal er húsið Vitastígur 11, sem var komið í mikla niðurníðslu. "Það var orðið aðsetur dópista og fullt af sprautunálum út um allt, þegar ég tók við því," segir hann. "Þar eru nú sex íbúðir, en húsinu var breytt í lítið íbúðahótel. Allt inni í því var endurnýjað, lagnir og annað en það var ekkert átt við húsið að utan."

Brynleifur segist hafa mikla ánægju af því að gera upp gömul hús. Fyrir skömmu keypti hann húsið á Hverfisgötu 45. "Þetta hús á sér líka mikla sögu," segir hann. "Það er hið gamla hús Söngskóla Reykjavíkur, sem síðan flutti upp á Snorrabraut í hús Osta- og smjörsölunnar. Það var læknir, sem byggði þetta hús 1914 og bjó í því í tvö ár. Síðan var norska sendiráðið í þessu húsi í um fimmtíu ár."

Í þessu húsi ætlar Brynleifur að opna gistiheimili með 14-15 herbergjum næsta vor. "Þetta er afar skemmtilegt hús," sagði hann að lokum. "Undirbúningsvinnan er nú í fullum gangi. Það er verið að sækja um leyfi, teikna og gera klárt."