Ævar Örn Jósepsson
Ævar Örn Jósepsson
349 bls. Mál og menning. 2002.

MIÐALDRA karlmaður finnst látinn eftir fall ofan af fjórtándu hæð íbúðablokkar og bendir allt til þess að um sjálfsmorð hafi verið að ræða. En þegar Árni, nýliðinn í rannsóknarlögreglunni, og Stefán, þrautreyndur yfirmaður hans, fara að rannsaka málið kemur ýmislegt sérkennilegt upp á yfirborðið. Hvað olli því t.d. að hinn látni varð einrænn, dró sig út úr farsælum fyrirtækjarekstri sínum, gerði erfðaskrá stuttu fyrir andlát sitt, keypti hús á Spáni og hugðist líklega flytja þangað? Var hann mögulega að flýja eitthvað eða einhverja?

Skáldsagan fer fremur hægt af stað og eyðir höfundur dágóðum tíma í að kynna okkur fyrir þeim Árna og Stefáni, persónulegum högum þeirra og vangaveltum. Þannig eru flestir kaflar bókarinnar sagðir til skiptis út frá þessum tveimur persónum þótt Árni fái mun meira rými. Hann er fremur óöruggur með sig og gerir ýmis persónuleg mistök í rannsókninni auk þess sem hann er býsna breyskur. Vissulega er eðlilegt að veita ákveðið svigrúm til að kynna aðalpersónurnar fyrir lesendum en á köflum virðist höfundur missa sig út í aðeins of miklar upptalningar, eins og þegar hann t.d. lýsir í smáatriðum hvað Árni hefur keypt í matinn. Það er í raun ekki fyrr en upp úr miðri bók sem spennufléttan fær loks meira svigrúm, en þá fara hlutirnir líka að gerast.

Ævar Örn skrifar afar lipran texta, samtölin eru þjál og spennufléttan haganlega samansett hjá honum. Hann staðsetur söguna í íslensku samhengi þar sem íslenska "skítaveðrið" setur mark sitt á persónurnar og lík eru falin í gjótum en er á sama tíma stöðugt að bera þessar aðstæður saman við glæpaheiminn sem birtist okkur í amerískum spennumyndum og minna á að þær eru allt öðruvísi. Engu að síður er þetta býsna harður karlaheimur sem höfundur dregur upp þar sem mikið er drukkið, reykt og uppáferðir aðalpersónunnar fá kannski óþarflega mikla athygli. Sýn Árna á konurnar sem hann kynnist einkennist af fordómum og neikvæði þótt hann sé jafnframt stöðugt að minna sig á að dæma fólk ekki eftir útliti og fyrstu áhrifum. Þannig lærir hann smám saman að hlutirnir eru yfirleitt ekki jafneinfaldir og þeir oft virðast við fyrstu sýn.

Silja Björk Huldudóttir