23. nóvember 2002 | Menningarblað/Lesbók | 353 orð

HJÖRTUR PÁLSSON

NÓTT FRÁ SVIGNASKARÐI

Hver varstu? Hvað greip þig goðsögn í líki hests með glóð í auga, styggð í hverri taug og brotnandi öldur brims í hlustum þínum?
Hver varstu? Hvað greip þig

goðsögn í líki hests

með glóð í auga, styggð í hverri taug

og brotnandi öldur brims í hlustum þínum?

Þú þyrlar upp stjörnum

stælt með titrandi bóga

og stefnir burt

yfir holt, yfir klappir og flóa

orðin að logandi þrá til að flýja frjáls

út í fjarskann...

Þitt heimkynni var ekki hérað blánandi jökla

hraun og mýrar né borgin

þar sem þú stóðst...

nei, heimkynni þitt var hafið

sem býr í oss öllum

...og himinninn sem oss dreymir...

Hófadynur!

Þú stefnir til hafs og stekkur

í freyðandi brimið

fram af ísgrænni skör.

Áttfætti hestur!

Svo hófst þín vængjaða för

um undirdjúpin

upp í sjöunda himin.

Vængjaða Nótt!

Nú heyri ég fax þíns flug

sé froðuna löðra um granir

á skýjanna vegi

með styggð í blóði stefnir þú enn sem fyrr

með stormbláar manir

á móti glófextum Degi.

Til athugunar

Kveikjan að þessu ljóði og heiti þess er sótt í þátt eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp sem fyrst birtist í riti hans, Horfnum góðhestum I, 1948, en saman dregin á þessa leið í safnritinu Hófadyn sem Andrés Björnsson og Kristján Eldjárn tóku saman og út kom 1966:

"Í stóði Kristófers var brún hryssa, sem kölluð var Nótt. Hún var stygg í haga, einráð og sérvitur, en það sem þótti einkennilegast við háttalag hennar var, að hún hélt sig jafnaðarlega nálægt sjó, einkum þegar brim var mikið. Hún valdi sér dvalarstað á Borg á Mýrum. Oft sást hún standa áveðurs uppi á háum klettaborgum, þar sem hún hafði góða sýn yfir hinn sollna flaum hafaldnanna.

Nótt var aldrei tamin, og aldrei kom hún í hús til hjúkrunar. Þegar Nótt var komin um eða yfir tvítugt, gerði mjög harðan vetur, og voru flest hross í Mýrasýslu komin á gjöf. Nótt var þá enn úti og fá hross, sem henni fylgdu, og þar á meðal brún hryssa á öðrum vetri, sem undir henni gekk. Frost voru þá svo mikil, að Borgarfjörð lagði langt út. Einhvern dag var því veitt athygli, að Nótt stikaði á undan hópnum, sem fylgdi henni, út eftir lagísnum og stefndi til djúps. Þegar á skörina kom, steypti hún sér þar fram af. Þarna hvarf Nótt í öldur hafsins."

Höf.

Höfundur er skáld og þýðandi og hlaut ljóðlistarverðlaunin "Ljóðstaf Jóns úr Vör" fyrir þetta ljóð þegar þau voru veitt í fyrsta sinn 21. janúar síðastliðinn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.