Í þætti um íslenskt mál 16. nóv. sl. var rætt um ofangreint orðalag, sem hafði komið fyrir í fyrirsögn í Mbl. skömmu áður: "Ummerki um íkveikju á nokkrum stöðum." Ég játa, að ég hnýt ekki um hana.
Í þætti um íslenskt mál 16. nóv. sl. var rætt um ofangreint orðalag, sem hafði komið fyrir í fyrirsögn í Mbl. skömmu áður: "Ummerki um íkveikju á nokkrum stöðum." Ég játa, að ég hnýt ekki um hana. Það er vel þekkt í íslenzku, að forsetning sé notuð sem forskeyti með nafnorði, en haldi einnig stöðu sinni sem forsetning. Að sjálfsögðu má í framangreindu dæmi tala um merki um eitthvað eða merki einhvers, en er merkingin alveg hin sama? Hvað segja menn t. d. um orðalag eins og að hafa áhuga á einhverju. Auðvitað getum við sagt að hafa hug á e-u, en það táknar ekki sama og hafa áhuga á e-u. Hafa (eða fá) yfirlit yfir eitthvað. Ég held það sé erfitt að sleppa yfir í þessu dæmi. Á sama hátt fæ ég ekki séð að unnt sé að tala í sömu andránni um eftirspurn eftir e-u og spurn eftir e-u. Eða hvað segja menn um sambandið ummæli um e-ð eða e-n? Hér getum við ekki stytt þetta í mæli um, enda segir það ekki nokkur maður. Svo taka menn ábyrgð á e-u og ekki treysti ég mér til að sleppa þar á-inu í no. Menn tala um umferð um hálendið, en ferð um hálendið táknar ekki hið sama í mínum huga. Fleiri dæmi þessu lík má benda á, þar sem erfitt eða nær óhugsandi er að greina í sundur orðið, sem er bæði forskeyti og forsetning. Talað er um að vera í fyrirsvari fyrir e-u málefni, en tæplega eða ekki að vera í svari fyrir í sömu merkingu. Talað er um ávísun á e-ð, ekki vísun á e-ð. Með tilvísun til e-s er venjulega sagt. Í lagamáli virðist aftur á móti hafa festst orðalagið með vísan til (þessa máls). Ég get því að lokum sagt, að með vísan til þess, sem hér hefur verið bent á, er ekkert athugavert við að segja ummerki um íkveikju á nokkrum stöðum. - J.A.J.