"...það þarf því ótrúlega hugarleikfimi til þess að komast að þeirri niðurstöðu að sökkva eigi Þjórsárverum með lóni í 575 metra hæð".

SÚ umræða, sem átt hefur sér stað undanfarin misseri varðandi Þjórsárver og Norðlingaölduveitu, hefur að mati undirritaðs verið ákaflega einslit, og allir sannleikselskandi menn hljóta að spyrja sig hvort þessi umræða og greinarskrif gefi rétta mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum eða vilja fólksins í landinu varðandi þessi mál.

Veröldin er ekki bara svört eða hvít og það er ekki hægt að skipta þjóðinni í náttúruverndarsinna eða landníðinga og afgangurinn sé svo í besta falli skoðanalausir jábræður Landsvirkjunar og stjórnvalda.

Framsýnir forystumenn

Íslendingar hafa aldrei lifað af öðru en landinu og sjónum umhverfis það. Bjartur í Sumarhúsum tók alltaf málstað sauðkindarinnar og hennar sjónarmið voru hans sjónarmið. Það land sem var gott til beitar var fallegt land í hans augum.

Þetta sjónarmið var ríkjandi allt fram á miðja 20. öld í sveitum landsins vegna þess að fólkið hafði fáa aðra möguleika til þess að framfleyta sér og sínum. Þó virtist ætla að rofa til með önnur tækifæri upp úr aldamótunum 1900 þegar Einar skáld Benediktsson hóf að kynna útlendingum möguleika á stórvirkjunum á Íslandi og var þá helst horft til áburðarframleiðslu. En Einar stóð ekki einn í þessu og hans helsti samstarfsmaður var Gestur Einarsson, bóndi á Hæli í Gnúpverjahreppi, sem féll frá langt um aldur fram 1918.

Gestur sá fyrir möguleika sinnar sveitar til að taka þátt í ævintýrinu og hóf að kaupa vatnsréttindin í Þjórsá af bændum og sveitarfélaginu. Þótt ekkert yrði úr virkjunum á þessum tíma þá komu samt umtalsverðir peningar af þessari sölu inn í sveitina sem meðal annars gerði sveitarfélaginu kleift að byggja Ásaskóla árið 1923. Skólinn var fyrsti heimavistarbarnaskóli í landinu og þjónaði jafnframt því hlutverki að vera félagsheimili og leikhús sveitarinnar í hart nær hálfa öld, eða þar til draumar þeirra Einars Ben. og Gests rættust 1968 þegar Búrfellsvirkjun tók til starfa.

Verulegar tekjur til sveitarfélagsins

Þær framkvæmdir höfðu gífurleg áhrif í Gnúpverjahreppi, íbúafjöldi margfaldaðist og tekjur sveitarfélagsins í formi útsvara og fasteignagjalda af virkjuninni streymdu í sveitarsjóð. Fyrir þetta fé byggðu Gnúpverjar glæsilegasta félagsheimili sem þá var í landinu, Félagsheimilið Árnes.

Vissulega fækkaði íbúum í sveitinni eftir að framkvæmdum við byggingu mannvirkja lauk. En tekjur sveitarinnar af virkjuninni voru áfram umtalsverðar og hafa nú enn aukist með tilkomu Sultartangavirkjunar.

Sem dæmi má nefna að fasteignagjöld af Búrfells- og Sultartangavirkjunum voru árið 2002 rúmar 38 m.kr. Þá eru ótalin útsvör þeirra Gnúpverja sem þar vinna auk margskonar hlunninda sem sveitin hefur notið af tilkomu virkjana svo sem í formi vegagerðar, uppgræðslu, skógræktar o.fl.

Samstarf og samkomulag

Samstarf Gnúpverja og Landsvirkjunar hefur alla tíð verið gott. Þegar Landsvirkjun hóf rannsóknir á efra Þjórsársvæðinu 1970 nutu Gnúpverjar þess að lagður var vegaslóði inn afréttinn og gátu þá fjallmenn í fyrsta skipti farið með trúss sín á bílum í leitir en áður höfðu þeir eingöngu orðið að flytja allan sinn farangur á þarfasta þjóninum þ.e. hestum. Á þessum tíma var sauðfjáreign Gnúpverja í hámarki og af fjalli komu allt að 15.000 fjár. Það var því ekki nema von að þeir mótmæltu því kröftuglega þegar sú hugmynd kom upp að sökkva ætti besta beitarlandi afréttarins með myndun Norðlingaöldulóns í 593 metra h.y.s.

Þessi kröftugu mótmæli áttu meðal annars þátt í því að menn settust niður og leituðu nýrra leiða sem enduðu með því að gert var samkomulag um að leyfa lónhæð í 581 m y.s. að undangengnum rannsóknum sem sýndu að slík lónhæð spillti ekki óhæfilega náttúrugildi Þjórsárvera.

Sem betur fer hefur áhugi manna á náttúruvernd aukist mjög á síðustu áratugum og umgengni um landi batnað stórlega, ofbeit heyrir nú nánast alstaðar sögunni til og allar framkvæmdir eru undir ströngu eftirliti. Flestir leggja metnað sinn í að umgangast náttúruna af virðingu, en auðvitað komumst við ekki hjá því að breyta landinu ef við ætlum að búa í því.

Hugarleikfimi og tilfinningabönd

Ekkert svæði landsins er nú betur rannsakað en Þjórsárver og engan mann hef ég fyrir hitt sem vill sökkva Þjórsárverum, en þeir sem þangað koma hrífast af fegurðinni. Aldrei hefur reynt á það hvort leyfi fengist fyrir lónhæð í 581 m y.s. en þess í stað sótt um þá hæð sem áður þótti óframkvæmanleg þ.e. 575 m y.s. en við þá hæð fara aðeins 7,3 km² af grónu landi undir vatn og um 20 km² af ógrónu landi. En í Þjórsárverum eru taldir vera um 140 km² af grónu landi og svæðið allt vera 375 km².

Árið 1981 voru 100 km² af grónasta og því verðmætasta hluta Veranna friðlýst. Við lónhæðina 575 m y.s færi 1,6 km² af því gróðurlendi undir vatn eða 1,6%, það þarf því ótrúlega hugarleikfimi til þess að komast að þeirri niðurstöðu að sökkva eigi Þjórsárverum með lóni í 575 metra hæð.

Sagt hefur verið að Þjórsárver hafi verið eitt best varðveitta leyndarmál landsins, ferðamenn fyrr á öldum fóru að vísu þarna um og fengu kærkomna beit fyrir hross, þá bjuggu í verunum um tíma Halla og Fjalla-Eyvindur. Gnúpverjar kynntust ekki verunum fyrr en 1880 en þá var fyrst smalað innan Fjórðungssands. Það að fá að fara í lönguleit og þar með í Arnarfell hið mikla var mikil manndómsvígsla fyrir unga menn á árum áður og lifði í huga fólksins sem land ævintýranna sveipað dulúð og engum fært nema hetjum og fuglinum fljúgandi. Það var því von að menn byndust slíkum stað sterkum tilfinningaböndum og vildu eiga hann óbreyttan útaf fyrir sig, menn skyldu samt varast að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur.

Bætt aðgengi, aukinn áhugi

Sú skoðun er enn til hjá hópi fólks að helstu náttúruperlur landsins séu aðeins fyrir fáa útvalda sem þangað geti brotist af harðfylgi, öslandi jökulár og klífandi björg. En eru ekki náttúruperlur landsins sameign þjóðarinnar? Ber okkur ekki skylda til að veita fötluðum, öldruðum og öðrum þeim sem lítt eru til gangs fallnir sem best aðgengi að slíkum stöðum? Vegir vegna virkjana hafa víða bætt aðgengi sem aftur hefur aukið áhuga fólks á landinu og ferðamennska er einn aðalvaxtarbroddurinn í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Skipulagðar ferðir undir eftirliti og leiðsögn sérfróðra manna er eitt af þeim tækifærum sem við eigum að nýta okkur þegar nýjar leiðir opnast.

Landvernd er ekki einkamál einhvers fámenns hóps fólks sem telur sig einan elska landið. Við höfum lifað á landinu í gegnum aldirnar, fyrst af sauðkindinni þar til gróðurþekjan var að mestu horfin, ekki bara af hennar völdum heldur flýtti þar fyrir gegndarlaust skógarhögg ásamt eldgosum. Nú lifum við af ýmsu öðru þar á meðal virkjun fallvatna. Auðvitað eru skiptar skoðanir um flest mannanna verk. Því hafa verið búin til "tæki" sem vega og meta á hlutlausan hátt þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Þetta tæki er umhverfismat sem nú hefur fellt sinn dóm.

Í þeirri orrahríð sem orðið hefur eftir úrskurð Skipulagsstofnunar varðandi Norðlingaölduveitu hefur mér stundum komið í hug þessi setning úr Njálu. Tíðkast nú hin breiðu spjótin.

Ég hélt það væri liðin tíð að skjóta sendiboðann þótt skilaboðin féllu ekki öllum í geð.

Eftir Sigurð Pál Ásólfsson

Höfundur er vatnamælingamaður og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Gnúpverjahreppi.