Sigurður T. Sigurðsson
Sigurður T. Sigurðsson
ÁRUM saman hef ég bent bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði á það mikla landbrot sem á sér stað á Hvaleyrinni, en hún styttist að jafnaði um einn metra á hverju ári.

ÁRUM saman hef ég bent bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði á það mikla landbrot sem á sér stað á Hvaleyrinni, en hún styttist að jafnaði um einn metra á hverju ári. Það var mér því fagnaðarefni þegar ég las viðtal sem DV átti við nokkra hafnfirska golfara og birt var á baksíðu blaðsins 20. nóvember sl. um nauðsyn þess að verja Hvaleyrina ágangi sjávar. Vonandi verður þessi DV-frétt til þess að ýta við bæjaryfirvöldum að gera eitthvað í málinu.

Áhugaleysi bæjaryfirvalda

Ég hef ítrekað flutt tillögur í atvinnumálanefnd Hafnarfjarðar um nauðsyn þess að bærinn fari út í framkvæmdir til varnar meira landbroti á Hvaleyri og einnig skrifað nokkrar greinar um það mál, sem m.a. hafa birtst í Fjarðarpóstinum á undanförnum árum. Þar að auki hef ég alloft á síðustu 12 til 15 árum staðið að tillöguflutningi í Verkalýðsfélaginu Hlíf, þar sem skorað var á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að hefja framkvæmdir til að verja Hvaleyrina ágangi sjávar. Tillögurnar voru jafnóðum sendar bæjarfulltrúum. Hvort þeir hirtu um að kynna sér þær er svo önnur saga.

Framkvæmdir strax

Öll skilyrði til að verja Hvaleyrina fyrir ágangi sjávar eru til staðar og ég fullyrði að kostnaður við þá framkvæmd er ekki mikill og óverulegur ef hann kemur í veg fyrir þau náttúruspjöll og landrýrnun sem þarna á sér stað. Því skora ég á núverandi bæjaryfirvöld að hefja framkvæmdir, ekki seinna en strax, til varnar Hvaleyrinni, þessari náttúruperlu okkar Hafnfirðinga.

Til þess að gefa lesendum og ekki síst nýlega kjörnum bæjarfulltrúum innsýn í hagkvæma lausn á þessu máli flyt ég þeim meðfylgjandi ályktun sem er hliðstæð þeim sem ég flutti og fékk samþykktar í atvinnumálanefndinni á sínum tíma:

Tillaga til úrbóta

Þar sem mjög brýnt er að verja Hvaleyrina fyrir frekara landbroti skora ég á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að hefja nú þegar framkvæmdir til úrbóta. Hagkvæmasta og besta lausnin væri sú að leggja upphækkaðan veg frá Hafnarfirði meðfram Hvaleyrinni og þaðan eftir ströndinni til Straumsvíkur með tengivegi við Reykjanesbraut vestan Hvaleyrarholts.

Með gerð slíks vegar ynnist margt, m.a.

a)upphækkaður vegur meðfram Hvaleyrinni kemur í veg fyrir áframhaldandi landbrot vegna ágangs sjávar

b)góð flutningsleið fyrir þungaflutninga fengist til og frá Hafnarfjarðarhöfn

c)beint vegasamband milli Hafnarfjarðarhafnar og Straumsvíkurhafnar skilar sér í betri nýtingu á húsnæði, tækjum, búnaði og viðleguplássum í báðum höfnunum

d)vegurinn er atvinnuskapandi og ýtir undir uppbyggingu svæðisins milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur, en þar er kjörinn staður fyrir alls konar fyrirtæki þegar beint vegasamband er komið við báðar hafnirnar

e)með vel frágenginni sjávarbraut frá Hafnarfirði til Straumsvíkur er hægt að taka tillit til tveggja meginatriða við gerð mannvirkja, sem er hagkvæmni og náttúruvernd.

SIGURÐUR T. SIGURÐSSON,

starfsmaður Vlf. Hlífar.

Frá Sigurði T. Sigurðssyni: