Guðmundur Hárlaugsson, nemi í pípulögnum.
Guðmundur Hárlaugsson, nemi í pípulögnum.
Guðmundur Hárlaugsson er að ljúka námi í pípulögnum við Iðnskólann í Hafnarfirði. Hann segist vera ánægður með veru sína í skólanum, kennslan sé góð svo og námsgögn nema hvað honum finnst vanta meiri verklega kennslu í faginu en það standi til bóta.

Guðmundur Hárlaugsson er að ljúka námi í pípulögnum við Iðnskólann í Hafnarfirði. Hann segist vera ánægður með veru sína í skólanum, kennslan sé góð svo og námsgögn nema hvað honum finnst vanta meiri verklega kennslu í faginu en það standi til bóta.

Hverjir eru atvinnumöguleikarnir í þínu fagi?

"Þeir eru mjög góðir bæði hér og erlendis. Kosturinn við pípulögnina er sá að hægt er að vinna við hana alls staðar í heimum. Það er líka ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í fagið því mig langar að prófa að búa erlendis. Ég hef heyrt að iðnmenntunin sem við fáum hér sé hátt metin víða um heim."

Hvað finnst þér mest spennandi við námið?

"Þær nýjungar sem hafa verið að koma inn í fagið á síðustu árum. Starfið er fjölbreytt og krefst nákvæmni og natni."

Hverja telur þú ástæðu þess að sveinsprófum hefur verið að fækka?

"Fólk sækir í störf sem eru þrifalegri. Það hefur heldur ekki þótt neitt fínt að fara í iðnnám."

Hvaða ráð vilt þú gefa tíundubekkingum sem eru að skoða valkosti framhaldsskólanna?

"Þeir ættu að íhuga vel hvað þeir vilja starfa við að námi loknu og gefa iðnnáminu séns áður en þeir fara sjálfkrafa í bóknám. Störf sem bjóðast eftir iðnnám eru fjölbreytt og þau halda fólki í ágætu líkamlegu formi sem hefur góð áhrif á sálartetrið."

Sérðu fyrir þér hvernig iðnskólarnir eiga eftir að þróast?

"Þeir þurfa að vera í sem allra nánustum tengslum við atvinnulífið og verkleg kennsla þarf að fara sem mest fram í skólanum svo framarlega sem það er mögulegt til þess að námið nýtist sem best."

Hver finnst þér helsti kosturinn við að fara í iðnnám?

"Þetta er tiltölulega stutt nám í skóla og því ódýrt miðað við annað nám. Í mörgum tilvikum er hægt að vinna með náminu svo fólk hefur tekjur meðan á því stendur."