Indriði Waage sem Galdra-Loftur árið 1933.
Indriði Waage sem Galdra-Loftur árið 1933.
SAMTÖK um leikminjasafn heiðra minningu Indriða Waage leikstjóra og leikara, sem hefði orðið 100 ára 1. desember, með því að opna vefsíðu um hann og afhjúpa veggspjald í Iðnó í dag kl. 17.

SAMTÖK um leikminjasafn heiðra minningu Indriða Waage leikstjóra og leikara, sem hefði orðið 100 ára 1. desember, með því að opna vefsíðu um hann og afhjúpa veggspjald í Iðnó í dag kl. 17. Umsjón með samantekt um Indriða og dagskránni hefur Sveinn Einarsson. Indriði lést árið 1963.

Indriði Waage leikari og leikstjóri var fæddur í Reykjavík 1. desember 1902, sonur Jens B. Waage leikara og leikstjóra og síðar bankastjóra og konu hans Eufemiu Waage leikkonu. Afi hans og nafni var Indriði Einarsson, frumkvöðull í leikritun og mestur baráttumaður þess að Íslendingar eignuðust Þjóðleikhús. Indriði Waage var því alinn upp í leikhúsumhverfi og snemma beygðist hugur hans í þá átt, þó að hann þyrfti sem flestir aðrir af hans kynslóð að sinna ýmsum öðrum daglegum störfum sér til lífsviðurværis. Tvítugur að aldri þreytir hann frumraun sína á leiksviði. Um þetta leyti urðu kynslóðaskipti hjá Leikfélagi Reykjavíkur, ung kynslóð er að taka við og Indriði er þar í forystusveit sem leikari og leikstjóri. Hann er fyrstur til að færa upp leikrit Shakespeares á Íslandi, fyrir hans tilstilli er Pirandello sýndur hér á sama tíma og hann kemur fram í öðrum löndum og hann kynnir landsmönnum hugmyndir um alþýðuleikhús með leikgerðum á sögum Jóns Thoroddsens.