Homogenic-tónleikaferðin. Palladium í London.
Homogenic-tónleikaferðin. Palladium í London.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björk Guðmundsdóttir sendi á dögunum frá sér safnskífu þar sem aðdáendur hennar völdu lögin og um leið box, Family Tree, sem segir tónlistarlega ævisögu söngkonunnar. Árni Matthíasson rekur tónlistarferil Bjarkar frá því fyrsta eiginlega sólóplatan kom út fyrir níu árum.

Í MAÍ 1990 sneru Sykurmolarnir heim eftir strangt tónleikahald víða um heim til að fylgja eftir breiðskífunni Illur arfur / Here Today, Tomorrow, Next Week; langþreyttir á ferðalögum, tónleikahaldi, humri og frægð. Þau virtust og vera orðin þreytt á að vera Sykurmolar um sinn því hljómsveitin var sett í salt og tónlistariðkan í nýjan farveg, öll saman reyndar í Jazzhljómsveit Konráðs Bé. Björk Guðmundsdóttir söngkona sveitarinnar var þá þegar komin með fullt höfuð af hugmyndum sem ekki féllu að því sem aðrir liðsmenn sveitarinnar vildu fást við, hún var orðin leið á rokkinu og eins og hún orðaði það í viðtali haustið 1990 væri hún svo "hræðilega nýjungagjörn"; "mig langar í tilraunastarfsemi, mig langar alltaf til að vera gera eitthvað alveg glænýtt".

Þegar hér var komið í tónlistarsögunni var klúbbatónlist, létt klifunarkennd danstónlist, mjög að sækja í sig veðrið á Bretlandseyjum og Björk, sem var einnig gefin fyrir bandarískt hiphop, horfði mjög til þess sem var að gerast á Bretlandi, sá þar sömu spennu og grósku sem var í pönkinu sem heillaði hana svo sem ungling. Um haustið hringdi hún í Graham Massey höfuðpaur danssveitarinnar 808 State sem var á þeim tíma ein helsta danssveit Bretlands, mikils metin fyrir breiðskífuna 90 sem kom út 1989. Eins og Björk hefur lýst símtalinu gerði Massey sér enga grein fyrir því hver væri að hringja, hélt helst að þetta væri íslensk skólastelpa og því forvitnilegt í sjálfu sér að hitta hana. Björk fór utan með upptökur sem hún hafði gert sjálf, meðal annars með blásurum úr Júpíters, og eftir að Massey og félagar voru búnir að jafna sig eftir að hafa áttað sig á hver "íslenska skólastelpan" var tóku þeir Björk vel og hún söng til að mynda yfir tvö lög sem þeir voru með í smíðum.

Einna mest græddi hún þó á því að þræða klúbba með Massey og félögum, því þar kynntist hún öðrum tónlistarmönnum sem voru álíka þenkjandi, þeirra helstum Nellee Hooper, sem átti eftir að starfa mikið með henni, og komst einnig í tæri við allt það ferskasta sem þá var á seyði í tónlist á Bretlandseyjum. Að vísu var klúbbatónlistin ekki ýkja merkileg fram eftir nóttu, en undir morgun birtust helstu danstónlistarsmiðir og plötusnúðar og kynntu nýtt efni fyrir þeim sem þraukuðu. Tónlistin var taktmettuð og oftar en ekki varla nema taktur, lítið um hljóma og laglínur, en Björk langaði að bræða saman takta og laglínur, að búa til það sem henni fannst vera lög, en oft var ekki hægt að nota það orð yfir breska danstónlist, svo ágæt sem hún var.

Á meðan Björk var að leita að nýrri tónlist voru hinir Sykurmolarnir að undirbúa nýja breiðskífu, því það þurfti að uppfylla útgáfusamning, héldu æfingar og sömdu lög. Til stóð að taka plötuna upp ytra, en þegar Björk sneri heim og undirbúningur hófst kom snemma í ljós að hún vildi fara aðrar leiðir en félagar hennar.

Síðasta Sykurmolaplatan var svo tekin upp í Woodstock vestur í Bandaríkjunum og síðan hljóðblönduð í Los Angeles. Eftir að þeirri vinnu lauk lýsti Björk því yfir að hún væri hætt í Sykurmolunum. Áður en yfir lauk fór sveitin þó í stutta tónleikaferð um Evrópu og síðan til Bandaríkjanna og sumarið 1992 gat hún tekið til óspilltra málanna að taka upp tónlist á eigin forsendum. Í rúman áratug hafði hún unnið með öðrum og oftar en ekki sem yngsti meðlimur hljómsveitar, en nú fannst henni tími til kominn að hefja nýjan kafla í tónlistarsögu sinni. Sykurmolarnir áttu reyndar eftir að fara eina tónleikaferð til, hita upp fyrir U2 á nokkrum tónleikum vestan hafs, en í raun var hljómsveitin búin að syngja sitt síðasta vorið 1992.

Debut Eins og getið er var Björk með þó nokkuð af hugmyndum í höfðinu þegar hún hélt til Lundúna að leita sér að samstarfsmönnum, sveitastúlkan sem kom til stórborgarinnar með fulla ferðatösku af lögum, en framan af var hún ekkert að hugsa um að taka upp tónlist til að gefa út, hún fór ekki út í leit að frægð og frama, búin að fá nóg af því, heldur til að vaxa sem tónlistarmaður, vinna nýjar lendur. Samstarfið við Massey gekk bráðvel og smám saman tóku lögin á sig þá mynd að sú hugmynd kviknaði að gefa tónlistina út. Enn var allt á því tilraunastigi að henni datt ekki í hug að gera ráð fyrir að flytja þyrfti lögin á tónleikum; fyrst stóð ekki til að gefa neitt út og svo var ætlunin að gefa út plötu sem enginn átti von á að myndi seljast af neinu viti og því myndi ekkert þurfa að fylgja henni eftir. Annað kom þó á daginn.

Fyrsta sólóskífa Bjarkar, Debut, kom út sumarið 1993 og vakti þegar mikla athygli, mun meiri athygli en hún átti von á að minnsta kosti, eins og hún hefur lýst í viðtölum. Vinsældir plötunnar, sem fór snemma inn á topp tíu á breska breiðskífulistanum, kölluðu á meira; það þurfti að fylgja plötunni eftir og þar sem engin hljómsveit stóð að plötunni þurfti að smala saman í slíka. Það var gert með hraði, lýst eftir mannskap og síðan æft af krafi í þrjár vikur til að geta endurskapað tónlistina sem náði vitanlega ekki nema hálfa leið. Debut kom út ytra 6. júlí 1993 og fór beint í þriðja sæti breska breiðskífulistans, en að sögn vantaði 30 eintök upp á að hún næði í annað sætið. Platan átti síðan eftir að sitja hátt í ár á listanum, ýmist inni á topp tíu eða rétt fyrir utan. Fyrstu tónleikarnir með nýju hljómsveitinni voru síðan 19. ágúst þannig að ekki gafst mikill tími til að útsetja tónlistina upp á nýtt eða æfa almennilega. Fyrstu tónleikarnir, sem voru í London Forum, gengu þó ágætlega fyrir sig, en prófsteinninn var þó tónleikar á Wembley-leikvanginum þar sem Björk hitaði upp fyrir U2 frammi fyrir 50.000 áheyrendum. Á myndum frá tónleikunum má sjá að hún er býsna spennt, en eftir tónleikana sagði hún að það hefði ekki síst verið vegna þess að hún heyrði ekkert í sjálfri sér á sviðinu og vissi því ekki nema hún væri að syngja allt rammfalskt.

Debut var ekki síst vel tekið vegna þess að hún var boðberi nýrra tíma í danstónlist, laglínan var hafin til vegs og virðingar að nýju án þess þó að missa sjónar á því hvað gerði danstónlistina svo heillandi; fjölsnærður takturinn.

Vestur í Bandaríkjunum tóku menn plötunni stirðlega, plötudómari Rolling Stone kvartaði yfir því að ekki heyrðist í rafgítar á henni, enda var tónlistarþróun þar í landi nokkrum árum á eftir því sem var að gerast i Evrópu.

Nú þegar ákveðin fjarlægð er komin á verkið, níu ár síðan Debut kom út, eru menn almennt sammála um hversu áhrifamikil platan var í framvindu danstónlistarinnar. Í vali á helstu plötum tíunda áratugarins á Bretlandseyjum var Debut nánast alls staðar á listum, því þótt hún sé ekki besta verk Bjarkar, þar nefna menn frekar Homogenic og Vespertine, er hún með hápunktum dansmenningarinnar í Bretlandi, ein af táknmyndum heillar kynslóðar breskra danstónlistarvina sem náði vinsældum langt út fyrir raðir þeirra.

Post Debut var samin án nokkurra væntinga og þrýstings frá einum eða neinum; Björk hefur lýst því að vinnan við hana hafi verið eins og leikur, allt var prófað og allt var leyfilegt. Viðtökurnar við plötunni voru aftur á móti fulljákvæðar að hennar mati, enda lét hún þau orð falla í viðtölum að hún væri aðeins að stíga fyrstu skrefin. Lögin á Debut höfðu flest verið til þegar vinna við þau hófst í hljóðverinu en þegar kom að því að undirbúa næstu plötu samdi hún lögin í Lundúnum. Nú kunni hún sitthvað fyrir sér í hljóðverinu, vissi betur hvað væri hægt að gera og þá hvað hún vildi gera. Til að byrja með var Nellee Hooper með henni í hljóðverinu en var svo upptekinn við annað að hann sást ekkert megnið af tímanum. Í hans stað kom Marius DeVries, hollenskur slagverkssnillingur, en aðrir sem lögðu henni lið á þessum tíma voru Howie B, Tricky og Graham Massey. Tónlistin á Post var ekki eins ungæðisleg, ekki eins léttúðug og á Debut. Á Post var steinsteypa, stál og gler eins og heyra mátti á uphafslagi plötunnar, Army of Me og ekki síður í myndbandi við það lag það sem Björk sprengir upp listasafn, en það var sýnt stytt í Bandaríkjunum í kjölfar tilræðisins í Oklahoma-borg.

Post kom út 12. júní 1995 og að þessu sinni voru menn viðbúnir, lögin útsett með það fyrir augum að hægt væri að spila þau á tónleikum og þegar búið að sjá út hvernig ætti að leysa af hólmi sextíu manna strengjasveit; strengjapartarnir voru einfaldlega útsettir fyrir harmonikku. Mikil vinna var líka lögð í að gæða spilamennskuna sem mestu lífi og þó tölvuunnir taktar hafi verið áberandi var svo búið um hnútana að trymbillinn sem Björk fékk í sveitina, varð að vera því viðbúinn að stundum myndi hann spila aðaltaktinn og stundum aukatakta, en við hljóðsmalann sat annar "slagverksleikari" og valdi takta.

Post vakti ekki eins mikla athygi og Debut, sem vonlegt var, en seldist enn betur, ekki síst fyrir það að á plötunni var gamalt söngleikjalag, It's Oh So Quiet, í magnaðri útsetningu. Það kom svo sem ekki á óvart að Björk tæki slíkt lag á skífunni, enda var hún með aðra gamla lummu úr svipaðri átt á Debut, söng Like Someone in Love við hörpuundirleik Corki Hale. It's Oh So Quiet varð aftur á móti gríðarlega vinsælt og leiddi meðal annars til þess að Lars von Trier bað Björk að leika aðalhlutverkið í mynd sinni Dancer in the Dark. Það hlaut þó ekki náð fyrir augum aðdáenda Bjarkar þegar verið var að velja á safnskífu með helstu lögum hennar sem kom út fyrir skemmstu, því það náði ekki inn á plötuna; fékk ekki nógu mörg atkvæði gesta á vefsetri Bjarkar, en þeir fengu að velja lögin á skífunni og eru þau þar í vinsældaröð. (Þess má reyndar og geta að ekkert laganna af plötunni Selmasongs, sem á var tónlist úr Dancer in the Dark, hlaut náð fyrir augum tugþúsunda vefgesta Bjarkar, en hún valdi tvö þeirra í lagasafn sem fylgir Family Tree-boxinu.)

Telegram Næsta skífa á eftir Post var Telegram sem innihélt endurhljóðblönduð lög af Post, en nokkuð hafði áður verið hljóðblandað af lögum Bjarkar. Yfirleitt hafði það þó verið að undirlagi útgáfu hennar, oft vegna þess að þar á bæ voru menn að reyna að gera lögin styttri og útvarpsvænni og Björk hefur sagt að hún hafi yfirleitt ekki kunnað við þær útgáfur sem menn gerðu af lögum hennar. Eftir að Post kom út ákvað hún aftur á móti að leita sjálf uppi fólk sem hún treysti og fá það til að endurgera lög, en á þessum tíma var mikið gróska í slíkum pælingum. Mikið dró úr áhuga á endurunnum lögum eftir miðjan áratuginn og mun minna var til að mynda endurhljóðblandað af lögum af næstu plötum Bjarkar, Homogenic og Vespertine, öðrum þræði vegna þess að hún valdi fólk af meiri kostgæfni.

Homogenic er af mörgum talin besta plata Bjarkar, eða ein besta platan með Vespertine. Platan er tekin upp að stórum hluta á Spáni enda lýsti Björk því að hún hafi þurft á því að halda að komast burt frá kunnuglegu umhverfi í Lundúnum og alls ekki vildi hún fara til Íslands að taka upp þar sem umhverfið var enn kunnuglegra. "Ég settist að á Spáni í hálft ár, ekki síst vegna þess að Spánn er hlutlaust land fyrir mig að vinna í, ég hefði ekki getað gert þessa plötu til að mynda á Íslandi og mig langaði að taka hana upp utan Bretlands. Heima á Íslandi er allt of mikið af minningum og fólki sem ég þekki; ég þurfti að komast frá kunnuglegu umhverfi og gera ýmislegt upp; ganga á hólm við sjálfa mig," sagði hún í viðtali við Morgunblaðið skömmu áður en platan kom út. Hún lét þau orð einnig falla að eftir Debut og Post hafi hún verið búin að læra mikið og langað að sýna hvað í sér byggi. Þannig hafi vakað fyrir henni að gera tónlist sem hefði rætur á Íslandi, rætur í íslenskri tónlist og þá greip hún til strengja og kallaði til liðs við sig íslenska strengjaleikara sem skipuðu oktett sem átti eftir að setja mikinn svip á plötuna og fylgja henni um heiminn.

Homogenic kom svo út 22. september 1997 og vakti ekki síst athygi fyrir að á henni birtist ný Björk, ákveðnari og tilfinningaríkari en forðum. Textarnir voru margir mjög sterkir, persónulegri en á fyrri plötum þar sem hún skaut sér oft á bak við ímyndaðar persónur og óhlutbundnar líkingar, en á Post fór ekki á milli mála að hún var víðast að syngja um eigin reynslu og tilfinningar.

Tónleikaferðin til að kynna Homogenic var óneitanlega nokkuð sérstök fyrir Björk, því nú voru ferðafélagarnir meðal annars átta íslenskir strengjaleikarar, allir mótaðir af klassískum aga, vandir við að spila af blaði, en komu þó hver úr sinni áttinni með mismunandi áherslur í tónlist. Framan af ferðinni var lítill tími til annars en að ferðast, sofa, borða og spila, en smám saman gafst betra næði til að spá í hlutina og strengjaoktettinn fór að koma meira inn í lögin, tók að leggja til hugmyndir sem gerði að verkum að lögin breyttust smám saman í meðförum sveitarinnar eins og heyra mátti til að mynda snemma í ferðinni, síðan á tónleikum í Benicassim á Spáni í ágúst 1998 og loks í Þjóðleikhúsinu 5. og 6. janúar 1999.

Selmasongs Margsögð er sagan af kvikmyndinni Dancer in the Dark, umstanginu í kringum hana, deilum og tilheyrandi og verður ekki rakin hér. Tónlistin í myndinni var eftir Björk og dró nokkurn dám af myndinni, en aðalsögupersónan, Selma, hefur mikið dálæti á söngleikjamyndum sem heyra má óma í tónlistinni.

Selmasongs kom út 28. nóvember 2000. Tónlistin var unnin svo til samhliða myndinni, en Björk var líka byrjuð á næstu eiginlegu hljóðversplötu sinni og á Selmasongs er þannig að finna lag sem gaf til kynna hvert stefndi, lagið Cvalda, en hljóðaheimurinn sem þar var kynntur stakk nokkuð í stúf við annað úr myndinni.

Ýmsir lögðu Björk lið við samsetningu tónlistarinnar, þar á meðal Valgeir Sigurðsson, sem rekur hljóðverið Gróðurhúsið, en lagasmíðar og upptökur hófust í janúar 1998. Grunnar voru gerðir í Gróðurhúsi Valgeirs, en einnig var tekið upp í hljóðveri í Danmörku á meðan tökur stóðu.

Vespertine Ekki hefði verið óeðlilegt að búast við að samskiptin við strengjaoktettinn íslenska myndi hafa einhver áhrif á það sem á eftir kæmi og við fyrstu hlustun á Vespertine finnst kannski einhverjum að svo sé, í það minnsta er eins og strengjahljóðfæri séu í aðalhlutverki. Þegar betur er að gáð kemur aftur á móti í ljós að meira er um rafeindahljóð en áður, meira reyndar en á nokkurri plötu Bjarkar til þessa. Enn var líka breytt útaf í tónlist og textum; ef ekki hefði verið fyrir röddina hefði mátt telja mörgum trú um að plötunar fjórar væru eftir fjóra mismunandi listamenn, skylda kannski, jafnvel samlanda, en ólíka um flest.

Eins og getið er var Björk byrjuð á Vespertine nokkru áður en eiginlegar upptökur hófust og hún hefur reyndar sagt að síðasta lagið á Homogenic, All is Full of Love, væri í raun fyrsta lagið á Vespertine. (Þess má til gamans geta að það er vinsælasta lag Bjarkar ef marka má kosninguna á vefsetri hennar um hvaða lög ættu að vera á safnskífunni.)

Homogenic var mjög opinská og opin plata, ef svo má segja, úthverf eins og Björk lýsir henni sjálf, og hún hefur látið þau orð falla að sér hafi þótt tími til kominn að ferðast inn á við og Vespertine átti að verða slík ferð, að hlusta á hana að verða eins og að hlusta á einhvern sem er að hvísla að sjálfum sér í einsemdinni.

Til að ná fram þeirri stemmningu tók Björk meðal annars upp ýmis hljóð heima fyrir og ætlaði um tíma að láta plötuna heita Domestica, til að undirstrika inntakið. Í viðtali við Morgunblaðið sagði hún að lögin á plötuna hafi verið samin í íslensku vetrarmyrkri; hún sé vetrarplata, þar sem hún situr inni í eldhúsi ein með fartölvuna og hvíslar.

Samstarfsmenn Bjarkar að þessu sinni voru gamlir kuningjar eins og Marius DeVries og Guy Sigsworth, en einnig komu að verkinu Andrew Daniel og Martin Schmidt sem skipa Matmos-tvíeykið skömmu áður en hljóðblöndun hófst. Hörpuleikarinn Zeena Parkins kemur einnig mjög við sögu, en hún og Matmos-liðar voru einmitt í tónleikasveitinni sem fylgdi plötunni eftir og einnig fullmönnuð sinfóníusveit og kór grænlenskra stúlkna, 108 manns alls. Það kostar sitt að vera með svo marga á launum og borga að auki allan kostnað við að flytja þá á milli staða og þegar við bætist að í ferðinni spilaði Björk yfirleitt aðeins í óperu- og leikhúsum mátti vera ljóst að tap yrði af hverjum tónleikaum þó ævinlega væri uppselt. Það var og ráð gert fyrir því að sögn starsfmanna hennar. "Ferill Bjarkar er ekki eitthvað sem gengur yfir á hálfu ári og byggist á að græða eins mikið og hægt er á sem skemmstum tíma. Við horfum til lengri tíma þegar við skipuleggjum tónleikaferð eins og þessa," sagði Scott Rogers, framkvæmdastjóri tónleikaferðarinnar.

Ekki er ólíklegt að flestir af þeim sem sóttu tónleika Bjarkar í þessari ferð hennar hafi verið að koma í tónleikahús helgað sígildri tónlist í fyrsta sinn, en Björk hefur sagt að hún hafi ekki verið að flytja klassíska tónlist; fyrir henni hafi vakað að tengja saman klassíska tónlist sérvitringanna og dægurtónlist fjöldans, sýna fram á að ekki séu nein eðlileg mörk þar á milli.

Eftirspil Eins og getið er í upphafi hélt Björk Guðmundsdóttir út í heim í leit að tónlistarlegum þroska, ekki frægð og frama. Hún hefur oft lýst því hvernig það að vera frægur á Íslandi hafi gert henni ljóst að ekkert er spunnið í frægðina og einnig hafa gerðir hennar í gegnum tíðina sýnt að hún er ekki á höttunum eftir peningum þótt hún hafi vissulega auðgast á tónlistariðkan sinni. Á hljóðversplötunum fjórum sem hér er sagt frá hefur hún tekið stakkaskiptum á hverri plötu og náð að endurfæðast sem listamaður í hvert sinn.

Debut er ein af lykilplötum danstónlistarsögunnar og gríðarlega mikilvæg í tónlistarsögunni almennt og þó seinni plötur hennar hafi ekki verið eins byltingarkenndar er það trú mín að eftir því sem lengra líður frá útkomu Vespertine eigi menn eftir að átta sig betur á hversu mikilvæg hún er. Áhrifa hennar á eftir að gæta lengi; enn er Björk að brjóta land, enn er hún í fararbroddi þeirra sem búa til varanlega dægurtónlist.

Björk Guðmundsdóttur er tíðrætt um að hún sé rétt að byrja að tjá sig í tónlist, eigi enn svo ótalmargt ósagt. Reyndar má segja að hún sé enn að finna upp tungumálið sem hún notar til að tjá tónhugsun sína og á Greatest Hits safndiski hennar og í safnboxinu Family Tree, sem eru öðrum þræði kveikjan að þessari samantekt, gefst fágætt tækifæri á að skyggnast í heim hennar.

arnim@mbl.is