Davíð Logi Hlynsson, nemi í málmsmíði.
Davíð Logi Hlynsson, nemi í málmsmíði.
ÉG er í grunndeild málmtæknisviðs og líst vel á námið. Skemmtilegast finnst mér að læra logsuðu," segir Davíð Logi Hlynsson, sem er í Iðnskólanum í Reykjavík. Er námið eins og þú bjóst við? "Já að flestu leyti.

ÉG er í grunndeild málmtæknisviðs og líst vel á námið. Skemmtilegast finnst mér að læra logsuðu," segir Davíð Logi Hlynsson, sem er í Iðnskólanum í Reykjavík.

Er námið eins og þú bjóst við?

"Já að flestu leyti. Ég vissi að hverju ég gekk vegna þess að ég var búin að kynna mér námið á Netinu. Þó má segja að kennararnir séu allt öðruvísi en ég bjóst við. Þetta eru menn sem eru búnir að vinna í málmiðnaði í tugi ára og vita upp á hár hvað þeir eru að tala um og finnst mér það mjög jákvætt."

Af hverju valdir þú málmtæknisvið? "Vegna þess að það er ekki of mikið um bóklegar greinar í þessu fagi og það hentar mér ágætlega."

Hvernig starf getur þú hugsað þér að vinna í framtíðinni?

"Ætli ég velji ekki vélsmíði. Ég er þó ekki alveg búin að gera upp hug minn."

Hvernig finnst þér andinn í deildinni þinni?

"Mér finnst hann mjög góður. Við erum 30-40 nemendur í grunndeildinni og höfum því tækifæri til að kynnast vel."

Er einhver stelpa í deildinni?

"Það er ein stelpa sem er að læra logsuðu með okkur, en ég veit ekki á hvaða braut hún er. Það verður að segjast eins og er að hún er oftast á undan okkur með verkefnin, þannig að málmtæknisviðið er alveg eins fyrir stelpur."