Þrjú á palli, 2002: Halldór Kristinsson, Edda Þórarinsdóttir og Troels Bendtsen.
Þrjú á palli, 2002: Halldór Kristinsson, Edda Þórarinsdóttir og Troels Bendtsen.
Þrjú á palli voru tvímælalaust einn vinsælasti tónlistarhópur áttunda áratugarins og nóg var við að vera. Arnar Eggert Thoroddsen rifjaði upp gamla tíma ásamt þremenningunum.

ÞRJÚ á palli var skipað þeim Eddu Þórarinsdóttur, Troels Bendtsen og Halldóri Kristinssyni lungann af ferlinum (Helgi Einarsson starfaði með þeim '69-'70). Á plötum sínum gerðu þau texta Jónasar Árnasonar ódauðlega og sá er vandfundinn sem getur ekki raulað eina eða tvær stemmur með tríóinu. SG-hljómplötur gáfu alls út sjö plötur með tríóinu og inniheldur safnplatan nýja, sem er sú fyrsta sem út kemur með sveitinni, 24 þjóðlög við texta Jónasar og koma þau af plötunum Eitt sumar á landinu bláa ('70), Við höldum til hafs á ný ('70), Ljóð Jónasar Árnasonar við erlend þjóðlög ('71) og Tekið í blökkina ('76).

Eins og þeytispjöld

Blaðamaður sest niður með þríeykinu á heimili Eddu. Þau minnast þess að síðast léku þau saman vorið 1993, á sjötugsafmæli Jónasar Árnasonar (í bæklingi plötunnar er ártalið sagt 1998 og er um prentvillu að ræða).

Þrjú á palli var upprunalega nafnlaus söngflokkur sem var hluti af leikritinu Þið munið hann Jörund sem Leikfélag Reykjavíkur setti upp í Iðnó í febrúar 1970. Þetta leikrit, sem er eftir Jónas, varð óhemju vinsælt og gekk í heil tvö ár. Fljótlega fór fólk svo að draga sönghópinn út úr leikhúsinu til skemmtanahalds og þá kristnaði Jónas þau nafninu góða. Og boltinn fór að rúlla...

Vandað hefur verið til verka við þessarar endurútgáfu. Textar fylgja, sögulegt yfirlit og umbúnaður allur er hinn smekklegasti. Athygli vekur ennfremur mikill fjöldi sjaldséðra mynda og blaðaúrklippna. Edda segir að það sé ástæða fyrir því og dregur upp tvær forláta möppur, nokk stórar. Þarna er komin saga Þriggja á palli, í máli og myndum, en það er Troels sem haldið hefur utan um þetta af stakri kostgæfni öll þessi ár.

"Tvær af plötunum okkar hafa verið gefnar áður út á diski," tjáir Edda blaðamanni. "Fyrsta platan, Eitt sumar á landinu bláa, sem inniheldur lög úr leikritinu og svo gáfum við út jólalagaplötu sem við vorum ákaflega stolt af. Hún var gefin út á geisladiski fyrir nokkrum árum."

Troels nefnir þá tvær plötur sem liggja utan við þetta safn.

"Við tókum upp barnaplötu (sem geymir texta Jónasar) og vonandi kemur hún út næsta vor. Svo tókum við upp plötu með íslenskum þjóðlögum sem Jón Sigurðsson bassaleikari útsetti."

Troels spáir í ástæður þess að ráðist var í þessa útgáfu nú.

"Kannski fannst útgefendum, eins og mér, að það væri kominn tími til að Jónas fengi þá vottun og virðingu sem hann á skilið."

Edda rifjar í framhaldinu upp síðasta fund sinn með Jónasi, þar sem hún lofaði honum að stuðla að því að lögin sæju dagsins ljós á nýjan leik.

"Þá var verið að frumsýna dagskrá eftir þá bræður Jónas og Jón Múla. Þetta var haustið 1997 í Borgarleikhúsinu. Þeir voru báðir viðstaddir frumsýninguna og ég og Jónas spjölluðum saman eftir sýningu. Þar tók hann af mér þetta loforð."

Meðlimir tríósins eru líka nokkuð sammála um það að tónlist svipaðrar tegundar sé dálítið í tísku núna. Þjóðlagaskotin tónlist hefur óneitanleg kraumað svolítið undir síðastliðin ár, og má nefna fræga listamenn eins og Beck og Travis, sem hafa verið að vinna úr þessum grunni.

"Það mætti eiginlega flokka þetta sem lífræna tónlist," segir Troels og tekur undir það að fyrri hluta áttunda áratugarins hafi jarðvegurinn fyrir þess háttar sköpun verið vænlegur.

"Við vorum alveg hreint eins og þeytispjöld út um allt land á þessum árum," segir Edda. "Fórum líka mikið til útlanda, til Bandaríkjanna t.d. og til Skandinavíu margoft."

Aldrei nein leiðindi

Troels segir að þegar hann hugsar til baka komi ánægja fyrst og fremst upp í hugann.

"Þetta var bara gaman. Ef það voru einhverjir agnúar er maður búinn að gleyma því."

Halldór segir að það hafi ávallt farið vel á með þeim þremur.

"Það hafa aldrei verið nein leiðindi okkar á milli. Og það er mjög ánægjulegt því öll höfum við okkar skap en við höfum alltaf valið skynsamlegu leiðina í öllum málum (nú hlær Edda). Alveg satt! Og manni þykir alveg óskaplega vænt um þessa samstarfsfélaga sína. Og það er sama tilfinning þegar við hittumst, hvort sem það er á þriggja daga, þriggja mánaða eða þriggja ára fresti."

Tónlist Þriggja á palli á vel erindi við samtímann sammælast þau um.

"Sjáðu til dæmis Papana," segir Halldór.

"Öll lögin okkar eru á diskinum þeirra (Riggarobb) og þau virðast falla í góðan jarðveg, sem er alveg frábært. Við útsettum auðvitað lögin og það má ekki gleyma okkar hlut í því. Innblásturinn fengum við frá Jónasi og þökk sé honum fyrir það."

Nú fletta þau Edda og Troels upp í einni möppunni og finna þar gamlan dóm eftir Halldór Þorsteinsson (sá er rak Málaskóla Halldórs).

"Mér finnst þessi setning lýsa því vel hvernig stemningin í bandinu var," segir Edda og les upp: ""...syngur lögin ljúf og spaugileg, með glóð í geði. Framkoma þess alls er yfirlætislaus og óþvinguð"."

Og félagar hennar kinka kolli samþykkjandi.

Þökk sé þeim sem nenna að færa gamlan vínyl yfir á stafræna diska og gera með því arfleifðina aðgengilega. Þetta er þörf starfsemi, sem Lífið-er-lotterí er skínandi gott dæmi um.

arnart@mbl.is

Lífið-er-lotterí - safnplata með Þremur á palli er komin í verslanir.