SAMKOMULAG hefur náðst milli forráðamanna Raufarhafnarhrepps og eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaganna um að sveitarfélagið yrði aðstoðað eftir megni við fjárhagslega endurskipulagningu.

SAMKOMULAG hefur náðst milli forráðamanna Raufarhafnarhrepps og eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaganna um að sveitarfélagið yrði aðstoðað eftir megni við fjárhagslega endurskipulagningu. Að sögn Garðars Jónssonar, starfsmanns nefndarinnar og skrifstofustjóra sveitarstjórnarmála í félagsmálaráðuneytinu, stendur til að gera samning við sveitarfélagið um nauðsynlegar aðgerðir. Litið sé svo á að með þeim aðgerðum verði fjárhagsvandi Raufarhafnarhrepps leystur.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hefur sveitarfélagið þurft að glíma við mikla fjárhagserfiðleika, svo mikla að um tíma í haust leit út fyrir að starfsmenn fengju ekki greidd laun. Verst mun lausafjárstaðan vera. Hefur vandinn m.a. verið rakinn til fjárfestinga hreppsins í innlendum og erlendum hlutabréfum sem ekki skiluðu tilætluðum arði. Þannig tapaði það umtalsverðum fjármunum vegna þessa árið 2000. Voru hlutabréfin keypt eftir ráðgjöf frá verðbréfafyrirtæki þegar Raufarhafnarhreppur seldi hlut sinn í útgerðarfyrirtækinu Jökli fyrir um 580 milljónir króna. Á þeim tíma hvíldi 300 milljóna króna lán á sveitarsjóði sem greitt var upp.

Raunhæfar áætlanir

"Sveitarfélagið þarf að fara í gegnum endurfjármögnun skammtímaskulda þannig að þeim verði breytt í langtímaskuldir. Einnig þarf rekstrarhagræðing að eiga sér stað, sem forráðamenn hreppsins hafa sýnt fram á með raunhæfum hætti að geti gengið. Til að styrkja þetta taldi eftirlitsnefndin rétt, samkvæmt reglum hennar, að gera samning við sveitarfélagið um þær aðgerðir sem grípa þarf til," sagði Garðar. Ekki hafa nein tímamörk verið sett en Garðar sagði stjórnendur sveitarfélagsins hafa verið með í höndum raunhæfar áætlanir um rekstur þess til næstu þriggja ára.