JÓN Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka gildandi gjaldskrá vegna endurgreiðslu tannlækniskostnaðar um 20% frá og með 1. desember nk. og flýta með því boðaðri aukningu endurgreiðslna til sjúklinga.

JÓN Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka gildandi gjaldskrá vegna endurgreiðslu tannlækniskostnaðar um 20% frá og með 1. desember nk. og flýta með því boðaðri aukningu endurgreiðslna til sjúklinga. Samskiptasamningur Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands tekur gildi sama dag, en samninganefndir tannlækna og heilbrigðismálaráðherra náðu samkomulagi um nýjan samning aðila fyrir skemmstu.

Ný og gjörbreytt gjaldskrá sem var hluti af fyrrgreindum samskiptasamningi kemur svo í stað gildandi gjaldskrár um áramótin. Þegar sú gjaldskrá verður tekin upp hafa endurgreiðslur vegna tannlæknakostnaðar hækkað um 22% frá því sem var fyrir gerð samskiptasamningsins.

Nýja gjaldskráin sem tekur gildi um áramótin er gjörbreytt frá því sem áður var. Gamla gjaldskráin samanstóð af yfir 350 gjaldliðum en sú nýja aðeins af 122 gjaldliðum. Þessi skipan er nær því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum og er talin einfalda reikningsgerð og eftirlit með meðferð og þjónustu.

Aukin réttindi

1. desember tekur einnig gildi ný reglugerð um tannlækningar sem eykur umtalsvert réttindi sjúklinga til tannlæknisþjónustu, segir í frétt frá ráðuneytinu.

Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru að nú er gefin heimild til greiðslu "implanta", eða ígræðis, til lífeyrisþega, þegar um gómasmíði er að ræða, svo og til greiðslu fyrir "plantagóma", sem á "implantana" koma. Þá verður samþykkt að endurgreiða 80% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá ráðherra af alvarlegum tannskemmdum, sem leiða af skertri munnvatnsframleiðslu af völdum geislameðferðar, sjögrenssjúkdóms eða lyfja. Enn fremur verða endurgreiðslur hækkaðar í 95% af gjaldskrá ráðherra þegar um er að ræða skarð í vör eða gómi sem leiðir til tannskekkju.