Þorsteinn Þorsteinsson fæddist í Neskaupstað 19. júní 1960. Hann lést í Reykjavík 23. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þorsteinn Árnason læknir, f. 20. september 1923, d. 24. mars 1965, og Anna Jóhannsdóttir, f. 3. október 1930, d. 13. mars 1998. Systkini Þorsteins eru: 1) Elísa Björg, f. 29. maí 1952. 2) Klara, f. 19. apríl 1954, á hún þrjú börn og eitt barnabarn. 3) Árni, f. 11. október 1955, kvæntur Aðalheiði M. Sigurjónsdóttur, eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. 4) Daníel, f. 19. janúar 1963, kvæntur Hrafnhildi Vigfúsdóttur, eiga þau þrjú börn.

Þorsteinn kvæntist 7. nóvember 1981 Helen Sjöfn Steinarsdóttur, f. 28. mars 1962. Þau skildu. Sonur þeirra er Atli, f. 4. maí 1983. Var Þorsteinn um nokkurra ára skeið í sambúð með Arnþrúði Lilju Þorbjörnsdóttur, f. 19. desember 1963. Dóttir þeirra er Oddrún, f. 8. mars 1988, og sonur þeirra Gunnbjörn, f. 21. nóvember 1989.

Er Þorsteinn lést var hann kvæntur Nataliu Saenko.

Þorsteinn ólst upp í Neskaupstað en flutti uppkominn til Reykjavíkur. Þar vann hann ýmis störf og stundaði nám við m.a. Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Iðnskólann í Reykjavík, og lauk þar námi í húsgagnasmíði. Hann lauk einnig einkaflugmannsprófi. Á árinu 1995 fluttist Þorsteinn til Danmerkur og vann við iðn sína í Horsens. Þar lauk hann stúdentsprófi og hóf síðan nám í heimspeki við háskólann í Árósum. Átti hann aðeins ritgerð ólokið þegar hann lést.

Útför Þorsteins fer fram frá Hallgrímskirkju á morgun, mánudaginn 2. desember, og hefst athöfnin klukkan 10.30.

Þorsteinn mágur minn og vinur var sérstaklega yndislegur og skemmtilegur maður. Á sinn rólega, hógværa hátt var hann bæði einstaklega gamansamur og skarpskyggn. Það fór ekki mikið fyrir Þorsteini þegar mín háværa og málglaða fjölskylda var saman komin. Allir vildu hafa orðið og koma sínum bröndurum að, en ef þannig vildi til að allir þurftu að anda í einu, þá kom lítil athugasemd frá Þorsteini sem hitti svo einstaklega vel í mark, að það var næstum ekki hægt að hætta hlátrinum.

Þorsteinn var bráðgreindur maður og víðlesinn. Hann var mjög músikalskur, spilaði á bassagítar, saxófón og trompet. Þegar hann lauk stúdentsprófi í Danmörku, dúxaði hann að sjálfsögðu, lét sig ekki muna um að slá Dönunum við í dönskunni. Síðan hóf hann nám í heimspeki við háskólann í Århus og átti hann aðeins eftir að skila lokaritgerð. Þó Þorsteinn byggi erlendis síðustu árin, hélt hann alltaf góðu og nánu sambandi við börnin sín, þótti afskaplega vænt um þau og þeim um hann. Samband hans og Atla systursonar míns var mjög náið, enda þeir feðgar svo líkir á margan hátt.

Ég mun alltaf minnast þess þegar Þorsteinn heimsótti okkur fyrir tveimur árum í sumarbústað með börnum sínum, foreldrum mínum, systrum og systrabörnum. Þetta var yndislegur dagur, sól og blíða, allir glaðir og ánægðir. Það var að sjálfsögðu mikið talað og mikið hlegið. Ég hafði ekki hitt Þorstein í nokkur ár og finnst mér núna ómetanlegt að hafa fengið að njóta nærveru hans þennan dag. Nærveru segi ég vegna þess að frá Þorsteini stafaði slíkri rósemi, hlýju og velvild að öllum leið vel í návist hans. Það er okkur öllum ósegjanlega erfitt að sjá á bak okkar elskulega vini, en við verðum öll að reyna að styrkja hvert annað í sorg okkar og hugga okkur við allar hlýju minningarnar um hann.

"Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín." (Kahlil Gibran.)

Hvíl í friði.

Margrét Steinarsdóttir.

Sagt er að þeir sem guðirnir elska deyi ungir. Sé þetta rétt hefur Þorsteinn fyrrverandi mágur minn verið einn þeirra og þótt auðvelt sé að skilja ást guðanna á honum þykir manni ósegjanlega sárt að hafa ekki fengið að njóta hans lengur. Steini minn kom inn í líf okkar þegar við eldri systurnar vorum rétt um tvítugt. Mikið skelfing var gaman að lifa þá. Öll vorum við sannfærð um að lífið brosti við okkur og að við yrðum eilíf. Litlu gömlu húsin í Vesturbænum þar sem Steini og Helen bjuggu fyrstu árin voru í okkar huga svo æðislega bóhem og flott þótt varla myndu þau teljast boðlegir mannabústaðir í dag. En þá var þetta allt í lagi því við vissum að eitthvað betra og meira beið handan við hornið. Svo tók lífið við og kenndi okkur annað í sínum skóla. Leiðir skildi hjá Steina og Helen og líf hans gekk upp og niður eftir það.

Við söknuðum hans lengi og hugsuðum alltaf til hans af hlýju og virðingu. Steini var skarpgreindur, fróður og bráðskemmtilegur. Hann var einstaklega orðheppinn og kíminn með afbrigðum. Hann gaf okkur líka þennan frábæra systurson og fyrir það verðum við alltaf einstaklega þakklátar. Steini var góður vinur og umburðarlyndur, skilningsríkur og hlýr maður. Hann var sjálfum sér verstur og sá sjúkdómur sem hann var haldinn var honum grimmur og harður húsbóndi. Lengi tókst Steina að halda honum niðri og lifði þá sín bestu ár. Við eigum eftir að sakna hans ósegjanlega en verstur er söknuður barnanna hans þriggja sem hafa misst föður sinn. Megi guð styrkja þau og hjálpa í sorginni.

Steingerður Steinarsdóttir.

Margrét Steinarsdóttir.