LOÐNUVERTÍÐIN er hafin af fullum krafti út af Austfjörðum. Um 25 skip eru nú á miðunum og var mokveiði þar í gær og nokkur skip á landleið með fullfermi.

LOÐNUVERTÍÐIN er hafin af fullum krafti út af Austfjörðum. Um 25 skip eru nú á miðunum og var mokveiði þar í gær og nokkur skip á landleið með fullfermi.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt úr höfn í Reykjavík í gær til að mæla stærð loðnustofnsins, sjávarhita og seltu. Leiðangursstjórinn, Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur, segir að rannsóknaleiðangurinn muni standa yfir í allt að þrjár vikur. Hann segir menn hafa séð mikið af loðnu og útlitið sé bjart. "Við förum norður fyrir landið og byrjum væntanlega á því að reyna að fá yfirlit yfir líklegustu loðnusvæðin og þar með talin veiðisvæðin austan við landið. Veðurspáin er mjög góð, nánast út vikuna, og þetta er mjög góð byrjun á loðnuveiðinni," sagði Hjálmar.

"Þetta lofar mjög góðu. Þeir sjá loðnu mjög víða og veðrið getur ekki verið betra á þessum árstíma," sagði Freysteinn Bjarnason, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, í samtali við Morgunblaðið í gær. Beitir NK varð fyrstur loðnubáta til að landa loðnu eftir áramótin. Hann landaði 1100 tonnum í Neskaupstað og hélt rakleiðis á veiðar á ný.

Eftir loðnuvertíðina í fyrra var útflutningsverðmæti loðnumjöls og -lýsis 16,3 milljarðar króna og hefur aldrei verið meira. Loðnuvertíðin í fyrra var ein sú besta hérlendis frá upphafi og fóru saman góð aflabrögð og hagstæðar markaðsaðstæður. Frá áramótum 2002 og til loka vertíðarinnar í lok mars náðist metafli á land, 890 þúsund tonn.