JÓHANN Kjartansson, formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir að það sé ekki kjörnefndar að taka fyrir kærur vegna prófkjörsins fyrir áramót heldur sé það hlutverk stjórnar kjördæmisráðsins.

JÓHANN Kjartansson, formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir að það sé ekki kjörnefndar að taka fyrir kærur vegna prófkjörsins fyrir áramót heldur sé það hlutverk stjórnar kjördæmisráðsins. Þórólfur Halldórsson, formaður stjórnarinnar, segir að niðurstöður prófkjörsins standi en kærur verði ræddar á næsta stjórnarfundi.

Guðrún Stella Gissurardóttir sagði sig úr kjörnefndinni eftir fund nefndarinnar á sunnudag, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær, vegna þess að nefndin vildi ekki taka til umfjöllunar kærur frá Vilhjálmi Egilssyni, alþingismanni, og stuðningsmönnum hans. Steininn hefði tekið út þegar formaður nefndarinnar hefði sagt að hann hefði ekki áhuga á að lesa greinargerð Vilhjálms.

"Ég hef ekki séð þessa greinargerð," segir Jóhann, "og hún hefur ekkert verið til umræðu í kjörnefnd enda kjörnefnd ekki vettvangur fyrir svona hluti. Kærur eru eingöngu teknar fyrir í stjórn kjördæmisráðsins og þær eru ekki á könnu kjörnefndar, en hún vinnur að því að stilla upp lista."

Prófkjörið fór fram 9. nóvember og hlutu alþingismennirnir Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson og Guðjón Guðmundsson kosningu í fjögur efstu sætin. Vilhjálmur Egilsson varð í fimmta sæti, en fyrir liggur að hann verður ekki á listanum. Að sögn Jóhanns er stefnt að því að ganga frá niðurröðun á listann um næstu helgi en næsti stjórnarfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi verður síðar í þessari viku.

Þórólfur Halldórsson segir að þá verði erindi Vilhjálms tekið fyrir eins og önnur erindi, en eins og fram hafi komið áður, m.a. í Morgunblaðinu 17. desember, standi niðurstöður prófkjörsins, og bréf Vilhjáms breyti engu þar um.