ERFIÐASTA staða sem stjórnmálamaður lendir í er að vera staðinn að ósannsögli. Oftar en ekki tekst viðkomandi stjórnmálamanni að snúa sig út úr þeim aðstæðum. Kjósendur kippa sér sjaldan upp við lygar stjórnmálamanna því þeir hafa heyrt þær svo oft.

ERFIÐASTA staða sem stjórnmálamaður lendir í er að vera staðinn að ósannsögli.

Oftar en ekki tekst viðkomandi stjórnmálamanni að snúa sig út úr þeim aðstæðum. Kjósendur kippa sér sjaldan upp við lygar stjórnmálamanna því þeir hafa heyrt þær svo oft. Stjórnmálamenn geta oft ekki sagt sannleikann eða það hreinlega hentar þeim ekki. Versta staða fyrir stjórnmálamann er að lygar hans séu spilaðar af bandi og vitnað í það sem hann sagði á sínum tíma.

Skammt er að minnast þess sem Helgi nokkur Hjörvar sagði í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 skömmu fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998. Þar þvertók Helgi fyrir það að R-listinn myndi hækka álögur og gjöld á borgarbúa. Vissulega gleðifréttir fyrir kjósendur ef staðið hefði verið við loforðið. Skömmu eftir kosningarnar 1998, þegar R-listinn hafði unnið sigur, hækkaði hann holræsagjaldið og ýmis smágjöld sem kom einkar illa við eldri borgarbúa.

Svipað er að gerast nú í tilfelli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Bæði fyrir og eftir borgarstjórnarkosningarnar sl. vor var Ingibjörg þráspurð af fréttamönnum um það hvort hún ætlaði í þingframboð að ári. Sjaldan hefur heyrst staðfastari neitun frá nokkrum stjórnmálamanni en einmitt frá borgarstjóra við það tilefni. Ekki þurftu kjósendur R-listans að bíða lengi eftir því að Ingibjörg færi að hugsa um að svíkja loforð sitt. Í september kom sú hugmynd upp að Ingibjörg færi í framboð fyrir Samfylkinguna. Góðvinir borgarstjóra gerðu könnun sem átti að sýna hversu mikið fylgi Samfylkingin myndi fá með borgarstjóra innanborðs. Eitthvað fór þessi hugmynd illa í samstarfsaðila borgarstjóra og hún þvertók aftur fyrir það að fara í þingframboð. Skósveinn hennar, Dagur B. Eggertsson, steig fram á ritvöllinn í Mbl. 7. september sl. og taldi það hluta af pólitískum styrkleika borgarstjóra hversu trúverðug hún væri! Ætli kjósendur telji meintan trúverðugleik borgarstjóra nýtast vel í embætti forsætisráðherra landsins? Það er aldrei að vita.

STEINÞÓR JÓNSSON,

Hléskógum 18, 109 Reykjavík.

Steinþór Jónsson skrifar: