ÆTLA verður að al-Qaeda hryðjuverkasamtökin og hópar þeim tengdir muni í auknum mæli beita sjálfsmorðsárásum á nýja árinu. Þetta er mat þekkts sérfræðings um starfsemi hryðjuverkasamtaka og höfundar bókar um al-Qaeda.

ÆTLA verður að al-Qaeda hryðjuverkasamtökin og hópar þeim tengdir muni í auknum mæli beita sjálfsmorðsárásum á nýja árinu. Þetta er mat þekkts sérfræðings um starfsemi hryðjuverkasamtaka og höfundar bókar um al-Qaeda.

"Al-Qaeda-samtökin munu hvergi hvika frá áformum sínum en geta þeirra til að standa fyrir hryðjuverkaárásum hefur minnkað," sagði Rohan Gunaratna í Jakarta í Indónesíu. Gunaratna er höfundur bókar sem nefnist á ensku "Inside Al Qaeda: A Global Network of Terror" og þekktur sérfræðingur um hryðjuverkasamtök. Hann er búsettur í Singapore en fæddur á Sri Lanka.

Gunaratna sagði ljóst að breyttar aðstæður yrðu til þess að al-Qaeda myndu einkum beina sjónum sínum að skotmörkum sem bæði auðvelt og ódýrt væri að ráðast gegn. Þetta þýddi að aukin áhersla yrði lögð á að ráðast gegn þjóðum vinveittum Bandaríkjunum þó svo að samtökin myndu eftir sem áður líta á Bandaríkjamenn sem höfuðóvininn. Hið sama ætti við um stjórnvöld í íslömskum ríkjum sem gengið hefðu til liðs við Bandaríkjamenn í "hryðjuverkastríðinu", til að mynda yfirvöld í Afganistan og Pakistan.

Kvaðst Gunaratna gera ráð fyrir að beinum tilræðum myndi fjölga en ætla yrði að sjálfsmorðsárásum yrði einkum beitt. Líklegt væri að hryðjuverkamenn myndu einkum láta til skarar skríða í borgum auk þess sem árásir yrðu gerðar á skotmörk sem hefðu efnahagslega þýðingu. Benti sérfræðingurinn á að al-Qaeda og hópar þeim tengdir hefðu þegar staðið fyrir árásum gegn óbreyttum borgurum víða um heim. Þýskir ferðamenn hefðu verið myrtir í Túnis, franskir sérfræðingar í Pakistan, Ástralir og Vesturlandabúar á Balí í Indónesíu og Ísraelar í Kenýa.

Rúmlega 190 fórust í sprengjutilræðinu á Balí. Fullvíst þykir að þar hafi verið að verki samtökin Jemaah Islamiyah, sem tengjast al-Qaeda-hryðjuverkanetinu.

Gunaratna sagði að al-Qaeda-samtök hryðjuverkaforingjans Osama bin Ladens myndu neyðast til að draga enn frekar úr miðstýringu sinni sökum þess hnattræna stríðs sem Bandaríkjastjórn hefur blásið til gegn hryðjuverkaógninni. Samtökin yrðu því í auknum mæli að treysta á svæðisbundin samtök íslamskra hryðjuverkamanna. Líklegt væri að al-Qaeda myndi freista þess að ráðast af fullum þunga gegn vestrænum skotmörkum sem hefðu táknrænt gildi en frumstæðari aðferðum yrði beitt í hryðjuverkum sem beindust gegn óbreyttum borgurum.

Gunaratna vék að því að hryðjuverkasamtök gætu ekki lengur þjálfað liðsmenn sína í Afganistan líkt og gilt hefði fram til 11. september 2001. Því væri líklegt að hryðjuverkamenn sem hlotið hefðu þjálfun annars staðar, t.a.m. í Tétsníu í Rússlandi, myndu láta til sín taka á Vesturlöndum.

Jakarta. AFP.