Enn magnast vítahringur ofbeldis fyrir botni Miðjarðarhafs. Á sunnudag gerðu tveir menn sjálfsmorðsárásir á fjölförnum stað í borginni Tel Aviv í Ísrael með þeim afleiðingum að 22 menn létu lífið.

Enn magnast vítahringur ofbeldis fyrir botni Miðjarðarhafs. Á sunnudag gerðu tveir menn sjálfsmorðsárásir á fjölförnum stað í borginni Tel Aviv í Ísrael með þeim afleiðingum að 22 menn létu lífið. Ísraelar svöruðu samstundis fyrir sig með því að skjóta sprengjum úr þyrlum á Gaza-svæðinu, en dagana fyrir hryðjuverkið höfðu nokkrir Palestínumenn, þar á meðal unglingar, fallið fyrir hendi ísraelskra hermanna auk þess sem nokkrir tugir húsa voru jafnaðir við jörðu í Nablus. Ísraelar létu ekki þar við sitja í gær, heldur ákváðu einnig að banna palestínskri sendisveit að fara á ráðstefnu í London um umbætur meðal palestínskra stjórnvalda á hernámssvæðunum. Einnig var ákveðið að loka þremur íslömskum háskólum og banna fyrirhugaðan fund PLO um stjórnarskrárbreytingar. Heimastjórn Palestínumanna mótmælti þegar en ísraelskir fréttaskýrendur fullyrtu hins vegar að viðbrögð ísraelskra stjórnvalda hefðu verið mild. Hélt dagblaðið Haaretz því fram að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, væri tregur til að grípa til harkalegri aðgerða á sama tíma og Bandaríkjamenn væru að undirbúa hugsanleg átök við Írak.

Árásin á sunnudag var sú fyrsta í Ísrael síðan í nóvember og sú mannskæðasta síðan 29 féllu í árás í Netanya í mars á liðnu ári. Á rúmum tveimur árum hafa átökin milli Ísraela og Palestínumanna kostað þrjú þúsund manns lífið og áfram er haldið inn blindgötuna. Til marks um það hve mikið hefur breyst í samskiptum Ísraela og Palestínumanna á stuttum tíma má benda á að allt árið 1999 féllu aðeins tveir óbreyttir ísraelskir borgarar í árásum palestínskra hryðjuverkamanna og hafði mannfallið þá ekki verið minna síðan 1987. Á þeim tíma ríkti nokkur bjartsýni meðal Palestínumanna um að friðarferlið, sem kennt hefur verið við Ósló, myndi verða til þess að miðla málum, en þær vonir fóru fyrir lítið. Stjórn Ariels Sharons hefur lítið haggast í málum Palestínumanna og er ekki líkleg til að gera það á næstu vikum, en aðeins þrjár vikur eru til kosninga.

Moshe Katsav, forseti Ísraels, hefur hins vegar gagnrýnt stjórnmálaflokkana í Ísrael harðlega. Athygli vakti þegar hann skoraði í liðinni viku á flokkana að endurskoða stefnu sína og taka upp nýjar aðferðir til að binda enda á átökin við Palestínumenn.

"Ég sé enga lausn á hryðjuverkavandamálinu í stefnuskrám flokkanna. Við þurfum nýja áætlun," sagði forsetinn. "Það er kominn tími til að athuga hvort Ísraelar séu á réttri leið." Katsav lagði ekki fram neinar lausnir á vandanum, en hann á kollgátuna þegar hann bendir á vandann. Það mun aldrei leiða til friðsamlegrar sambúðar Ísraela og Palestínumanna að halda áfram á sömu braut. Um leið er það staðreynd að einir munu þeir ekki ráða fram úr vandanum. Í raun hefur aðeins einn aðili bolmagn til þess að knýja Ísraela og Palestínumenn til að snúa við blaðinu og það eru Bandaríkjamenn. Þeir einir hafa þau ítök og vald, sem þarf til að stilla til friðar. Milli Ísraela og Palestínumanna ríkir ekkert traust. Ísraelar skáka í skjóli hernaðarmáttar, Palestínumenn berjast aðþrengdir og niðurlægðir. Ljóst er að seint mun komast á sátt milli núverandi leiðtoga þeirra, Sharons og Yassers Arafats, til þess eru þeir of litaðir af fortíðinni. En valdaskipti myndu ein og sér tæplega skila sáttum og hin nýja áætlun, sem forseti Ísraels lýsir eftir, myndi litlu skila nema Bandaríkjamenn skærust í leikinn. Það yrði ekki auðvelt, en eftir hálfrar aldar stuðning við Ísrael er kominn tími til að vinna markvisst að því að binda enda á þrautagöngu Palestínumanna án þess að láta blindast af því sem á undan er gengið.