"Vöknum af vondum draumi fyrirhyggjuleysis. Tökum afstöðu gegn ofbeldisdýrkuninni í þjóðfélaginu og mótmælum með framúrskarandi dómgreind að vopni."

TIL hamingju með viðurkenninguna Guðrún Gunnarsdóttir fréttakona! Til hamingju með "framúrskarandi dómgreind". Sumir af þínum kollegum telja að vísu að þú hafir framið glæp með því að neita að taka viðtal við klámstjörnuna sem hér reið húsum fjölmiðla á dögunum. Fréttamaður nokkur sagði viðurkenningunni stríð á hendur hér í blaðinu hinn 14. desember sl. Hann telur hana vera einn allsherjar misskilning og vitleysu, sem hafi náð áður óþekktum stærðum. Hafðu nú ekki áhyggjur af því Guðrún. Nú vildu þeir allir Lilju kveðið hafa. Fréttamenn fá svo sjaldan verðlaun. Ég verð nú reyndar að taka undir þessi orð fréttamannsins en með öðrum formerkjum. Athyglin, sem fjölmiðlar sýndu Sódómustjörnunni frægu, hefur náð áður óþekktum stærðum að mínu mati. Fulltrúi klámiðnaðarins fékk höfðinglegar móttökur hjá fjölmiðlum þegar hann steig fæti á íslenska grundu. Áðurnefnd viðurkenning er nokkuð merkileg. Hún sýnir okkur að til er fólk sem ýtir við okkur í svefndrunganum. Vekur okkur af feigðardraumi. Til er fólk sem þorir að láta skoðun sína í ljós.

Umræddur fréttamaður gerir hlutverk sitt og sinna félaga að umtalsefni í greininni. Hann ræðir um það hvað sé fréttaefni og hvað ekki. Starfs síns vegna verði hann að taka viðtal við hvers kyns rumpulýð og ógæfufólk, eins og hann kemst að orði. Ekki skal dregið úr mikilvægum störfum fréttamanna en öllum störfum fylgir ábyrgð. Mismikil eins og gengur. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð og þeir hafa mikil völd. Þannig veit öll þjóðin það á örskammri stundu ef einn stjórnmálamaður kaupir sér dúk og steina, fyrir annarra manna peninga. Maðurinn á sér ekki viðreisnar von og er dæmdur fyrir lífstíð. Þetta er það eina sem fjölmiðlar muna af afrekalista hans en það er nú önnur saga.

Umfjöllunin um klámstjörnuna var nú ekki beint á neikvæðum nótum heldur birtist hún sem einhvers konar óskilgreint skemmtiefni. Fjölmiðlar eru þarna að senda ákveðin skilaboð. Skilaboð sem mjög auðvelt er að mistúlka. Ungt fólk er áhrifagjarnt og meðal unglinga eru fyrirmyndir ákaflega mikilvægar. Skilaboðin hér eru á þá leið að klám sé nú eitthvað sem ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af. Fréttamenn og fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir gagnrýni. Það hefur hins vegar sýnt sig að þeir eru ákaflega viðkvæmir fyrir henni. Í grein fréttamannsins segir, að ekki sé verið að gera lítið úr þeirri viðleitni að veita viðurkenningar fyrir þjóðþrifamál. Ekki veit ég hvað fréttamaðurinn telur vera þjóðþrifamál. Barátta gegn klámiðnaðinum, sem stöðugt sækir í sig veðrið hér á landi, er það greinilega ekki. Augljóst er hins vegar af skrifunum að hann gerir lítið úr því ágæta fólki sem tekur ekki öllu því er fjölmiðlar matreiða steinþegjandi og hljóðalaust.

Ron Jeremy, sá ólánsami maður, er fulltrúi fyrir klámiðnaðinn, það er óumdeilt. Ég veit ekki betur en sá iðnaður sé bannaður með lögum hérlendis. Það eru einnig fíkniefni. Ekki hef ég orðið var við að fíkniefnasölum hafi verið tekið opnum örmum, ekki heldur af fjölmiðlum.

Vöknum af vondum draumi fyrirhyggjuleysis. Tökum afstöðu gegn ofbeldisdýrkuninni í þjóðfélaginu og mótmælum með framúrskarandi dómgreind að vopni.

Eftir Birgi Þórarinsson

Höfundur er BA í guðfræði og situr í samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga á Suðurnesjum.