"Hvort sem við erum kven- eða karlkyns, ófötluð eða fötluð, verðum við að takast á við ákveðin lífsspursmál."

ÞRÁTT fyrir aukna þekkingu á eðli geðsjúkdóma, betri geðlyf og auðveldara aðgengi að læknisþjónustu eru geðsjúkdómar og áhrif þeirra ekki á undanhaldi. Af tíu helstu sjúkdómum sem valda varanlegri örorku flokkast fimm sem geðsjúkdómar. Ekki hefur það heldur hjálpað í hagsmunabaráttu geðsjúkra að málefni þeirra eru oft sér á báti, líklega vegna fordóma og að sjaldan er reynt að finna sameiginlegan flöt með öðrum sjúkdómum. Sérfræðiþekking geðheilbrigðisstarfsfólks hefur einnig einangrast inni á stofnunum, og tengist fyrst og fremst sérfræðikunnáttu á gangi og eðli geðsjúkdóma. Byggja þarf upp breiðari þekkingargrunn; þekkingu sem byggist á geðrækt, þ.e.a.s. styrkleika og aðlögunarmöguleikum, ekki eingöngu í einstaklingnum sjálfum heldur líka í umhverfi hans.

Rannsóknir síðustu ára hafa leitt í ljós áhrif þunglyndis á líkamlegt heilbrigði. Gera verður því ráð fyrir þunglyndi sem áhættuþætti, á sama hátt og reykingum, kyrrsetu, háum blóðþrýstingi, áfengisneyslu og óhollri fæðu.

Hvort sem við erum kven- eða karlkyns, ófötluð eða fötluð, verðum við að takast á við ákveðin lífsspursmál: Hvernig á ég að framfleyta mér, á hvern hátt get ég orðið sjálfstæður einstaklingur, hvað get ég lagt af mörkum til samfélagsins og hvernig ætla ég að verja tíma mínum? Í skarkala nútímans er mikilvægt að staldra við og athuga í hvað tíminn fer. Ver ég honum í það sem ég trúi á og er þess virði að stunda klukkutímunum, dögum, vikum, mánuðum og árum saman?

Heilbrigði er að geta náð markmiðum sínum þrátt fyrir fötlun. Til þess að svo megi verða gegna umhverfisþættir lykilhlutverki. Hversu vinveitt er íslenskt umhverfi fólki sem sker sig úr á einhvern hátt, í hegðun, útliti, tungumáli, aldri, kyni o.s.frv. Taka má geðfatlaðan einstakling sem dæmi: Hve mikilli orku og fjármunum er varið í að finna út hvað skiptir hann máli, hvað honum finnst þess virði að gera, hvaða hæfileikum hann býr yfir, miðað við þá fjármuni sem fara í að "lækna" það sem hingað til hefur talist ólæknandi?

Geðsjúklingar eru notendur geðheilbrigðiskerfisins, þeir skapa störf, en hvað hafa þeir að segja um þjónustuna, hvaða völd, virðingu og áhrif hafa þeir? Kannski vilja geðfatlaðir verja fjármunum á annan hátt en gert er. Ef til vill vilja þeir fá frekari aðstoð til að geta lifað lífinu utan stofnana. Kannski þæðu þeir aðstoð við að sækja sér menntun eða öðlast tækifæri til að eignast heimili og vini, fá vinnu við hæfi eða njóta samvista við aðra en geðsjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk. Hvaða val hafa geðsjúkir þegar þjónustan stenst ekki væntingar? Hafa íslenskir geðsjúklingar eitthvert val varðandi þjónustu eða endurhæfingu?

Heilsugæslan og sjúkrahúsin eru mikilvæg í heilbrigðisþjónustunni, en til að dæmið gangi upp fyrir þá sem berjast við langtímaveikindi, er sú þjónusta aðeins byrjunin. Hin raunverulega aðstoð fer fram í eiginlegu umhverfi manneskjunnar og þar af leiðandi getur sú vinna aldrei farið fram inni á stofnunum, skrifstofum sérfræðinga né í formi efnasambanda.

Það hlýtur mörgum að finnast forvitnilegt að komast að ástæðu þess að sumir geta notið sín þrátt fyrir "slæm" gen, lélegan aðbúnað, áföll og fatlanir. Fjöldinn allur af fólki telst ólæknanlegur frá læknisfræðilegu sjónarhorni, en nær samt að njóta lífsins og vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Í þessum einstaklingum býr þekking sem þarf að virkja á skipulagðan hátt. Þannig má deila völdum, áhrifum og fjármagni og setja mark á stefnumótun. Heilbrigðiskerfið þarf svo sannarlega á nýrri nálgun að halda, því hin hefðbundna virðist aðeins kalla á meiri mannafla, fleiri stofnanir og meiri kostnað.

Á vegum Geðhjálpar er starfandi hópur sem kallar sig "Notendahópurinn". Þessi hópur vill nýta þá þekkingu og krafta sem geðsjúkir búa yfir. Einstaklingarnir innan þessa hóps vilja ekki aðeins vera þiggjendur og bíða endalaust eftir að aðrir finni lausnirnar. Þeir vilja sjálfir leggja eitthvað af mörkum og taka aukna ábyrgð á eigin málum og hafa áhrif á þróun geðheilbrigðismála. Þeir vita að í þeirra röðum er hæfileikafólk sem gæti þess vegna orðið stjórnmálamenn, rannsakendur eða stefnumótunaraðilar væri rétt að þeim búið. Með þátttöku í notendahópnum opnast leið fyrir fjölda fólks.

Árið 2003 er alþjóðlegt ár fatlaðra og hvet ég valdhafa og aðra sem áhuga hafa á málefninu og búa yfir þekkingu á einhverju því sviði sem nýst gæti hópnum að veita honum athygli og brautargengi. Stuðning við slíkan hóp er hægt að veita með ýmsu móti, bein fjárframlög eru aðeins ein leið. Það er ekki síður mikilvægt að miðla þekkingu, sýna áhuga, gefa svolítið af tíma sínum og taka virkan þátt í afmörkuðum verkefnum. Þannig græðum við öll!!

Eftir Elínu Ebbu Ásmundsdóttur

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LHS og lektor við HA.