15. febrúar 2003 | Viðskiptafréttir | 371 orð | 1 mynd

Betri skilyrði fyrirtækja en í nágrannalöndum

Haukur Þór Hauksson lét af störfum sem formaður Samtaka verslunarinnar-Félags íslenskra stórkaupmanna á aðalfundi samtakanna í gær.
Haukur Þór Hauksson lét af störfum sem formaður Samtaka verslunarinnar-Félags íslenskra stórkaupmanna á aðalfundi samtakanna í gær.
HAUKUR Þór Hauksson, fráfarandi formaður Samtaka verslunarinnar, ávarpaði aðalfund samtakanna í fjórða og síðasta sinn á Grand hóteli í gær.
HAUKUR Þór Hauksson, fráfarandi formaður Samtaka verslunarinnar, ávarpaði aðalfund samtakanna í fjórða og síðasta sinn á Grand hóteli í gær. Hann sagði að sér væri efst í huga "sú mikla bót sem náðst hefur í rekstrarskilyrðum fyrirtækjanna í landinu á síðustu árum. Fyrirtækin búa að mörgu leyti við betri skilyrði en almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar, ekki síst í skattamálum."

Þá sagði Haukur að árangur núverandi ríkisstjórnar í einkavæðingu ríkisfyrirtækja væri sérstakt fagnaðarefni. "Það hefur verið ofarlega á stefnuskrá þessara samtaka, allt frá því er þau voru stofnuð árið 1928, að berjast gegn afskiptum hins opinbera af atvinnulífinu," sagði hann í ræðu sinni.

Hugsjónir Jóns forseta gleymdar

Haukur sagði, að Íslendingar hefðu furðu fljótt gleymt hugsjónum Jóns Sigurðssonar, um mikilvægi frjálsrar verslunar. Tekið hafi verið upp kerfi opinberra hafta og skammtana, strax í lok annars áratugs tuttugustu aldar. "Í dag eru ekki liðin nema tæp 60 ár frá fullu sjálfstæði Íslands, en svo furðu fljótt er risin ný stétt manna sem telja að Íslendingar eigi enga valkosti aðra en að ganga í Evrópusambandið og afsala sér sjálfstæði þjóðarinnar."

Annar framsögumaður aðalfundarins, Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar, hélt erindi sem hann kallaði "Breytingar í kjölfar einkavæðingar ríkisfyrirtækja". Hann rakti röksemdir fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja og sagði að fyrirtækjum hefði vegnað vel frá einkavæðingu. Hann sagði að einn helsti kostur einkavæðingar væri að opinberum afskiptum linnti að mestu, en það hefði þó ekki gerst að öllu leyti hér á landi. Stjórnmálamenn yrðu að hafa varann á í yfirlýsingum um fyrirtæki, því þær gætu skaðað hagsmuni þeirra erlendis.

Þjóðir ríkar vegna frjálsra viðskipta

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í ræðu sinni að greinileg fylgni væri með frelsi í atvinnulífi og betri lífskjörum almennings. Þótt atvinnulífið væri skipulegt, þyrfti það ekki að vera skipulagt. Hann benti á að þjóðir væru ríkar vegna þess að þær nýttu sér verkaskiptingu og stunduðu frjáls viðskipti.

Hannes sagði að atvinnufrelsi ríkti nú á ný á Íslandi, eftir áratuga haftabúskap og verðbólguár. Ýmsir sjóðir tengdir atvinnulífinu hefðu verið lagðir niður, stöðugt verðlag ríkti ásamt festu í ríkisfjármálum og einkavæðing hefði sitt að segja. Framtíð landsins væri björt. Hann sagði að Íslendingar ættu gjöful fiskimið, vatnsafl og jarðvarma, lega landsins væri heppileg og þjóðin vel menntuð. Á Íslandi væru því góð skilyrði fyrir alþjóðlega fjármálamiðstöð.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.