15. febrúar 2003 | Leiðarar | 893 orð

Skattskil Jóns Ólafssonar

Frásögn Morgunblaðsins í gær af rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum Jóns Ólafssonar og fyrirtækis hans, Jóns Ólafssonar & Co. sf., hefur vakið mikla athygli. Þetta er umfangsmesta mál sinnar tegundar sem komið hefur upp hér á landi.
Frásögn Morgunblaðsins í gær af rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum Jóns Ólafssonar og fyrirtækis hans, Jóns Ólafssonar & Co. sf., hefur vakið mikla athygli. Þetta er umfangsmesta mál sinnar tegundar sem komið hefur upp hér á landi. Það ber að virða við Jón Ólafsson, að hann hefur haft frumkvæði að því að birta þau gögn, sem Morgunblaðið sagði frá í gær. Í því felst ákveðinn kjarkur.

Enginn er sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. Það er dómstóla að úrskurða um slíkt og sökum umfangs málsins má gera ráð fyrir að nokkur tími líði þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þetta er grundvallaratriði, sem halda ber í heiðri í umræðum um þetta mál.

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hér er um grafalvarlegt mál að ræða.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra, sem hófst fyrir ári, nær til áranna 1996-2001 hvað Jón Ólafsson varðar og árin 1998 og 1999 fyrir Jón Ólafsson & Co.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að vanframtaldar tekjur, eignir, söluhagnaður og hlunnindi á því tímabili sem rannsóknin náði til nemi alls 3,2 milljörðum króna.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Jóns Ólafssonar, hefur skilað inn andmælum þar sem niðurstöðu skattrannsóknarstjóra er harðlega mótmælt.

Þegar gögn málsins eru skoðuð gerist sú spurning áleitin hvernig mál sem þetta geti komið upp á Íslandi. Hvernig getur það gerst að einstaklingur hafi hugsanlega komið milljarðatekjum undan skatti?

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra segir m.a. "Inuit Enterprises Ltd. er skráð fyrir öllum hagsmunum tengdum Norðurljósum samskiptafélagi og fjárfestingum tengdum því. Í gegnum það félag rennur ennfremur allt endurgjald fyrir störf Jóns. Þetta félag er skráð fyrir eignarhlutum í NLC Holding SA, sem er eigandi Norðurljósa samskiptafélags hf., Tal hf., Tal Holding SA, Inn hf., og Krókháls ehf."

Síðar í skýrslunni segir: "Þannig hefur Jón Ólafsson Friðgeirsson selt ákveðnar eignir, m.a. eignarhluta sína í Skífunni ehf. og Spori ehf. úr landi til Inuit Enterprises Ltd. á nafnverði, sem síðan selur eignirnar áfram til Norðurljósa samskiptafélags hf., sem einnig er í eigu Inuit Enterprises Ltd. að stórum hluta, á markaðsvirði, sem er margfalt nafnvirði viðkomandi eignarhluta. Söluverð eignarhlutanna úr landi er þannig einungis lítið brot af söluverðinu inn í landið aftur."

Inuit Enterprises, fyrirtæki í eigu Jóns Ólafssonar, er á Brezku Jómfrúareyjum. Það er alþekkt í hinum vestræna heimi og raunar víðar, að umsvifamiklir fjármálamenn reyni að koma eignum sínum fyrir í ríkjum, þar sem fullkomin leynd ríkir um fjármálaumsvif og skattgreiðslur eru litlar sem engar. Það er líka staðreynd, að skattayfirvöld í Bandaríkjunum og víðar leggja mikla áherzlu á að koma í veg fyrir slíkt. Viðurlög eru mjög þung. Nokkur þekkt dæmi eru um viðureign bandarískra skattayfirvalda við slíka menn. Er þess skemmst að minnast að á síðasta degi forsetatíðar sinnar náðaði Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseti, heimskunnan fjármálajöfur, Marc Rich að nafni, sem verið hafði landflótta í Sviss, þar sem hann starfaði í allmörg ár. Hann var sakaður um stórfelld skattsvik en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir bandarískra stjórnvalda fékkst hann ekki framseldur. Fyrrverandi eiginkona hans hafði lagt grundvöll að náðun hans með umtalsverðum fjárframlögum í kosningasjóði demókrata. Náðun Marc Rich varð mikill álitshnekkir fyrir Clinton, eins og menn muna.

Það á eftir að koma í ljós við frekari málsmeðferð hvort um er að ræða markvissa viðleitni af þessu tagi í því tilviki, sem hér um ræðir eða einfaldlega að skattskylda Jóns Ólafssonar og fyrirtækja hans sé annars staðar vegna brottflutnings hans úr landi. Hitt fer ekki á milli mála, að skattayfirvöld hér og aðrar eftirlitsstofnanir, eftir því, sem við á, eiga engan annan kost en fylgja þessari rannsókn fast eftir. Og jafnframt munu vakna spurningar um, hvort um einsdæmi sé að ræða eða hvort fleiri dæmi séu um slíkar ráðstafanir.

Í þessu samhengi sýnist augljóst, að ríkisstjórn og Alþingi hljóta að skoða vandlega þá löggjöf, sem nú er í gildi á þessum sviðum og hvort þörf er á breytingum til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að flytja fjármuni úr landi án þess að eðlilegir skattar séu greiddir af þeim. Sú skoðun þarf að hefjast nú þegar af þessu gefna tilefni, þótt niðurstaða skattamála Jóns Ólafssonar liggi ekki fyrir.

Frelsi í viðskiptum hefur verið aukið til muna á síðustu árum sem er fagnaðarefni. Fjármagnsflutningar milli ríkja eru frjálsir og engum dettur lengur í hug að æskilegt sé að taka slík höft upp á nýjan leik. Auknu frelsi verður hins vegar einnig að fylgja ábyrgð og laga verður lög og reglur á öðrum sviðum að þessu umhverfi.

Ábyrgð og skyldur endurskoðenda eru miklar. Ganga verður út frá því sem vísu, að endurskoðendur telji það sitt hlutverk að tryggja heilbrigð og eðlileg reikningsskil en ekki að aðstoða menn við að komast í kringum lögin og markmið þeirra.

Um síðustu helgi flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, ræðu í Borgarnesi, sem skilja mátti á þann veg, að hún teldi að flokkspólitísk sjónarmið gætu hafa ráðið því, að rannsókn hófst á skattskilum Jóns Ólafssonar, þótt hún nefndi hann ekki á nafn heldur Norðurljós, sem hann er aðaleigandi að. Þetta var mjög alvarleg ásökun, sem beindist að stjórnmálamönnum en í henni fólst líka ásökun um, að þeir embættismenn, sem stjórna þeim stofnunum, sem hlut eiga að máli hefðu gerst sekir um brot á hegningarlögum.

Í Morgunblaðinu í dag lýsir Ingibjörg Sólrún því yfir, að augljóslega hafi verið þörf á rannsókn á skattskilum Jóns Ólafssonar. Þeirri yfirlýsingu hennar ber að fagna og væntanlega verður hún til þess, að þær raddir heyrist ekki lengur að eðlileg eftirlitsstörf eftirlitsstofnana, sem settar hafa verið á fót skv. ákvörðunum Alþingis, séu stunduð af annarlegum hvötum.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.