SÍTT hár, ennisbönd og blómamynstur réðu ríkjum í íþróttahúsinu í Víðistaðaskóla á fimmtudagskvöld þegar um 600 ungmenni úr Hafnarfirði komu þar saman til dansleiks.
SÍTT hár, ennisbönd og blómamynstur réðu ríkjum í íþróttahúsinu í Víðistaðaskóla á fimmtudagskvöld þegar um 600 ungmenni úr Hafnarfirði komu þar saman til dansleiks. Þema kvöldsins var hippatíminn og létu krakkarnir ekki sitt eftir liggja við að skapa rétta andrúmsloftið á ballinu með þeirri undantekningu þó að vímuefni voru látin lönd og leið enda meðferð þeirra óheimil á dansleiknum.

Það vantaði þó ekki fjörið því hljómsveitirnar Írafár og Sign léku fyrir dansi, sigurvegarar úr karaókíkeppni og hæfileikakeppni Hafnarfjarðar komu fram og hver skóli var með heimatilbúin skemmtiatriði.

Ballið var liður í grunnskólahátíðinni í Hafnarfirði en hún var haldin fyrir nemendur á unglingastigi grunnskólanna þennan dag.