De Niro í ham sem Jake La Motta að buffa óöfundsverðan andstæðing.
De Niro í ham sem Jake La Motta að buffa óöfundsverðan andstæðing.
Í KVÖLD kl 21.00 verður á dagskrá Sýnar kvikmyndin Nautið ofsafengna eða Raging Bull sem Martin Scorsese gerði árið árið 1980.
Í KVÖLD kl 21.00 verður á dagskrá Sýnar kvikmyndin Nautið ofsafengna eða Raging Bull sem Martin Scorsese gerði árið árið 1980. Þar er sögð saga hnefaleikakappans Jake La Motta, sem varð nokkrum sinnum heimsmeistari í millivigt, og er það sjálfur Robert De Niro sem leikur nautið ofsafengna, einsog boxarinn var kallaður.

Þótt vissulega séu margir af hnefaleikum kappans sýndir, fjallar myndin um innra ferðalag Jake La Motta. Hann var óöruggur á kynlífssviðinu og sjúklega afbrýðisamur út í unga eiginkonuna. Hann var ofbeldismaður, fullur reiði og sjálfseyðingarhvatar ogf refsaði sjálfum sér í hringnum til að fá yfirbót og syndaaflausn.

Vinirnir De Niro og Scorsese höfðu lengi haft áhuga á ævisögu Jake La Motta en komu gerð myndarinnar aldrei af stað. Þegar Scorsese lá síðan á sjúkrahúsi vegna eiturlyfjaneyslu og þunglyndis eftir New York, New York, mætti De Niro með ævisöguna og dró vin sinn á Kyrrahafseyju þar sem þeir undirbjuggu myndina sem talin er með þeim bestu í kvikmyndasögunni.

Horfið og hlustið vel á Raging Bull því hún þykir snilldarlega unnin tæknilega. Upptökurnar á boxatriðunum tóku 10 vikur í stað þeirra 2ja sem áætlaðar voru. Scorsese braut hefðina með því að fara inn í hringinn með myndavélina, og það er ekki framleidd hnefaleikamynd í dag sem ekki er undir áhrifum frá Raging Bull. Sömuleiðis er hljóðrásin leyndarmál, svo ótrúleg og áhrifarík er hún þótt enginn viti hvaðan öll þessu furðuhljóð koma. Raging Bull var tilnefnd til átta Óskarsverðlauna, en þau hlutu Robert De Niro og klipparinn Thelma Schoonmaker.