HJARTASJÚKDÓMUR getur tengst skorti á D-vítamíni í líkamanum, að mati þýskra vísindamanna.
HJARTASJÚKDÓMUR getur tengst skorti á D-vítamíni í líkamanum, að mati þýskra vísindamanna. Þeir hafa komist að því að D-vítamínmagn í líkamanum er minna hjá sjúklingum með langvarandi hjartveiki, hjartað nær þá eki að pumpa blóði um líkamann í nægilega miklu magni, sem veldur því að líffærin fá ekki nægt magn næringar og súrefnis. Þetta kom fram á fréttavef BBC í vikunni.

Afleiðingarnar eru oft þær að sjúklingar þreytast fljótt, púlsinn rýkur upp og nýrun hætta að starfa eðlilega.

Rannsakendur frá Háskólanum í Bonn, í samstarfi við Bad Oeynhausen-hjartamiðstöðina, einblíndu á D-vítamínskort í framhaldi af rannsóknum á dýrum sem tengdu skort á vítamíninu við hjartasjúkdóma. Sem dæmi nefna þeir að kjúklingar með lítið magn D-vítamíns þróuðu með sér hjartveiki en fljótlega eftir að vítamíni var bætt í fæðu þeirra hvarf vandamálið.

Þjóðverjarnir báru saman 54 hjartasjúklinga við 34 heilbrigða og komust að því að magn D-vítamíns í líkama sjúklinga var um helmingi minna en hjá þeim heilbrigðu. Því meiri skortur á vítamíninu því verra var ástand hjartans.

Vísindamennirnir segja að D-vítamín stjórni að stórum hluta magni kalks í frumum hjartavöðvans. Ef kalsíummagni er ekki stjórnað nákvæmlega getur hjartavöðvinn ekki þanist út eða dregist saman eins og vera ber og getur því ekki pumpað blóði nægjanlega um líkamann.

Mannslíkaminn fær að mestu D-vítamín í gegnum geisla sólarinnar. Skortur á þessum geislum t.d. vegna mikillar inniveru er vaxandi vandamál á heimsvísu. D-vítamín fæst einnig úr fæðunni og lýsi svo dæmi séu tekin.