Hrísateigur 7. Búið er að gera húsið upp á mjög smekklegan hátt.
Hrísateigur 7. Búið er að gera húsið upp á mjög smekklegan hátt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið var upphaflega reist annars staðar en síðan flutt á núverandi stað í stríðinu. Freyja Jónsdóttir fjallar hér um fallegt hús við Hrísateig.

HÚSIÐ var byggt árið 1928 á Reykjavíkurvegi 3. Það var einlyft með porti og risi, byggt úr bindingi, klætt að utan með borðum, pappa, listum og járni á veggjum og þaki. Húsið byggði Hjörleifur Ólafsson, skipstjóri og stýrimaður. Hann nefndi það Gullhól, eftir hól í túninu á æskuheimili sínu.

Hjörleifur var fæddur í Keflavík á Rauðasandi en kenndi sig við Hænuvík í sömu sveit þar sem hann ólst upp. Kona Hjörleifs var Halldóra Narfadóttir, fædd að Haukagili í Hvítársíðu. Hjörleifur og Halldóra fluttu frá Patreksfirði til Reykjavíkur eftir að Hjörleifur varð fyrir slysi um borð í togara og þau byggðu sér umrætt hús í Skerjafirði.

Þau komu á fót nýlenduvöruverslun í húsinu sem frúin rak með manni sínum en Hjörleifur stundaði einnig aðra vinnu. Eftir nokkur ár hættu hjónin verslunarrekstri en eftir að breski herinn kom var um tíma rekin sjoppa í verslunarplássinu.

Húsið flutt í Teigahverfið

Árið 1940 ákváðu Bretar að endurbyggja og stækka flugvöllinn í Vatnsmýrinni og urðu mörg hús að víkja fyrir þeim framkvæmdum. Þá var Teigahverfið að byggjast og voru sum af þessum húsum flutt þangað. Gullhóll var eitt af húsunum sem varð að víkja og var flutt á Hrísateig 7 árið 1942.

Byggður var kjallari úr steinsteypu og húsið síðan endurbyggt á kjallarann, en það var tekið niður í fleka fyrir flutninginn. Fyrsta brunavirðingin á Gullhóli á nýja staðnum var gerð í desember 1942 og segir þar að grunnflötur hússins sé 7.0 x 7.7 m. Innan á útveggjabinding er klætt með insolit-plötum. Insolit-plötur eru einnig neðan á loftbitum.

Milligólf er í báðum bitalögum, með pappa og sagspónum í milli gólfanna. Bæði hæðin og risið eru ýmist veggfóðruð eða máluð. Linoleum-dúkur er á gólfum bæði uppi og niðri og á neðri hæðinni eru gellotex-plötur undir dúknum. Á skammbitum eru gólfborð, þar uppi er þurrkloft.

Á aðalhæðinni, þar sem sölubúðin var á meðan húsið var í Skerjafirði, var gert svefnherbergi, einnig eru þar tvö íbúðarherbergi, eldhús, salerni og anddyri. Í risi eru þrjú íbúðarherbergi, eldhús og gangur. Í kjallara eru loft, gólf og milliveggir úr steinsteypu. Þar eru þrjú geymsluherbergi, þvottaherbergi og gangur. Að utan eru veggir hússins múrsléttaðir (forskalaðir) á vírnet með skeljasandi. Á þaki er kvistur með venjulegum frágangi timburhúsa. Byggður var inngönguskúr með skáþaki við húsið 2.1 x 2.0 m að grunnfleti.

Hjörleifur og Halldóra bjuggu í húsinu ásamt börnum sínum. Þó að þeim liði vel á Hrísateignum er afkomendum þeirra í fersku minni sögur úr húsinu frá því að það stóð við Reykjavíkurveginn í Skerjafirði. Síðar kom í ljós að óþarft var að fjarlægja húsið en það stóð talsverðan spöl frá flugbrautinni og má enn sjá grunn hússins en hann er utan girðingar flugvallarins.

Hjörleifur og Halldóra létust með fárra ára millibili, Hjörleifur 1975 en Halldóra 1982. Eftir lát Halldóru keyptu húsið af erfingjunum Jón R. Hjálmarsson og Guðrún Hjörleifsdóttir, en Guðrún er eitt af börnum Halldóru og Hjörleifs. Sum af börnum þeirra bjuggu í húsinu á meðan þau voru í skóla, en húsið var í eigu sömu ættarinnar í sextíu og fimm ár.

Eigendaskipti 1993

Árið 1993 keyptu núverandi eigendur, hjónin Sæmundur Óskarsson, tæknifræðingur og María Þorgeirsdóttir, kennari, húsið af Jóni R. Hjálmarssyni og Guðrúnu Hjörleifsdóttur. María og Sæmundur eru búin að endurgera húsið á mjög smekklegan hátt. Þegar farið var að vinna að viðgerðum utanhúss kom í ljós talsverður fúi undir forskalningunni.

Komist var fyrir fúann og nýtt járn sett bæði á veggi og þak. Byggt var við húsið að vestan þar sem aðalinngangur var gerður og hýsir sú viðbygging einnig stiga upp í risið. Fyrir framan útidyrnar er stór pallur með rimlahandriði. Einnig var byggt útskot í austur og kvistur sem byggður var á húsið þegar það var reist á Hrísateignum tekinn og nýr kvistur byggður.

Skipt var um alla glugga og eru þeir með sama lagi og þegar húsið var í Skerjafirði. Að innan voru þiljur teknar af útveggjum, sett einangrun en engin einangrun var í útveggjum; síðan þiljað með gifsplötum eða panel. Á aðalhæðinni eru tvær stofur, eldhús og hol. Uppi eru þrjú svefnherbergi, bað og gangur. Í kjallara eru tvö íbúðarherbergi, geymslur og þvottahús.

Allar innihurðir eru nýjar, fulningahurðir með renndum dyrakörmumi, líkar hurðum og körmum sem fyrir voru í húsinu. Einnig eru allir listar eins og gólflistar renndir. Eldhúsið er allt endurnýjað og sérstaklega haganlega fyrir komið. Aðalgólfefni eru parket en flísar þar sem þær eiga við. Garðurinn í kringum húsið er stór og skjólgóður og fjölskyldan búin að leggja mikla vinnu í hann. Sæmundur rekur TSÓ tækniþjónustuna og er með skrifstofu í húsinu.