Á landinu öllu hefur meðalaldur mannvirkja hækkað um rúma fimm mánuði á hverju ári á tímabilinu 1994 til 2002 skv. athugun Fasteignamats ríkisins. Að sögn Snorra Gunnarssonar hagfræðings er öldrunin minnst á höfuðborgarsvæðinu.

Á landinu öllu hefur meðalaldur mannvirkja hækkað um rúma fimm mánuði á hverju ári á tímabilinu 1994 til 2002 skv. athugun Fasteignamats ríkisins. Að sögn Snorra Gunnarssonar hagfræðings er öldrunin minnst á höfuðborgarsvæðinu. Þar hækkaði aldurinn aðeins um tæpa fjóra mánuði á ári. Meðalaldur mannvirkja á Reykjanesi og Suðurlandi hækkaði um tæpa sex mánuði á ári á þessu tímabili, á Vesturlandi hækkaði hann um rúma sex mánuði, tæpa sjö mánuði á Norðurlandi-Eystra og rúma sjö á Austurlandi. Á Vestfjörðum og Noðurlandi vestra hækkaði meðalaldur mannvirkjanna um tæpa tíu mánuði á ári.

Sterk sveifla á milli áranna 2000 og 2001

Telja má eðlilegt að gera ráð fyrir að mannvirkjamassinn eldist í þroskuðum samfélögum. Sum mannvirki eru einfaldlega sígild og munu standa um aldir. Erfiðara er að fullyrða hver sé eðlileg meðalöldrun mannvirkjanna í heild. Það er því að sögn Snorra áhugavert að skoða hvernig öldrun mannvirkjanna hefur verið að breytast á tímabilinu sem hér um ræðir. Jafnt og þétt hefur dregið úr öldrun mannvirkja á landinu í heild. Mest dró úr henni á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi en á síðarnefnda svæðinu kom sterk sveifla á milli áranna 2000 og 2001 þar sem meðalaldurinn beinlínis lækkaði. Í flestum landshlutum hefur öldrunin gengið í sveiflum en þróunin þó verið í þá átt að hægt hefur á öldruninni. Á þessu eru þó undantekningar. Bæði á Austurlandi og á Vestfjörðum hefur öldrunin farið vaxandi. Þessar upplýsingar eru byggðar á gögnum sem skráð eru í Landskrá fasteigna.