HAGNAÐUR Verðbréfastofunnar hf. eftir skatta á árinu 2002 nam 13,9 milljónum króna, samanborið við tap upp á 12,5 milljónir árið áður, að teknu tilliti til þess að beitt var verðleiðréttum reikningsskilum í ársreikningi 2001.

HAGNAÐUR Verðbréfastofunnar hf. eftir skatta á árinu 2002 nam 13,9 milljónum króna, samanborið við tap upp á 12,5 milljónir árið áður, að teknu tilliti til þess að beitt var verðleiðréttum reikningsskilum í ársreikningi 2001. Eigið fé í árslok nam 235 milljónum króna, en heildareignir félagsins í árslok voru 630 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) í árslok var 51,43%, en það má lægst vera 8%.

Rekstrartekjur félagsins á árinu námu 216 milljónum króna, en rekstrargjöld 199 milljónum. Hagnaður fyrir skatta var þannig 17,2 milljónir, en tekju- og eignarskattur nam 3,3 milljónum króna.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir: "Rekstur Verðbréfastofunnar hf. gekk vel á árinu 2002 og varð aukning í rekstrartekjum á flestum sviðum í starfsemi félagsins frá árinu 2001. Þannig jukust rekstrartekjur um 39% á milli ára. Á þeim sviðum sem félagið hefur náð að skapa sér sérstöðu er staða þess sterk og eru allar horfur á því að árið 2003 verði félaginu hagstætt."