Átakshópur öryrkja hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er ábyrgð á hendur ríkisstjórn Íslands vegna þeirrar síauknu misskiptingar sem birtist nú hvarvetna í þjóðfélaginu eins og komist er að orði.

Átakshópur öryrkja hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er ábyrgð á hendur ríkisstjórn Íslands vegna þeirrar síauknu misskiptingar sem birtist nú hvarvetna í þjóðfélaginu eins og komist er að orði.

"Í stað þess að nýta tekjuauka síðustu ára til að taka á því neyðarástandi sem ríkir í tryggingamálum öryrkja hafa ráðandi öfl kosið að nota góðærið til að skara enn frekar eld að sinni eigin köku, bæði með hjálp kjaradóms og með því að misbeita meirihluta sínum á Alþingi. Viðhorfakannanir hafa ítrekað sýnt að yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar er misboðið með þeirri fátæktarstefnu sem stjórnvöld framfylgja í málefnum öryrkja, stjórnarstefnu sem er í raun ekki annað en grímulaus aðskilnaðarstefna, grundvölluð á fötlun.

Átakshópur öryrkjar mótmælir því harðlega að nú, á sjálfu Evrópuári fatlaðra, skuli ekki enn örla á minnstu viðleitni til að gera öryrkjum kleift að lifa mannsæmandi lífi. Á sama tíma er öryrkjum gert að sitja undir stöðugum yfirlýsingum stjórnvalda um þá milljarðatugi sem ráðamönnum dettur nú helst í hug að nota í flata lækkun á tekjuskattsprósentu, lækkun sem gagnast mest þeim sjálfum og öðrum þeim sem hærri hafa launin.

Haldi stjórnvöld áfram að ögra og misbjóða öryrkjum á þann hátt sem hér hefur verið lýst, sér Átakshópur öryrkja sig knúinn til að gera allt sem í hans valdi stendur til að vinna gegn endurkjöri þeirra sem mesta ábyrgð bera í þessum efnum."