Það er alltaf svolítið merkilegt hvað sumir menn eru ófeimnir að koma fram og tala fyrir hönd fólks án þess að hugsa sig tvisvar um. Forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga hvöttu launafólk sl.

Það er alltaf svolítið merkilegt hvað sumir menn eru ófeimnir að koma fram og tala fyrir hönd fólks án þess að hugsa sig tvisvar um. Forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga hvöttu launafólk sl. fimmtudag til fjöldaþátttöku í baráttu gegn fyrirhuguðu stríði í Írak. Af því tilefni birtist Ögmundur Jónasson í fréttum Stöðvar tvö, ekki í líki þingmanns Vinstri-grænna eða stjórnarmanns Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, heldur sem formaður BSRB og sagði: "Hér í fyrsta lagi hefur myndast breiðfylking alls launafólks á Íslandi í þágu friðar gegn stríðsrekstri. Það í sjálfu sér eru skýr skilaboð. Síðan hvetjum við til umræðu og í okkar áskorun hvetjum við til þátttöku í fjöldamótmælum gegn stríðsrekstri ef ekki verður lát á á næstu dögum og vikum."

Það er naumast hvað margir fylkja sér að baki Ögmundi í hans friðargöngu - breiðfylking alls launafólks á Íslandi hvorki meira né minna. Skyldu allir vita af þátttöku sinni í þessari breiðfylkingu? Ögmundur er auðvitað vanur að tala með þessum hætti enda byggist starf hans sem formaður BSRB á nauðungarsamstöðu þar sem allir, sem við á, greiða honum laun hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir sem eru á algjörlega öndverðum meiði geta ekki samkvæmt lögum hætt að greiða Ögmundi laun eins og í flestum frjálsum félögum á Íslandi.

Um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1986 segir: "Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því..." Þar höfum við það. Þótt launþegar hjá hinu opinbera séu gjörsamlega ósammála pólitískum metnaði og áherslum Ögmundar Jónassonar skulu þeir samt greiða honum laun. Þeir þurfa bara ekki að notfæra sér þjónustu samtaka hans!

Þessi grein er í raun dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi," sagði Pétur Blöndal alþingismaður nú síðast í febrúar þegar hann vildi þessa grein í lögunum burt og flutti um það frumvarp á Alþingi. Þingmaðurinn Ögmundur mótmælti auðvitað enda hætt við að margir kjósi að greiða ekki til félags sem formaðurinn Ögmundur stýrir og styðja þannig málflutning hans þegar hann birtist í fjölmiðlum og talar fyrir hönd "alls launafólks".