FYRSTI íslenski hesturinn sem fluttur hefur verið út til Ungverjalands, Sindri frá Bakka í Austur-Landeyjum, var væntanlegur á áfangastaðinn, Búdapest í Ungverjalandi, í gær.

FYRSTI íslenski hesturinn sem fluttur hefur verið út til Ungverjalands, Sindri frá Bakka í Austur-Landeyjum, var væntanlegur á áfangastaðinn, Búdapest í Ungverjalandi, í gær. Honum verður væntanlega ekki í kot vísað þar sem það er borgarstjórinn í Búdapest sem keypti Sindra handa konunni sinni.

Að sögn Gunnars Arnarsonar, hestamanns og hestaútflytjenda, var hesturinn sendur utan fyrir rúmri viku og hafði viðkomu í Austurríki áður en hann var fluttur til Ungverjalands. "Guðfaðir íslenska hestsins, Gunnar Bjarnason, sagði fyrir löngu síðan að framtíð íslenska hestsins yrði stór í baltnesku löndunum þegar fram liðu stundir. Ég er viss um að sú spá á eftir að ganga eftir. Það er gríðarleg hefð fyrir hestum og hestamennsku á þessu svæði þannig að þetta er vonandi byrjunin á einhverju meira. Þetta er mjög skemmtilegt og hefur raunar heilmikið markaðslegt gildi."

Gunnar segir að þetta ár fari ágætlega af stað í útflutningi á hestum. "Auðvitað er þetta ekki eins mikið og þegar mest var en það er komið meira jafnvægi á útflutninginn. Ég hugsa að 1.500 til 2.000 hestar sé svona raunhæfur útflutningur."

Gunnar segir að það séu bein tengsl á milli hagvaxtar og horfna í heimsmálum og eftirspurnar eftir íslenskum hestum erlendis. Um leið og efnahagshorfur batni, hlutabréfamarkaðir fari að taka við sér og bjartsýni á framtíðina aukist sé þess að vænta fólk leyfi sér meira.

Bandaríkjamenn héldu til dæmis að sér höndum. Að vísu hefði verið send út ein sending, en óvissa í þessum viðskiptum væri mikil vegna hugsanlegs stríðs í Mið-Austurlöndum.