Ferðum ferjunnar Baldurs fjölgar úr 7 ferðum á viku í 9 ferðir og er áhöfn Baldurs  ánægð með að geta veitt betri þjónustu. Á myndinni er áhöfnin með skipstjóra sínum, Þresti Magnússyni.
Ferðum ferjunnar Baldurs fjölgar úr 7 ferðum á viku í 9 ferðir og er áhöfn Baldurs ánægð með að geta veitt betri þjónustu. Á myndinni er áhöfnin með skipstjóra sínum, Þresti Magnússyni.
SAMGÖNGURÁÐHERRA, Sturla Böðvarsson, skipaði í haust nefnd sem gera átti úttekt á framtíð ferjurekstrar yfir Breiðafjörð með hliðsjón af þáverandi vegáætlun og ferðaþjónustu. Nefndin skilaði niðurstöðum í janúar og þar voru lagðar til ýmsar breytingar.

SAMGÖNGURÁÐHERRA, Sturla Böðvarsson, skipaði í haust nefnd sem gera átti úttekt á framtíð ferjurekstrar yfir Breiðafjörð með hliðsjón af þáverandi vegáætlun og ferðaþjónustu. Nefndin skilaði niðurstöðum í janúar og þar voru lagðar til ýmsar breytingar. Í kjölfarið skipaði ráðherra þriggja manna verkefnisnefnd til vinna nánar úr tillögunum. Nefndina skipa: Sigurbergur Björnsson, Gunnar Gunnarsson og Kristján Vigfússon.

Ákveðið hefur verið í tilraunaskyni að fjölga ferðum yfir Breiðafjörð yfir vetrartímann. Ferðum verður fjölgað um tvær á viku og brottfarartímar hafa verið samræmdir. Ný áætlun tekur gildi 15. mars. Ferjan Baldur fer alla daga nema þriðjudaga og föstudaga frá Stykkishólmi kl. 13.30 og frá Brjánslæk kl. 17. Á föstudögum og þriðjudögum verða farnar tvær ferðir á dag og er þá farið frá Stykkishólmi kl 9 og 15.45 og frá Brjánslæk kl. 12.30 og kl. 19. Eins og fyrr segir er um tilraun að ræða til að bæta þjónustu við Vestfirðinga.

Þá er verkefnisnefndin að kanna kaup á nýrri ferju til siglinga yfir Breiðafjörð með það markmið að auka flutningsgetuna og stytta siglingatímann yfir fjörðinn. Til skoðunar er ferja í Noregi sem kemur til greina. Ferjan heitir Skudenes, smíðuð árið 1978 og er 900 tonn og 80 metra löng. Hún flytur þrisvar sinnum fleiri bíla en Baldur, eða um 60, og tekur um 300 farþega. Siglingatíminn styttist meira en 20% og yrði ferjan tvo tíma og 20 mínútur yfir Breiðafjörð.

Pétur Ágústsson, útgerðarstjóri Sæferða, sem annast rekstur Ferjunnar Baldurs, segist vera orðinn langeygur eftir niðurstöðum um ferjukaupin og menn séu að falla á tíma. Tíminn fram að sumaráætlun styttist og þó að ekki þurfi að gera mikið við Skudenes til að uppfylla íslenskar kröfur er alltaf eitthvað sem þarf að gera, bæði fyrir skipið og svo hafnaraðstöðu á Brjánslæk og í Stykkishólmi. Pétur segist verða var við mikinn áhuga hjá sínum viðskiptavinum fyrir nýrri ferju. Það verði mikill munur fyrir farþega að ferðast með stærri ferju og hún muni skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustuna á þessu svæði. En málið er enn á borði verkefnanefndarinnar.