Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðakerfisins í heild nam rúmum einum milljarði króna á árinu 2001 og hafði þá hækkað um tæpan þriðjung á tveimur árum frá árinu 1999 þegar kostnaður af rekstri lífeyrissjóðakerfisins var um 760 milljónir króna, samkvæmt tölum...

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðakerfisins í heild nam rúmum einum milljarði króna á árinu 2001 og hafði þá hækkað um tæpan þriðjung á tveimur árum frá árinu 1999 þegar kostnaður af rekstri lífeyrissjóðakerfisins var um 760 milljónir króna, samkvæmt tölum sem er að finna í ársskýrslum Fjármálaeftirlitsins um rekstur lífeyrissjóðanna í landinu. Hækkunin nemur 59% á fimm árum og er enn meiri þegar einnig er tekið tillit til þess skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar lífeyrissjóða sem færður er sem fjárfestingargjöld. Sá kostnaður hefur tvöfaldast á ofangreindu tímabili og að honum viðbættum hefur rekstrarkostnaður lífeyrissjóðakerfisins vaxið um 77% á fimm ára tímabili.

Þegar kostnaður við rekstur lífeyrissjóðakerfisins í heild er skoðaður, þ.e.a.s. sá hluti sem færður er sem rekstrarkostnaður, kemur í ljós að hann var 633 milljónir kr. á árinu 1997, hækkaði í 680 milljónir 1998 og 760 milljónir 1999. Kostnaðurinn hækkaði síðan í 891 milljón árið 2000 sem er rúmlega 17% hækkun milli ára og í 1.006 milljónir kr. 2001 sem er tæplega 13% milli ára. Hækkunin á þessu fimm ára tímabili nemur 59%. Vísitala neysluverðs hækkaði um 24% frá 1997 til 2001.

Á sama tíma hefur lífeyrissjóðunum fækkað um 12 úr 66 sjóðum árið 1997 í 54 sjóði á árinu 2001. Þar af eru 40 sjóðir sem reknir eru án ábyrgðar annarra og 14 þar sem launagreiðendur ábyrgjast skuldbindingar sjóðanna. Hins vegar hefur sjóðfélögum og lífeyrisþegum lífeyrissjóðanna fjölgað verulega. Þannig fjölgaði sjóðfélögum úr 139.086 árið 1997 í 194.453 árið 2001 eða um tæp 40% og lífeyrisþegum fjölgaði úr 41.045 í 52.523 eða um tæp 28%.

Hluti rekstrarkostnaðar færður sem fjárfestingargjöld

Þessar kostnaðartölur segja hins vegar ekki alla söguna, þar sem hluti rekstrarkostnaðar lífeyrissjóðanna er færður sem fjárfestingargjöld. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem færður er undir fjárfestingargjöld meira en tvöfaldaðist á ofangreindu tímabili. Hann nam 303 milljónum árið 1997 en hefur hækkað jafnt og þétt síðan og nam 653 milljónum 2001.

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðakerfisins í heild að viðbættum þessum kostnaði hefur því hækkað úr 936 milljónum kr. árið 1997 í 1.659 milljónir króna árið 2001 eða sem nemur 77% á ofangreindu tímabili.

Tölur um rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna í fyrra liggja enn ekki fyrir.