Ástralía 2001. Myndform. VHS (94 mín.) Öllum leyfð. Leikstjóri: Paul Cox. Aðalleikendur: Julia Blake, Charles Tingwell, Terry Norris, Robert Menzes.

MYNDIR um eldri borgara eru ótrúlega fágætar, ástæðan liggur í augum uppi er við förum í bíó: Þar er meðalaldurinn vel innan við tvítugt. Engu að síður eru gerðar afbragðsmyndir annað slagið um roskið fólk, vandamál þess, umhverfi og lífsviðhorf. Er skemmst að minnast hinnar framúrskarandi Varðandi Schmidt, sem enn gengur í kvikmyndahúsum borgarinnar.

Sú ástralska Sakleysi kemur þægilega á óvart. Þar er einnig fjallað um fullorðnar manneskjur á mannlegan og ekki síst skilningsríkan hátt. Claire (Blake) og Andreas (Tingwell), eru bæði á sjötugsaldri.

Í æsku voru þau ástfangin og hamingjusöm um hríð en örlögin höguðu því svo að leiðir skildi. Árin líða, þau búa á ný skammt hvort frá öðru, hann orðinn ekkill, hún í ástlausu hjónabandi.

Einn góðan veðurdag herðir Andreas upp hugann og skrifar æskuástinni sinni og framhaldið er ljúf og falleg ástarsaga í anda máltækisins að "fornar ástir fyrnist ei". Allar sögupersónurnar eru meðhöndlaðar af virðingu og næmum skilningi á viðfangsefninu sem er allt annað en auðvelt viðfangs. "Við eigum ekki að rústa líf okkar á gamals aldri," segir Claire. Með tímanum finnur hún allt aðra meiningu í þeim orðum en í upphafi. Sakleysi er fyrst og fremst fyrir fólk sem er farið að velta fyrir sér lífsgátunni miklu en höfðar í raunsæi sínu og vitrænni umfjöllun á mannlífsins flókna eðli til allra aldurshópa. Leikin, skrifuð og gerð langt yfir meðallagi. ***½

Sæbjörn Valdimarsson