FORELDRAFÉLAG barna í leikskólanum Tjarnarási sem rekinn er af Íslensku menntasamtökunum hafa sent bæjaryfirvöldum bréf þar sem óskað er eftir að Hafnarfjarðarbær yfirtaki rekstur leikskólans.

FORELDRAFÉLAG barna í leikskólanum Tjarnarási sem rekinn er af Íslensku menntasamtökunum hafa sent bæjaryfirvöldum bréf þar sem óskað er eftir að Hafnarfjarðarbær yfirtaki rekstur leikskólans. Leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri hafa báðir sagt upp störfum frá og með 1. júní nk.

Að sögn Magnúsar Baldurssonar, fræðslustjóra Hafnarfjarðarbæjar, munu bæjaryfirvöld eiga fund með stjórn samtakanna á næstu dögum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.

Bærinn reiðubúinn að taka yfir reksturinn

Samningur við ÍMS rennur út eftir rúmt eitt ár. Magnús segir eina af ástæðunum fyrir því að foreldrar vilji að bærinn taki yfir reksturinn nú sé að þeir vilji ekki að ráðist verði í breytingar sem gilda munu til skamms tíma. Hann segir bæjaryfirvöld reiðubúin að taka yfir reksturinn ef viðræður við ÍMS þróist í þá veru.

"Við ætlum að sjá til en leikskólastjórarnir eru reyndar báðir búnir að segja upp og samtökin verða að vera með stjórnendur sem hafa réttindi til að stýra þessari starfsemi. Spurningin er: hvað vilja þau gera?" segir Magnús.

Fulltrúar Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar munu hitta framkvæmdastjóra leikskólans, Sunitu Ghandi, á fimmtudag, en hún er erlendis sem stendur, og í framhaldi af því verður rætt við fulltrúa úr stjórn ÍMS.

Leikskólastjórarnir sögðu upp störfum fyrir síðustu mánaðamót og er meginástæða uppsagnanna samstarfsörðugleikar milli framkvæmdastjórans og leikskólastjóranna beggja, að sögn Magnúsar.

Mjög sorglegt

Að sögn Gunnar Baldursdóttur, formanns leikskólanefndar, var bréf foreldrafélagsins tekið fyrir á fundi nefndarinnar sl. föstudag og þar var samþykkt að óska eftir viðræðum við ÍMS. Hún segir það mjög alvarlegt að bæði leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri hafi sagt upp störfum og mjög sorglegt að málin hafi þróast með þessum hætti. Yfir 100 börn eru á leikskólanum Tjarnarási.

"Ég vona að þetta leysist á farsælan hátt og án nokkurra láta," segir Gunnur.

Ekki náðist í leikskólastjórana sem sagt hafa upp störfum og fulltrúi foreldrafélagsins vildi ekki tjá sig um málið.