UNDANFARIN ár hef ég valið þann kost að sleppa því að eiga bíl og nota strætó. Þessi ákvörðun hefur sparað mér stórfé sem ég hef síðan getað eytt til þess að fara í óperuna, út að borða eða til þess að kaupa mér föt.

UNDANFARIN ár hef ég valið þann kost að sleppa því að eiga bíl og nota strætó. Þessi ákvörðun hefur sparað mér stórfé sem ég hef síðan getað eytt til þess að fara í óperuna, út að borða eða til þess að kaupa mér föt.

Að sama skapi get ég ornað mér við það að strætó er mjög umhverfisvænn valkostur a.m.k. miðað við þá miklu umferð stórra einkabíla sem viðgengst hér á landi.

Stundirnar í strætó eru oft mínar notalegustu stundir.

Ég hef tíma til að slappa af, horfa út um gluggann og láta strætóbílstjórann um að komast áfram í umferðarmartröð höfuðborgarsvæðisins.

Ekkert stress lengur, ekkert snöggt brems eða stress við að komast áfram á ljósum, bara hægt að slappa af í strætó og njóta þess að virða fyrir sér gamla miðbæinn eða endilanga Hverfisgötuna sem líður hjá eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Strætóbílstjórar eru í mínum augum miklar hetjur. Það er ekki nóg að þeir aki risastórum vögnunum um þröngt gatnakerfi miðbæjarins, heldur gegna strætisvagnabílstjórar mikilvægu félagslegu hlutverki.

Þeir rabba við margan manninn sem manni sýnist að þurfi jafnvel á sérfræðingsþjónustu að halda og þeir leiðbeina einnig fjölda útlendinga á hverju sumri á leið í bæinn eða á hin fjölmörgu gistihús höfuðborgarsvæðisins.

Í strætó ríkir eins konar félagslegt jafnrétti. Öllum er velkomið að ferðast með strætó og skiptir þá engu máli hvar menn standa í þjóðfélagsstiganum.

Ég get ekki varist þeirri hugsun að það væri meinhollt fyrir þingmenn þjóðarinnar og bankastjóra að ferðast með strætó svo sem einu sinni í viku. Í strætó kemst maður í kynni við kviku mannlífsins og þann raunveruleika sem venjulegt fólk þarf að búa við dag eftir dag, ár eftir ár.

Það væri hollt þeim sem ferðast í forstjórajeppunum að skoða það mannlíf sem endurspeglast í gleri strætisvagnanna. Þar má sjá marga sem farið hafa hált á svelli mannlífsins eða dottið í gegnum hriplekt net velferðarkerfisins.

Ferðirnar með strætó hafa vakið mig til umhugsunar um það þjóðfélag sem við búum í og þá hnattvæðingu heimsins sem ýtir æ fleira fólki út á jaðarinn og gerir það "gagnslaust" í samfélaginu.

Einhvern samastað og einhverja félagslega umhyggju verða allir að fá og það er ekki neinn vafi í mínum huga að strætó er hluti af þeirri félagslegu velferð sem við hér á landi viljum státa af og styðja við.

Ég vil þessvegna hvetja sem flesta til þess að prófa að nota strætó. Ég er ekki fjarri því að mér aukist skilningur og viska með hverri ferð, en viska er eins og allir vita eitt helsta markmið mannlífsins.

INGIBJÖRG ELSA

BJÖRNSDÓTTIR,

umhverfisfræðingur,

Fálkagötu 17, 107 Reykjavík.

Frá Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur