"Samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að setja lög um opinberar fjárreiður stjórnmálaflokka."

MIKIÐ hefur verið rætt um áhrif peninga á þjóðfélagsumræðu að undanförnu. Furðufréttir forsætisráðherra um að til hafi staðið að bjóða honum 300 milljónir fyrir vináttu hafa gefið umræðunni nýjan byr. Þrálátt þras um eignarhald á Fréttablaðinu hafa líka bæst við þessa umræðu. Menn hafa jafnvel gengið svo langt að segja að það sé ekkert að marka Fréttablaðið á meðan menn viti ekki hver eigi það og þá um leið hver greiði starfsfólkinu launin.

Á sama hátt hafa forsætisráðherra og helstu málpípur hans s.s. Hannes Hólmsteinn lagst svo lágt að ásaka þá, sem ekki eru þeim þóknanlegir, um mútuþægni og að þeir gangi erinda einstakra fjármálamanna.

Fjármál stjórnmálaflokka

Þessi umræða vekur menn til umhugsunar um fjármál stjórnmálaflokka. Hverjir styrkja flokkana? Það er vitað að stjórnmálaflokkar njóta stuðnings frá Alþingi. Það tel ég eðlilega ráðstöfun því það kostar mikið að halda uppi starfsemi stjórnmálaflokks. Það er líka nauðsynlegt að þeir sem fara með almannavald séu ekki um of háðir fjárstuðningi einstakra fyrirtækja eða fjársterkra einstaklinga, sem e.t.v. vilja fá eitthvað fyrir greiðann. Lýðræðið er besta stjórnarform sem við þekkjum og við verðum að viðurkenna að það kostar peninga. Við eigum að stuðla að því að menn geti haldið pólitískum sjónarmiðum sínum á lofti án þess að verða háðir öðrum vegna fjárstuðnings.

Opinberar fjárreiður stjórnmálaflokka

Eina leiðin til að vita hvort ákveðin fyrirtæki hafa greitt háar fjárhæðir til flokka er að þeir geri grein fyrir þeim stuðningi sem þeir njóta. Þá er hægt að ganga úr skugga um hvort einhver fyrirtæki hafa lagt óeðlilega mikið til þeirra. Þá sést hvort líklegt er að fyrirtæki eigi hönk uppí bakið á þeim flokkum eða forystumönnum þeirra.

Það er merkilegt að hér skuli flokkunum ekki enn vera skylt að tilgreina þá aðila sem fjármagna þá. A.m.k. þá sem greiða hæstu styrkina.

Samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að setja lög um opinberar fjárreiður stjórnmálaflokka.

Það er undarlegt að á meðan forysta Sjálfstæðisflokksins veður áfram með dylgjur um fjármál annarra stjórnmálaafla þorir hún ekki að opna sitt bókhald. Þar er lítill áhugi á að uppvísa hverjir fjárhagslegir bakhjarlar flokksins eru. Efasemdir talsmanna Sjálfstæðisflokksins um trúverðugleika Fréttablaðsins vegna óvissu um eignarhaldið verða hjákátlegar á meðan þeir geta ekki sjálfir upplýst hverjir eru helstu styrktaraðilar flokksins.

Davíð sagði um daginn að enginn gæti keypt Sjálfstæðisflokkinn. Hvers vegna er hann þá ekki til í að opna bókhald flokksins? Hver bannar honum að opna það? Eru það einhverjir fjársterkir stuðningsaðilar?

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekkert til að upplýsa almenning um sín fjármál verður ekki hægt að taka mark á talsmönnum þess flokks. Allra síst um fjármál annarra.

Eftir Jóhann Geirdal

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.