Pílagrímaflugi Atlanta til og frá Sádi-Arabíu er lokið. Flestallir starfsmenn félagsins eru farnir frá svæðinu.
Pílagrímaflugi Atlanta til og frá Sádi-Arabíu er lokið. Flestallir starfsmenn félagsins eru farnir frá svæðinu.
ÞEIR nokkrir tugir Íslendinga sem verið hafa að störfum í pílagrímaflugi á vegum Atlanta í Miðausturlöndum eru langflestir farnir þaðan eða eru rétt í þann mund að fara þaðan.

ÞEIR nokkrir tugir Íslendinga sem verið hafa að störfum í pílagrímaflugi á vegum Atlanta í Miðausturlöndum eru langflestir farnir þaðan eða eru rétt í þann mund að fara þaðan.

"Það eru allir farnir eða að fara burt því seinna tímabili pílagrímaflugsins, þegar flogið er með fólk heim frá Sádi-Arabíu, lauk 15. mars," segir Erling Aspelund hjá Atlanta. "Vélarnar eru allar að tínast til Evrópu, utan tveggja sem fara til Kína í stórskoðun. Mannskapurinn okkar er því nánast allur farinn burt af svæðinu."

Erling segir að Al Barca hafi ætlað að klára að flytja farangur frá Jedda til Nígeríu á mánudag eða í dag, þriðjudag. Það séu síðustu flugin. "Það eina sem var eftir var yfirvigtin hjá Nígeríubúunum því þeir hömstruðu allt sem þeir gátu keypt í Sádi-Arabíu. Þannig að það er ein 747 vél bara í að flytja farangur og raunar búin að vera að því undanfarna daga."

Aðspurður segir Erling að hjá Atlanta séu menn fegnir því að þessu flugi sé lokið og að starfsmenn séu komnir burt. "En við þóttumst alltaf vita að stríðið myndi ekki hefjast fyrr en pílagrímaflugið væri búið því stríð á þeim tíma hefði skapað ægilegt umrót í múslimaheiminum."

Hafþór Hafsteinsson forstjóri Atlanta sagði áætlanir um það hvernig flugfélagið myndi bregðast við stríði hafa verið tilbúnar hjá félaginu fyrir þó nokkru. "Við höfum vitað það allan tímann að það myndi ekki gerast neitt fyrr en pílagrímaflugið væri búið því það hefði sett allt í bál og brand af trúarástæðum."

Gætu þurft að breyta einni flugleið

Hafþór sagði að breytingar gætu þó orðið á fraktflugi flugfélagsins. "Við erum með fraktverkefni þar sem við fljúgum frá Kúala Lúmpúr til Amsterdam og Frankfúrt í gegnum Dúbaí sem er við Persaflóa. Ef það kemur til stríðs verður flugleiðinni breytt þannig að við fljúgum norðar og í gegnum Nýju-Delhí á Indlandi í staðinn og förum þar með norður fyrir átakasvæðin," sagði Hafþór.

Atlanta flýgur víða um heim, t.d. um Suður-Ameríku, Bandaríkin, Karíbahaf og Evrópu og taldi Hafþór stríðið ekki hafa stórvægileg áhrif á flug félagsins þar. "Ef stríðið dregst hins vegar á langinn inn í sumarið hefur það áhrif á allt leiguflug til sólarlanda, til dæmis niður við Miðjarðarhaf og Egyptaland. Það er þá miklu stærra mál fyrir flugheiminn í Evrópu. Svo hefur þetta strax áhrif í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn munu hætta að ferðast um leið og stríðið brestur á svo það verður áreiðanlega mjög hart í ári fyrir mörg flugfélög."

Hafþór sagði óvissuna um stríðið hafa verið mörgum erfiða. "Óvissan er búin að halda eldsneytisverðinu uppi. Eldsneytisverð hefur ekki verið hærra síðan í Persaflóastríðinu 1991. Það er búið að vera að byggjast upp út af þessari óvissu," sagði Hafþór. Hann sagði allsherjarverkfall í Venesúela einnig hafa áhrif vegna olíuframleiðslunnar. "Markaðurinn segir okkur að um leið og ákvörðun um ákveðinn dag sem stríðið hefst liggur fyrir þá komi eldsneytisverð til með að lækka um einn fjórða. Allar bókanir og slíkt eru í frystingu því fólk vill ekki bóka sumarfríið fyrr en það veit hvað muni gerast. Því losar ákvörðun um ákveðna stíflu."